Orðabúrið er hlaðvarp þar sem Kristján Sigurðarson og Pétur Már Sigurjónsson lesa orðabókina eina handahófskennda blaðsíðu í einu og reyna að draga fram það skemmtilega, skrítna, og skelfilega á hverri blaðsíðu.
Í þessum þætti bregðum við af vananum og fáum að heyra uppáhaldsorð níu frambjóðenda til embættis forseta Íslands. Frambjóðendur sem koma fram í þættinum eru: Halla Hrund Logadóttir Eiríkur Ingi Jóhannson Halla Tómasdóttir Baldur Þórhallsson Helga Þórisdóttir Ásdís Rán Gunnarsdóttir Katrín Jakobsdóttir Jón Gnarr Viktor Traustason Arnar Þór Jónsson
Góðan daginn og gleðileg jól! Þessi þáttur, 404 - fundarhald-fúkki, er að vísu ekki jólaþáttur þar sem við erum orðnir uppskroppa með jólasíður í orðabókinni en er mjög skemmtilegur engu að síður með kakó og piparkökur og teppi og kertaljós. Fatasaga Íslendinga fær aldrei þessu vant örlítið að njóta sín og kynngimagnaðir galdratilburðir koma við sögu. Við finnum á síðunni eitt íslenskasta orð sem til er og komumst að því að sendiherrar dagsins í dag eru ekki að standa sig, a.m.k. ekki í greinaskrifum. Við heyrum einnig gamalt röfl þar sem karlmaður vill að konur hætti þessu hekl- og blúndupjatti. Kannski er sá náungi bara furtur með hampvindling, en hann er þó ekki fiskstelandi galdraprestur af Ströndum. Allt um það í þessum þætti Orðabúrsins! Tónlistin í þættinum er eftir Kevin McLeod.
Sælinú! Orðabúrið snýr loks aftur! Það er kominn tími til að ljúka 2. seríu. Að þessu sinni er það síða 854, laga-laggabragð. Stjórnendur gera sitt besta til að halda lagatækniflækjum í lágmarki þrátt fyrir efnivið síðunnar að þessu sinni. Við pælum örlítið í hári kólumbískra fótboltamanna, biðlum til íslensks stórfyrirtækis um að taka tillit til þess að fólk á skeiðar og ræðum um skreyttar kindur. Kók í tréflösku, sænsk börn á lager og höfrungaknapar koma einnig við sögu. Ætíð! Tónlistin í þættinum er eftir Kevin McLeod.
Hó hó hó! Önnur þáttaröð af Orðabúrinu er komin í jólafrí, en örvæntið ekki, hér er annar jólaþáttur Orðabúrsins! Við skoðum síðu 736, jólaskrá-Jónsmessa. Við komumst m.a. að því í gömlum jólaskrám að margir dagar á árinu eru varhugaverðir og að það er sama hvaða dag nýársdag ber upp á, einhver mun deyja en sumarið er alltaf þurrt. Þá eru rifjaðar upp lýsingar á jólum fyrri alda á Íslandi þar sem var t.d. stundað að fela hluti í grjónagraut og við komumst að því að hattbursti er klárlega jólagjöfin í ár. Aðrir óvæntari gestir á borð við norskt öfgarokk, lélega brandara og auðvelt sund skjóta einnig upp kollinum. Tónlistin í þættinum er eftir Kevin McLeod.
Hvað eiga mormónskir stjórnarskrárbrjótendur, dönskusogin setningaskipan og hlaupandi fjólublátt málfar sameiginlegt? Þetta kemur allt fyrir í þessum nýjasta þætti af Orðabúrinu þar sem þáttastjórnendur takast á við síðu 973, málalok-málfrelsi. Óhefðbundin blóm og óhefðbundnir fiskar koma nokkuð við sögu, sem og óhefðbundin ávörp á RÚV. Gamalt nöldur er fyrirferðarmikið, þá sérstaklega meðal málfarskverúlanta, og gamlar mælieiningar ná nýjum hæðum. Þá ákveðum við að halda flámælisdaginn hátíðlegan, hvaða dagur ársins er það? Komist að því í þættinum. Tónlistin er eftir Kevin MacLeod.
Það er óstætt í innsveitum að þessu sinni í Orðabúrinu þegar við lítum á síðu 1114, ósnokinn-ósær. Stjörnuspáin er í frekar miklu óstuði en þau eru alveg með þetta þarna á Eskifirði. Annars staðar á landinu er fólk duglegt að hleypa inn dönsku, eða það er a.m.k. kenning okkar. Þá lærum við um kvalir málfræðingsins og þáttarstjórnendur rekast á mögulega besta orð þáttanna hingað til. Hvaða orð er það? Komist að því í þessum þætti af Orðabúrinu. Tónlistin í þættinum er eftir Kevin McLeod.
Rithöfundur ráfar inn á ritstjórnarskrifstofu. Hvað eru mörg R í því? Það er komið að síðu 49, athugavandur-atómþungi. Hver er höfundurinn? Það er hann Hagalín sem heldur þrumuræðu um hættuna sem stafar af atómkveðskap. Orðabúrarnir ræða einnig um hárdúk í millifóður, blússuföt í skólann og ekki má gleyma Jacquard-vefnaðinum. Atlantíska bandalagið kemur einnig við sögu og fleiri þróaðir pabbabrandarar eru sagðir. Tónlistin í þættinum er eftir Kevin McLeod.
Hlaðvarpið sem stundum sefur er mætt aftur hressara en nokkru sinni. Að þessu sinni skoðum við síðu 892, lesafbrigði-lesta. Væri það þáttur af Orðabúrinu ef ekki færi talsverður tími í fáránlega útreikninga á gömlum mælieiningum? Ég held ekki. Þáttarstjórnendur opinbera sig líka sem tvö ljón og neyð heiðingja kemur við sögu. Grafið er upp athyglisvert orðfæri um kynhneigð og rifjaðar upp deilur um að gefa hinsegin fólki pláss á eigin forsendum í útvarpi allra landsmanna. Tónlistin í þættinum er eftir Kevin McLeod.
Orðabúrið snýr aftur, þó ekki 7 árum á eftir áætlun, með síðu 143, blótfórn-blýþungur! Í þessum þætti veltum við fyrir okkur hversu langt forfeður okkar gengu til að heiðra guðina. Þá segjum við nokkra lélega brandara og komumst að því hverjir heimsóttu land og þjóð árið 1860. Gamalt nöldur og undarlegar mælieiningar eru sem fyrr á sínum stað og gagnsemi blývatns kemur við sögu. Athugið að þið þurfið ekki að hafa áhyggjur af blýeitrun! ATH efnisviðvörun fyrir 10:04-15:20, rætt um blygðunarbrot. Tónlistin í þættinum er eftir Kevin McLeod.
Í þessum sérstaka viðaukaþætti í tilefni kosninga báðum við framboðin um að senda okkur upptöku af einum frambjóðanda í einhverju kjördæmi að segja frá sínu uppáhaldsorði. Við settum þetta síðan saman í stafrófsröð eftir listabókstaf. Þáttakendur voru: XB: Ágúst Bjarni Garðarsson XC: Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir XF: Jakob Frímann Magnússon XJ: Rúnar Freyr Júlíusson XM: Erna Bjarnadóttir XP: Einar Brynjólfsson XS: Guðmundur Andri Thorsson XV: Orri Páll Jóhannsson Kunnum við þeim bestu þakkir. Því miður bárust hvorki svör frá Sjálfstæðisflokknum né Frjálslynda Lýðræðisflokknum fyrir útgáfu. Tónlistin er eftir Kevin MacLeod
Í síðasta þætti var Orðabúrið með 50% meiri krossferðum en er nú með u.þ.b. 125% meiri lúðu. Þáttastjórnendur skoða að þessu sinni síðu 158, bónvax-bragð, misskilja nokkra hluti en gerast líka skáldlegir í meira lagi. Bakkusarþjónkun, hugvekjur um bórax og toiletsápa koma við sögu og svo er aldrei að vita nema frú Brabra láti sjá sig! Tónlistin í þættinum er eftir Kevin McLeod.
Kæru hlustendur, það er margt að varast í þætti vikunnar, sem fjallar um síðu 964, margurinn-maríulifur. Til dæmis er ekki gott að borða náttlampa eða skilja geitur eftir hvar sem er. Margýgur er líka hættuleg enda ein af ókindum hafsins. En það eru líka góðar fréttir, við fáum góð ráð um hvernig megi bræða af sér fitu meðan maður sinnir heimilisstörfum og gamlir góðir vinir á borð við óskiljanlegar mælieiningar og sækýr koma að sjálfsögðu einnig við sögu. Tónlistin í þættinum er eftir Kevin McLeod.
Það er komið að síðu 1088, okþóa-onað. Í þættinum lærum við meðal annars að lægja öldur með olíupokum og höfum ólíkar skoðanir á ágæti orðsins olíusósa. Við heyrum bréf frá Íslendingi á Skotlandi og höfum áhyggjur af sviknum hörkökum en það er alltaf mikilvægt að hafa mikið af holdgjafaefnum. Tónlistin í þættinum er eftir Kevin McLeod.
Efni þáttarins að þessu sinni er síða 1356, skrofhærður-skrunka. Við heyrum af skrollandi skrokkskjóðum og megnum skruggueldi og lesum um pólitísk-póetísk ærsl og skrípalæti. Þá er einnig bullað um metafýsík og sjálfsprottin ker. Lesendur fá nokkur góð, ensk ráð til að pirra manninn sinn og ráð um hvernig sé best að haga drykkju. Þá er aldrei að vita nema Ferris Bueller, Ungaraland og lygapokar skjóti upp kollinum. Tónlistin í þættinum er eftir Kevin McLeod.
Það er komið að síðu 1490, stórræði-stóuspeki. Það má með sanni segja að þetta sé stór þáttur, þar sem við stundum stórsvig milli sjómennsku og styrjalda. Við fjöllum um hvað tölvur (computers) hafa tekið miklum framförum og hættum okkur inn í Evrópu á millistríðsárunum. Siðleysi áfengissölumanna fær á baukinn, og við komumst að því að það er til svo miklu, miklu betra orð fyrir óperu. Tónlistin er eftir Kevin McLeod. Þessi þáttur markar eins árs afmæli Orðabúrsins! Ef þú hefur gaman af máttu endilega deila þættinum með fleirum. Svo erum við með Facebook-síðu ef þú vilt fylgjast með. Takk fyrir að hlusta.
Við færum okkur í blaðsíðu 246, dýpka-dýrmenni. Það er nóg um dýrðir að þessu sinni (bókstaflega), en einnig talsvert af dýrum. Enn og aftur lærum við um ýmsa kirkjudaga, tölum fyrir dýravernd og gegn ljótum dýragildrum. Við fáum að heyra óáreiðanlega en nákvæma stjörnuspá og deilum um muninn á ólíkum kórónum. Mundu svo að það er í Hollywood sem þú sérð stjörnurnar! Rétt er að hafa eina leiðréttingu, en dýridagur var 2. júní í ár, ekki 30. maí eins og ranglega er haldið fram í þættinum. Tónlistin er eftir Kevin McLeod.
Það er komið að síðu 462, glerfínn-gleypinn. Er rímum farið að vaxa skegg? Hvernig tengist suðuramerísk höfuðborg þýskum Amazon-pökkum á Íslandi? Svör við því fást í Orðabúrinu. Mánaskin, mágasólskin og ungur maður með glerkuntu koma einnig við sögu, og við veltum fyrir okkur hvort fólk hafi framið dýraníð af tómum leiðindum í gamla daga. Tónlistin í þættinum er eftir Kevin McLeod.
Í þættinum ræðum við síðu 486, hygli-hysja. Við dýfum hylkjunum í hylinn og öndum að okkur hyldi. Við rekumst á nokkra hyrninga og klæðum okkur í hypilinn. Þá koma gígantískir kálfar við sögu og hver veit nema sýslað verði með hrossgarnir. Tónlistin í þættinum er eftir Kevin McLeod.
Í þessum fyrsta þætti nýrrar þáttaraðar tæklum við síðu 591, hjartatindur-hjálmabönd. Við afneitum allri hjáfræði og komumst að því hvað við vitum lítið um hrífugerð. Einnig ræðum við hvað matargerð fyrr á öldum var ólystug. Við erum óvissir um hvað flokkast sem rekkjunautur, og föttum að við erum ekki nógu ósammála. Hjassar koma líka við sögu.
Það jólar! Í þessum sérstaka jólaþætti af Orðabúrinu jólum við okkur hressilega í gang og ræðum hin ýmsu jólaorð sem koma fyrir í orðabókinni. Við lærum áhugaverða uppskrift að meðlæti, ræðum líkindi með stofnunum og jólasveinum, og förum ef til vill í jólaköttinn. Engin jólalög eða jólabjór samt en ef til vill örlítil óvænt uppákoma. Gleðileg jól!
Þá er komið að lokum fyrstu þáttaraðar! Í þessum þætti rifjum við upp gullmola, gersemar og groddaskap, og allt þar á milli. Orðabúrið snýr svo aftur fljótlega í sérstökum jólaþætti. Ekki missa af því!
Á síðu vikunnar, 1627, römbum við sumpart á svipaðar slóðir og í fyrsta þætti seríunnar, 1588. Eldri merking og notkun orðsins typpi veldur því að ýmsar auglýsingar og sögur frá fyrri hluta 20. aldar eru hreinlega hlægilegar í dag. Við ræðum líka tyllisætt stórveldanna fyrir stríð og óþarfa blammeringar í garð Tyrkja og einn einmana tyngling á himnum uppi. Þá heyrum við meðal annars um harða skítaköggla, synda syndaseli og aumingja í upphituðum húsum. Tónlistin er eftir Kevin MacLeod.
Í þætti vikunnar fá páska- og tímatalsreikningar aftur töluvert pláss, enda mikið áhugamál þáttarstjórnenda. Að öðru leyti er mikið rætt um þorsk, þorskígildi og þorskastríðið og gamlar mælieiningar skjóta enn eina ferðina upp kollinum ásamt undarlegri beitu. Ekki gleyma að hafa þurr nærföt til skiptanna þegar þið farið á hákarlaveiðar!
Í þætti vikunnar kíkjum við á síðu 1130, péturskóngur-pinnaður. Við fræðumst um pétursær og -kýr og heyrum af löngum málaferlum og deilum á þingi vegna péturslamba. Illa er farið með föt íslensks málaliða og frönsk kurteisi veldur vandræðum. Ýmis misfalleg orð eru notuð um kvennabaráttu 20. aldar en tekið er til varna fyrir erlend orð í sjómannamáli, meðal annars af öryggisástæðum. Skíðaiðkun Seyðfirðinga kemur við sögu og keikó fær orðið í smástund.
Hafiði heyrt um prestinn sem átti prest, át prest, týndist því hann fann engan prest og dó þegar presturinn fór í sundur? Við kynnumst honum í þætti vikunnar og ræðum m.a. óskiljanlegar aðferðir við að reikna út páska og veltum fyrir okkur hvort klámhundar hafi komið að því að semja íslenskan líffræðiorðaforða. Síða vikunnar er 1143, prestssetur-prísund. Tónlistin er sem fyrr eftir Kevin MacLeod. Munið að taka börn ekki upp á höfðinu!
Í þætti vikunnar skilum við skömminni um fáfræði okkar um gamlar fötur og komumst að því að það hefur verið leiðinlegt að vera fjósamaður í riðtíðarmánuði árið 1873 og almennt ekkert sérstakt að vera á landinu, enda löngum verið fátækrahatandi skítahola. Frjálshuga æskufólk stígur dansspor við ágætt dæmi um fönk og við fáum að heyra ýmislegt um Sínverja. Munið að þvo slorkútana upp úr pusunni! Síða vikunnar er 416, fönix-g. Tónlistin er eftir Kevin MacLeod.
Vissirðu að Darwin var ekki markaðsmaður? Ekki við heldur. Útvalning hans á orðum kemur m.a. fyrir í þætti vikunnar en ræstiduft var ekki eitt þeirra sem hann kaus að nota. Við komumst að skemmtilegu norsku heiti fyrir útvarpsfólk en svör þáttarstjórnenda við hrikalegum smásmugulegum tittlingaskít frá pennafretandi pólitíkus taka töluvert pláss. Síða vikunnar er 1679, úttala-útvindur.
Í þessum afar stutta þætti skoðum við síðu 523, halda-halda, og vitum í raun ekki hvað við eigum að halda. Við ræðum framhjáhöld og sjóndeildarhringinn, og leggjum til viðbót við sígilt jólalag.
Í þætti vikunnar skoðum við orðin æskualdur-ætla sem prýða síðu 1860. Æskan er allsráðandi og aðdáendur Here comes Honey Boo Boo og Follow that food geta tekið gleði sína. Við deilum um hvort gott sé að vera æskuheitur eða ekki og konur gleymast í æskulýðsstarfi. Við lærum að greina hvort fiskar séu ætir og komumst að því að Englendingar eldast mun betur en Frakkar.
Í þætti vikunnar sængum við í sæluhúsi þegar við kynnumst ýmsum orðum sem byrja á sæ-. Við fáum okkur sængurkaffi og ræðum m.a. gamla íslenska brúðkaupssiði og ólíka gauka. Pétursskip og önnur skip koma við sögu, sem og gömul aðferð sjómanna við veðurspár. Við heyrum frásögn af gífurlöngum sænaðri og Víkverji er ósáttur við þungaskattinn. Varist sænautin!
Í gullþungum þætti vikunnar göngum við inn um Gullvörtu, komumst að því að 5000 er miklu minna en milljón og að síld getur verið lax (eða að lax getur verið síld). Við lærum líka um óþarfa samheiti fyrir gyllinæð og að gullplötur eru flóknar. Japansk-frönsk hjón sem ræktuðu maðka á 9. áratugnum og skítþvottur þeirra koma við sögu og hin sívinsælu sælindýr láta aftur á sér kræla eftir verðskuldað frí, þó ekki á Gullströndinni.
Í þætti vikunnar er rætt um miðaldaerjur þar sem meðal annars er beitt þeirri þjóðlegu aðferð að koma í veg fyrir að fólk komist á salernið. Hýperlýsingagleði ákveðins fréttaritara í Madríd kemur við sögu og við bregðum okkur í alsælualdamótapartí eftir viðkomu í Rússlandi. Einnig er skorað á orðanefndir fagfélaga að hætta þýða allt með orðinu dreifing. Þá ræðum við forn-grískt drekasæði og óbeit eldklerks á kommúnistum. Drekar eru fyrirferðarmiklir, hvort sem þeir eru skip, lömb eða menn, sem og drekkur, drekkur og drekkur. Tónlistin er eftir Kevin MacLeod.
Í þætti vikunnar koma samheiti fyrir niðurgang enn og aftur fyrir eyru hlustenda því ásakanir um bullandi nillara á fyrri hluta 20. aldar fá að fljúga. Þá er eldræða séra Frasiers um lífstykki í Ottawa saga sem enginn má missa af og ætti í rauninni skilið að hljóta umfjöllun Veru Illugadóttur í Í ljósi sögunnar. Þáttastjórnendur taka upp líkakrákinn og grafa upp ýmis kostuleg orð og enn betri dæmi um notkun þeirra. Passið að kaupa kína-lífs-elexírinn og ekki drekka kóleru!
Að þessu sinni ræðum við orðin perlukvistur til persónuleiki. Nett skilgreining á orðinu permanent vekur kátínu og perlusmokkur þýðir ekki það sem þú heldur. Við veltum fyrir okkur aðferðum við að breyta ákveðnum steinum í froðu og komum við í Úsbekistan en komumst ekki til Persíu. Við finnum hins vegar fjársjóð á Vestfjörðum þegar við uppgötvum staðbundinn íslenskan orðasjóð sem kemur að góðum notum, eða eitthvað.
Í þætti vikunnar eru tekin fyrir orðin fellafífill til felustaður. Rætt er um kosti og galla þess að mála herstöðvar í felulitum og þáttastjórnendur uppgötva undarlegt veigrunarorð um kjöt sem neytt var á föstunni fyrir páska. Þeir ramba einnig á líklega eitt af fáum orðum í íslenskum orðaforða af pólýnesískum uppruna. Morðvopn vikunnar og getraunin eru sem fyrr á sínum stað. Tónlistin í þættinum er eftir Kevin MacLeod.
Í fimmta þætti færum við okkur á hina vængjuðu síðu 1780: vægur - vængjatak. Við ræðum vændishöfðingja og vænghúfur, hversu óþarflega mörg samheiti eru til í íslensku yfir niðurgang og komumst einnig í smá vængbobba. Spurningar vakna um hvort hægt er að hafa ofnæmi fyrir vængaldini og hvort vængjahestur er sér- eða samnafn. Sumarsmellurinn um vængdílafluguna fær einnig að hljóma. Tónlistin í þættinum er sem fyrr eftir Kevin MacLeod.
Í þætti vikunnar ræðum við orðin kústi til kvalnautnamaður. Vesturþýskt símaklám, japlandi endur og háværir froskar koma við sögu, þó ekki sömu sögu. Menn fengu sér rækilega á kútinn en kvökluðu ekki og óþægileg tvíræðni orðsins kvalapula veldur hugsanlega vandræðum. Við heyrum færeyska frásögn af manni sem lenti í 127 hours aðstæðum og vonum að þið fyrirgefið smá mjálm í frekum ketti.
Í þriðja þætti Orðabúrsins skoðum við orðin dúnfjöður til dvalarstaður. Fyrrverandi, núverandi og verðandi MR-ingar, ekki hlusta á fyrstu fjórar mínúturnar, bara út af einni ástæðu. Við ræðum um morðvopn í fyrsta sinn og orðið dinglstöng verður til. Við dústrum niður köku og förum í nokkra jólaleiki, meðal annars að þekkja fólk með sleifum. Varist dúnflóna og hafið auga á dúsanum á titjunni.
Í þættinum skoðum við orð á síðu 793 í Íslenskri orðabók, knapaknattleikur til knérunnur. Við komumst að því að ensk stafsetning hefði getað verið auðveldari og ræðum hvort hægt sé að veiða túnfisk á öngul. Við förum yfir það hvers vegna Svíar eru ólíklegir til að finna hvítlauk í íslenskum búðum og komumst að því að við vitum ekkert um knastása en aðeins meira um vinsældir jólasveinanna. Getraun vikunnar hefur göngu sína og orðið kappmella þýðir ekki það sem þú heldur að það þýði.
Í þessum fyrsta þætti Orðabúrsins skoðum við orð á síðu 1588 í Íslenskri orðabók. Við kynnumst Orðfáki og komumst að því hvað “réttu mér hvíttið” þýðir. Orðið besefi og epísk færsla þess í Íslenskri samheitaorðabók kemur við sögu í þættinum, sem var ekki tekinn upp á Tíbúrtíusmessu en er samt skemmtilegur. Skúrkur þáttarins er orðið titja. Læknir þáttarins er Hildur Margrét Ægisdóttir. Tónlistin í þættinum er eftir Kevin MacLeod.