Fréttir og fréttaskýringar í útvarpi þar sem kafað er dýpra í málin, þau sett í stærra samhengi og skýringa leitað.
Fjölþáttaógnir færðust nær Íslandi þegar loka þurfti Kastrup -flugvelli í Kaupmannahöfn vegna óþekktra dróna. Aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra segir óvinveittum ríkjum hafa orðið ágengt með þennan hernað sinn; ein lítil og eðlileg bilun geti sett stjórnkerfið af stað. Sérfræðingur í samgöngurannsóknum segir að innviðafélag, líkt og innviðaráðherra vill stofna, ætti að geta leyst úr fjölda verkefna sem lengi hafa legið ókláruð í vegakerfinu. Þar megi ekki einblína of mikið á jarðgöng. Mörg önnur verkefni séu afar brýn, eins og brúagerð og langir kaflar á hringveginum. Útgerðarmenn og bæjaryfirvöld í Stykkishólmi kalla eftir að ráðherra gefi út reglugerð um skel- og rækjubætur tafarlaust þrátt fyrir að endurskoðun byggðakerfis í sjávarútvegi standi yfir. Þótt skelbætur hafi átt að vera tímabundin ráðstöfun benda þau á að gera þurfi upp ójafnvægi í úthlutun veiðiheimilda frá árdögum fiskveiðistjórnunarkerfisins.
Play ætlaði sér að vaxa of hratt og viðskiptamódelið gekk ekki upp, eins og fulljóst er við fall félagsins. Spurningar vakna líka um hvað varð um tvo og hálfan milljarð sem fengust í sumar, segir Steinn Logi Björnsson fjárfestir sem þekkir vel til í flugrekstri. Þótt þrjú flugfélög hafi fallið á öldinni telur hann allt eins líklegt að aftur verði til félag vil hlið Icelandair. Spegillinn hefur sagt frá nýju lagafrumvarpi Eyjólfs Ármannssonar innviðaráðherra, sem hefði í för með sér að greiddur yrði fasteignaskattur af öllum mannvirkjum fyrir orkuframleiðslu. Lögfræðingur Samorku - Samtaka orku- og veitufyrirtækja á Íslandi, segir margt óljóst í áformum ráðherrans og margir hafa áhyggjur af aukinni skattlagningu á orkumannvirki. Sveitarfélög fagna hins vegar mörg hver.
Framleiðslukostnaður við tökur á kvikmyndinni Ódysseifur hér á landi var áætlaður rúmlega tveir og hálfur milljarður og endurgreiðsla úr ríkissjóði tæplega níu hundruð milljónir, sem yrði næsthæsta endugreiðsla fyrir kvikmyndaverkefni frá upphafi. Innviðaráðherra hyggst með nýju lagafrumvarpi sjá til þess að greiddur verði fasteignaskattur af öllum mannvirkjum sem reist eru til orkuframleiðslu hér á landi. Samtök orkusveitarfélaga fagna þessu og segja mikla mismunun felast í alls kyns undanþágum í núverandi fyrirkomulagi. Íslensk málnefnd birti í gær árlega ályktun sína um stöðu íslenskrar tungu. Ályktunin er að þessu sinni helguð gildandi regluverki um þjóðtunguna og því sem brýnast er að skoða, gera, breyta og bæta til að auka skilvirkni þess. Þar er fyrst á blaði tillaga um styrkja íslenska tungu með því að festa það í stjórnarskrá, að íslenska skuli vera þjóðtunga Íslendinga og opinbert mál á Íslandi
Ivan Kaufmann, kaupsýslumaður frá Liechtenstein, hefur stefnt utanríkisráðherra fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur. Hann krefst þess að ákvörðun ráðuneytisins, um að meina honum að taka sæti í stjórn Vélfags í byrjun mánaðarins, verði felld úr gildi. Hann segir ráðuneytið hafa meðhöndlað sig eins og svikahrapp. Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra hefur lagt fram frumvarp til laga um breytingar á sveitarstjórnarlögum þar sem meðal annars er lagt til að ef íbúar sveitarfélags eru færri en 250, þann fyrsta janúar ár hvert, skuli ráðherra eiga frumkvæði að því að sameina það aðliggjandi sveitarfélagi. Fyrsta haustlægð ársins er í þann mund að skella á. Hún er óvenju seint á ferðinni, og í allra blautasta lagi. Veðurstofan hefur gefið út gula viðvörun um mestallt land vegna sunnan og suðaustan hvassviðris. Spár gera ráð fyrir allt að 25 millimetra úrkomu á klukkustund til fjalla og á jöklum þar sem mest rignir, og tíu millimetra á klukkustund á láglendi.
Mette Frederiksen forsætisráðherra Danmerkur og Jens-Frederik Nielsen formaður grænlensku heimastjórnarinnar báðust formlega afsökunar á lykkjuhneykslinu í dag við athöfn í Katuq menningarhúsinu í Nuuk. Fjöldi kvenna var við athöfnina og sumar stóðu í sorgarklæðum því reiðin og sársaukinn hverfur ekki. Anna Kristín Jónsdóttir fylgdist með fundinum og ræddi við Vilborgu Ásu Guðjónsdóttur alþjóðastjórnmálafræðing. Göng undir Klettsháls gætu verið besti jarðgangakosturinn á Vestfjörðum ef marka má greiningarvinnu fyrir nýtt svæðisskipulag í landshlutanum, og mikilvægasta vegabótin væri á veginum frá Bíldudal inn Arnarfjörð. Þegar rýnt er nánar í gögnin kemur þó fljótt í ljós að enn skortir undirbúningsvinnu og rannsóknir til að hægt sé að taka afgerandi ákvarðanir. Gréta Sigríður Einarsdóttir fjallar um málið og ræðir við Gerði Björk Sveinsdóttur, sveitarstjóra í Vesturbyggð. Það geisar menningarstríð milli Bandaríkjanna og Evrópu og það ristir dýpra en átök um viðskiptakjör og öryggismál. Þetta er meginniðurstaða nýrrar skýrslu sem kynnt var í Brussel í gær. Björn Malmquixt rýndi í skýrsluna fyrir Spegilinn. Umsjón: Ævar Örn Jósepsson Tæknimaður:: Kormákur Marðarson.
Þótt enn sé langt eftir af kjörtímabilinu á breska þinginu er tekið að næða um Keir Starmer, leiðtoga Verkmannaflokksins og forsætisráðherra. Fimm ráðherrar í ríkisstjórn hans hafa sagt af sér eftir hneykslismál og á meðan eykst fylgið við Reform-flokk Nigel Farage - við kynnum okkur stöðuna í breskum stjórnmálum á eftir. En fyrst eru það flygildin yfir Kastrup-flugvelli. Óvíst er hverjir flugu drónum við Kastrup og Gardemoen þótt spjótin beinist að Rússum. Þingmaður og fyrrverandi flugumferðarstjóri segir flugvelli fyrir viðkvæma fyrir truflunum af þessu tagi og flugsamgöngur almennt.
Bæjarstjórinn á Akureyri segist hafa áhyggjur af breyttri heilbrigðisþjónustu eftir að verktakasamningum við sérgreinalækna á sjúkrahúsinu þar í bæ var sagt upp. Heilbrigðisráðuneytið bað forstjóra heilbrigðisstofnana að fækka samningum sem gætu falið í sér gerviverktöku. Netárás um helgina, sem setti starfsemi flugvalla í Evrópu úr skorðum, var áminning um hversu mikilvægar netvarnir eru; og það er líklegt að fólk þurfi að vera undir það búið að netárásum á mikilvæga innviði fjölgi.
Nítjándi refsipakki Evrópusambandsins gegn Rússum var kynntur í dag, sambandið ætlar að skrúfa fyrir allt rússneskt gas og herða aðgerðir gegn skuggaflotanum. Og Deilur um mögulegar virkjanir í skagfirskum jökulám hafa blossað upp að nýju Formaður allsherjarnefndar Alþingis segir bið þeirra sem hafa sótt um íslenskan ríkisborgararétt óásættanlega. Vísbendingar eru um að það lága verð sem fólk greiðir fyrir slíka umsókn hafi skapað rangan hvata og óeðlilegt álag á Útlendingastofnun. Rúmlega tvö þúsund umsóknir um íslenskan ríkisborgararétt eru nú til meðferðar hjá Útlendingastofnun.
Vatnaskil hafa orðið hjá dönskum stjórnvöldum í öryggis- og varnarmálastefnu. Danir ætla að kaupa langdræg vopn, efla loftvarnakerfi og innviði á Grænlandi. Þeir eru þó ekki einir um að setja meira fé í varnir og öryggismál því sú er þróunin víða í Evrópu. Forsvarsmönnum í verkalýðshreyfingunni líst illa á að ríkisstjórnin vilji stytta tímabil atvinnuleysisbóta um ár og afnema áminningarskyldu hjá hinu opinbera sem undanfara uppsagnar. Þeir telja að skort hafi samráð við aðila vinnumarkaðarins.
Hópur Íslendinga aðhyllist ofbeldisfulla hugmyndafræði og aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá greiningardeild ríkislögreglustjóra segir deildina reglulega fá ábendingar um tengsl Íslendinga við slíkar hugmyndir; Það getur tekið mörg ár að berja í brestina þegar loka þarf stórum fyrirtækjum og segja upp fjölda fólks. Fjárfestar töpuðu tugum milljarða á stóriðjurekstri í Helguvík og nú er allt gert til að bjarga rekstri kísilvers PCC á Bakka. Enn og aftur er bandarískt samfélag heltekið af skotárásum og byssuofbeldi, sérstaklega í skólum og stjórnmálum.
Ísraelsstjórn réðst í dag inn í Gaza-borg á sama tíma og rannsóknarnefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna sakaði hana um þjóðarmorð. Þetta er í fyrsta skipti sem alþjóðastofnun notar slíkt hugtak um stríðsrekstur Ísraela á Gaza - við ætlum að ræða hvað felst í þessu hugtaki og hvaða skyldur ríki eins og Ísland hafa til að koma í veg fyrir þjóðarmorð við Kára Hólmar Ragnarsson, dósent við Háskóla Íslands og sérfræðing í þjóðarrétti. Fyrr í dag ræddi hins vegar Hallgrímur Indriðason, fréttamaður, við Magnús Þorkel Bernharðsson, prófessor í nútímasögu Miðausturlanda, um framvinduna í dag og spurði hann fyrst hvað það þýddi að landhernaður Ísraels væri hafin í Gaza-borg.
Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, er á leið í heimsókn til Kína. Hernaðarsagnfræðingur telur að það yrði sérstakt ef forsetinn kæmi þar ekki á framfæri afdráttarlausri stefnu Íslands gagnvart innrásarstríði Rússa í Úkraínu. Endurómur af erlendum íhaldssömum viðhorfum að konur eigi að draga sig úr skarkala hins opinbera lífs og helga sig heimilisstörfum og barneignum, hljómar sífellt hærra hér á landi. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir segir að þarna þurfi að spyrna við fótum. Þær raddir verða sífellt háværari sem gagnrýna Sameinuðu þjóðirnar og telja þær magnvana andspænis stríði og ófriði í heiminum. Sameinuðu þjóðirnar setja ekki lög og fastaþjóðir í öryggisráðinu beita neitunarvaldi.
Þverpólitískur samráðshópur kynnti í dag skýrslu um inntak og áherslur Íslands í varnar- og öryggismálum, málaflokki sem hefur fengið aukið vægi í allri umræðu, ekki síst eftir innrás Rússa í Úkraínu. Að skýrslunni stóðu þingmenn allra flokka nema Miðflokksins og skýrsluhöfundar voru sammála um að töluverð vinna væri framundan til að tryggja öryggi og varnir Íslands. Utanríkisráðherra sagði, þegar hún ávarpaði pallborðsumræður um skýrsluna í morgun, að það væri mat nokkurra samstarfsríkja Íslands að Rússar myndu ráðast gegn ríki Atlantshafsbandalagsins innan fárra ára og það væri einfeldni að halda að slíkt myndi ekki gerast. Starfsmanni héraðssaksóknara var veitt réttarstaða sakbornings eftir að Jón Óttar Ólafsson, lykilmaður í PPP-málinu svokallaða, lét að því liggja í skýrslutöku í sumar að starfsmaðurinn hefði haft aðgang að gögnum hans og samstarfsmanns í gegnum fjaraðild. Starfsmaðurinn vísaði þessu á bug í skýrslutöku og sagði frásögn Jóns Óttars ekki ganga upp; hvorki í tíma né tæknilega. Þetta kemur fram í gögnum sem Spegillinn hefur undir höndum.
Charlie Kirk, sem var myrtur á fundi í Háskóla í Utah var kosningahvíslari Donalds Trumps hjá unga fólkinu en fyrst og fremst kristinn aðgerðasinni. Pólitískt ofbeldi er órjúfandi þáttur af bandarískri stjórnmálasögu og nú rís bylgja þess sem sér ekki fyrir endann á. Einn af þingmönnum þýska hægriflokksins AfD, Alternative fur Deutschland, var í dag sviptur þinghelgi, vegna gruns um að hafa þegið mútur frá fyrirtækjum með tengsl við Kína. Ákvörðunin var samþykkt samhljóða á þýska þjóðþinginu í morgun.
. Pólland hefur ekki verið nær stríðsátökum frá lokum seinna stríðs, sagði forsætisráðherra Póllands eftir að drónar frá Rússlandi voru skotnir niður í pólskri lofthelgi. Við ætlum að ræða þá stöðu sem upp er komin í Evrópu við þau Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, þingmann sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi utanríkisráðherra, og Erling Erlingsson, hernaðarsagnfræðing en líka Friðrik Jónsson, sendiherra Íslands í Póllandi.
157 máli eru á þingmálaskránni, rúmlega þriðjungur þeirra er endurfluttur - sumum hefur verið lítillega breytt. Viðbúið er að fæst þessara mála verði að lögum. Þingflokksformennirnir Ragnar Þór Ingólfsson Flokki fólksins og Ingibjörg Isaksen Framsóknarflokki ræddu um komandi þing og skrána.
Hallinn á fjárlagafrumvarpinu er áætlaður 15 milljarðar og stefnt er að hallalausum fjárlögum 2027 - markmið sem fjármálaráði finnst vera metnaðarfullt en og fjármálaráðherra segir að ekki megi þá verða nein áföll sem, hafa þó verið regla frekar en undantekning síðustu ár. Samtök iðnðarins eru ánægð með aðhaldið sem frumvarpið ber með sér en helsta markmiðið sé ða tryggja stöðugleika, lækka verðbólgu og vexti.
Þingsetning verður á þriðjudag. Síðasta þingi lauk með hvelli þegar umræðunni um veiðigjaldsfrumvap ríkisstjórnar var slitið. Hefur tekist að bera klæði á vopnin eða mæta þingmenn til leiks í vígahug? Sigmar Guðmundsson og Ólafur Adolfsson fara yfir stöðuna. Þjóð gegn þjóðarmorði heitir fjöldafundur sem boðaður hefur verið á sex stöðum á landinu á morgun; Reykjavík, Stykkishólmi, Ísafirði, Akureyri, Húsavík og Egilsstöðum. Þetta er fundur yfir hundrað og sextíu samtaka og félaga þar sem stríðsrekstri Ísraelsstjórnar á Gaza verður mótmælt og þess krafist að íslensk stjórnvöld stígi fastar til jarðar.
Tjón sveitarfélagsins Norðurþings vegna stöðvunar kísilvers PCC á Bakka er metið á 700 milljónir króna. Sveitarstjórinn býst við raunhæfum lausnum við vandanum frá starfshópi sem á að skila af sér í næstu viku. Kína sýndi mátt sinn og megin á hersýningu í vikunni. Leiðtogi Kína tók sér líka afdráttarlausa stöðu með leiðtogum Rússlands og Norður-Kóreu. Skilaboð til alls heimsins segir alþjóðastjórnmálafræðingur. Stærsta fríverslunarsvæði heims verður til, ef viðskiptasamningur Evrópusambandsins við Mercosur ríkin fimm í Suður-Ameríku verður að veruleika. EFTA ríkin fjögur eru við það að staðfesta sambærilegan samning.
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra segir að þrátt fyrir að aðstæður í Úkraínu séu skelfilegar hafi stríðið enn sýnt og sannað mikilvægi alþjóðasamstarfs. Það sem gerist í Rússlandi og Úkraínu snerti öryggi Íslands í pólitískum leik stórþjóða verði Ísland að passa að það verði ekki skilið eftir. Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, viðurkennir að hann hafi áhyggjur af því að slakt gengi flokksins í síðustu þingkosningum og skoðanakönnunum smitist yfir á komandi sveitastjórnarkosningar, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Hann vill leiða flokkinn út úr þeim ólgusjó sem flokkurinn er í, fór í naflaskoðun eftir síðustu þingkosningar en bendir jafnframt á hina sígildu og margtuggnu klisju - vika er langur tími í pólitík, hvað þá mánuðir og misseri.
Óhætt er að segja að orðaskipti Snorra Mássonar, þingmanns Miðflokksins, og Þorbjargar Þorvaldsdóttur, verkefnastýru hjá Samtökunum 78, í Kastljósinu í gær hafi kallað fram sterk viðbrögð. Biskup, Landlæknir, atvinnuvegaráðherra og þingmenn eru í hópi þeirra sem hafa blandað sér í umræðuna á samfélagsmiðlum. Það eru vonbrigði að hefja nýtt fiskveiðiár með tíu þúsund tonna niðurskurði í þorskafla. Formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi segir þetta jafnast á við þorskveiði fimm skuttogara. Hann segir fulla ástæðu til að hafa áhyggjur af þorskstofninum og ekki síður hvort rétt sé staðið að rannsóknum. Borgarstjóri kannast ekki við stirt starfsumhverfi á skrifstofu sinni. Tveir aðstoðarmenn hafa látið af störfum á fyrstu sex mánuðum hennar í embætti. Sá þriðji tók til starfa í dag.
Breytingar á örorku- og endurhæfingarkerfinu sem tóku gildi í dag leggjast vel í formann ÖBÍ, sem óttast þó að hærri ráðstöfunartekjur skili sér misvel í vasa fólks. Fylgi Framsóknarflokksins heldur áfram að dragast saman og mælist hann nú með fjögur og hálft prósent í nýjum þjóðarpúlsi Gallup. Forsætisráðherra Spánar boðar átak eftir mestu gróðurelda í sögu landsins í sumar. Stjórnvöld voru ekki nægilega vel undirbúin. Innviðaráðherra skoðar leiðir til að tryggja 48 daga strandveiði næsta sumar. Níu fyrrverandi yfirmenn sóttvarnastofnunar Bandaríkjanna segjast aldrei hafa orðið vitni að framgöngu ráðherra sem komist í líkingu við störf núverandi heilbrigðisráðherra.
Fjögurra daga aðalmeðferð í Þorlákshafnarmálinu svokallaða lauk í dag þegar saksóknari og verjendur sakborninga fóru yfir málflutning sinn. Fimm eru ákærð, þrír menn fyrir manndráp, frelsissviptingu, rán og fjárkúgun. Á ýmsu hefur gengið við rannsókn þessa umfangsmikla máls, til að mynda reyndi einn sakborningur að fá annan til að taka alla sökina á sig og skipta um lögmann á meðan þeir sátu í gæsluvarðhaldi. Sveitarfélögum landsins fer fækkandi og þau sem eftir standa verða um leið fjölmennari. Sameiningar sveitarfélaga þurfa þó alltaf að hljóta samþykki íbúa í kosningum og sums staðar á landinu halda fámennar sveitir fast í sjálfstæði sitt. Þriðja fámennasta sveitarfélag landsins er Skorradalshreppur, sem hefur ítrekað hafnað sameiningu við aðrar sveitir við Borgarfjörð. 194 sjúklingar fengu skilaboð í gegnum kerfi Landspítalans eftir að bæklunarlæknir í hlutastarfi fletti þeim upp í sjúkraskrá. Þetta voru allt sjúklingar að bíða eftir liðskiptaaðgerð og þeim boðið að koma í skoðun á stofu sem læknirinn starfaði á.
Kennaranámið er í stöðugri deiglu og hlusta verður á gagnrýnisraddir stúdenta um uppbyggingu þess segir Kolbrún Þorbjörg Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs Háskóla Íslands. Skólarnir eru að byrja þessa dagana og í vesturbæ Reykjavíkur stendur Menntavísindasviðið á tímamótum, starfsemi þess er að hefjast á nýjum stað á Sögu. Iðnaðarmenn eru enn að störfum hér og þar í húsinu en Kolbrún Þorbjörg fagnar flutningnum. Menntavísindasviðið varð til þegar Kennaraháskólinn sameinaðist Háskóla Íslands 2008. Innviðaráðherra kynnti framtíðarsýn sín í samgöngumálum á Innviðaþingi í morgun og fór yfir þær framkvæmdir á innviðum landsins sem eru honum efst í huga - hann boðar nýja samgönguáætlun, vill byrja að bora, moka og sprengja sem allra fyrst, hefja framkvæmdir við Sundabraut og stofna innviðafélag til að halda utanum fjármögnun stærri samgönguframkvæmda.
Grænland er aftur komið í kastljós fjölmiðla; DR, danska ríkisútvarpið, greindi frá því í morgun að þrír Bandaríkjamenn hefðu verið á Grænlandi til að efla samband við þá Grænlendinga sem hugnast sú hugmynd Bandaríkjaforseta að innlima Grænland, afla upplýsinga um þá sem eru henni andvígir og finna leiðir til að reka fleyg milli Danmerkur og Grænlands. Víðtæk mótmæli og vinnustöðvanir hafa verið boðuð í Frakklandi tíunda september, tveimur dögum eftir að franska þingið greiðir atkvæði um vantraust á ríkisstjórn Francois Bayrou forsætisráðherra. Bayrou tilkynnti um þessa atkvæðagreiðslu á mánudag til að knýja fram ákvörðun þingsins um að samþykkja - eða synja - tillögum um milljarða evra niðurskurð á útgjöldum ríkisins. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafnaði í sumar beiðni franskrar konu um að vera viðstödd kistulagningu eiginmanns síns og dóttur hér á landi. Konan situr í gæsluvarðhaldi grunuð um að hafa orðið þeim að bana. Héraðsdómur felldi ákvörðun lögreglunnar úr gildi og leyfði konunni að vera viðstödd.
Dómur Mannréttindadómstóls Evrópu staðfestir að enn þarf mörgu að breyta þegar kemur að meðferð kynferðisbrota og heimilisofbeldis að mati Drífu Snædal talskonu Stígamóta. Stígamót studdu níu konur sem leituðu til dómstólsins og dómur er fallinn í tveimur málum en 7 bíða efnislegrar meðferðar. Það er óvanalegt að fyrrverandi varaformaður eins af meginstjórnmálaflokkum Íslands skuli vera fenginn til aðstoða ráðherra annars flokks, segir stjórnmálafræðingur. Formaður Miðflokksins segir Samfylkinguna vilja hafa meiri stjórn á Flokki fólksins.
Aðalmeðferð hófst í Héraðsdómi Suðurlands í Þorlákshafnarmálinu, 5 sakborningar báru vitni og ákæruvaldið sýndi myndskeið úr eftirlitsmyndavélum og bíl eins sakbornings frá kvöldinu í mars þegar maður var sviptur frelsi í Þorlákshöfn, honum misþyrmt og hann skilinn eftir helsærður í Gufunesi. Veðurstofan hefur gert nýtt hættumat vegna jarðhræringa í einni öflugustu eldstöð landsins, Bárðarbungu þar sem skjálftavirkni hefur aukist nokkuð síðustu misseri. Hætta stafar ekki síst af jökulhlaupum. Refsiaðgerðir og efnahagsþvinganir valda dauða hundruða þúsunda á hverju ári. Harðast bitna þær á viðkvæmustu hópum hvers samfélags, börnum undir 5 ára og öldruðum.
Sameinuðu þjóðirnar lýstu formlega yfir hungusneyð í Gaza-borg og nágrenni hennar í morgun. Talið er að allt að hálf milljón manna eigi í hættu að deyja úr hungri sem er lýst sem manngerðri hörmung. Skemmdarverk sem rakin eru til rússneskra stjórnvalda og árásir þeirra á mikilvæga innviði í Evrópu hafa færst í aukana á undanförnum árum. Fjöldi þessara atvika hefur næstum fjórfaldast síðan 2023. Fálkar hafa ekki verið færri á Íslandi síðan mælingar hófust fyrir fjörutíu og fjórum árum. Hægi ekki á fordæmalausri fækkun gæti stofninn horfið á næstu árum.
Innrás Ísraelshers í Gazaborg og landtaka á Vesturbakkanum gerir út um möguleika á friði fyrir botni MIðjarðarhafs til skemmri og lengri tíma, segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra. Refsiaðgerðir gegn Ísrael séu til skoðunar. Traust til lögreglunnar á Íslandi er mikið, en karlmenn og yngra fólk ber þó minna traust til hennar en konur og þeir sem eldri eru. Þetta eru niðurstöður nýrrar rannsóknar. Hnúðlaxar hafa veiðst í 72 íslenskum ám og sennilega útilokað að stoppa landnám hans. Tímabært er að hætta að tala illa um hann, segir fiskifræðingur - frekar nýta hann.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir 7,5% vexti vera háa, en vonar að vaxtastefna bankans leiði til minni verðbólgu og þannig lægri vaxta. Fasteignaverð er hátt og hann veltir því fyrir sér hvort rétt sé að seljendur slái af verðinu. Sleggjan á vextina hefur ekki enn verið dregin fram, segir Anna Hrefna Ingimundardóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Verði ekki breytt um kúrs gera SA ráð fyrir að vextirnir haldist óbreyttir fram á næsta ár. Börn sem hírast í tjaldbúðum á rústum dreymir um venjulegt líf, herbergið sitt og dótið. Rosalia Bollen talsmaður UNICEF á Gaza segir að miklu skipti að börnin sem líða skort og hafa orðið fyrir síendurteknum áföllum fái andlegan stuðning.
Menningarnótt verður haldin í Reykjavík á laugardaginn. Í skugga hörmulegs atburðar á hátíðinni í fyrra, þegar 17 ára stúlka var stungin til bana, hefur Reykjavíkurborg ákveðið að standa fyrir sérstöku átaki undir slagorðinu "Verum klár". Vaxtaákvörðun verður kynnt á morgun, Finnbjörn Hermannsson forseti Alþýðusambands Íslands telur að svigrúm sé til að lækka háa vexti en fleira þurfi til að leysa úr húsnæðisvanda. Ekki síst þurfi að útvega nýjar lóðir svo hægt sé að byggja hagkvæmara húsnæði.
Evrópskir leiðtogar að Volodymyr Zelensky, forseta Úkraínu meðtöldum gengu á fund Donalds Trumps forseta Bandaríkjanna í Washington í dag. Trump sagði fyrir fund sinn með Zelensky að mögulegt væri að þeir settust niður fljótlega með Vladimir Pútín forseta Rússlands til að ræða leið til varanlegs friðar. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra segir að stríðið í Úkraínu sé efst á baugi á fundi utanríkisráðherra Norðurlanda og Kanada. Hún telur að fundurinn með evrópsku leiðtogunum sýni samstöðu Evrópu og ekki sé hægt að önnur ríki eins og Rússland ráði því hvort Úkraína gengur í NATO.
Rithöfundasambandið hefur kvartað undan Storytel og Samkeppniseftirlitið rannsakar hvort efnisveitan hafi misnotað markaðsráðandi stöðu sína. Rætt við Margréti Tryggvadóttur formann rithöfundasambandsins og Heiðar Inga Svansson um bækur. Á þriðja þúsund kráa hefur verið lokað í Englandi og Wales síðustu ár. Kráardauðinn var hafinn fyrir COVID en jókst í faraldrinum og hefur ekki dregið úr síðan.
Bann við sjókvíaeldi er eina leiðin til að koma í veg fyrir erfðamengun lax í íslenskum ám, að dómi Jóhannesar Sturlaugssonar líffræðings, sem lengi hefur rannsakað laxfiska og var kallaður til þegar eldislax fannst í Haukadalsá í gær. Anna Kristín Jónsdóttir talar við hann. Forsetar Bandaríkjanna og Rússlands funda í Alaska í Bandaríkjunum á föstudag. Efni fundarins: Innrásarstríð Rússa í Úkraínu og mögulegar leiðir til að binda enda á það. Fyrst tala forsetarnir saman, augliti til auglitis, með túlka sér við hlið, svo setjast sendinefndir ríkjanna við samningaborðið og loks halda þeir Trump og Pútín fréttafund. Litlar vonir eru bundnar við árangur af fundinum, enda sitja báðir stríðsaðilar fastir við sinn keip. Ævar Örn Jósepsson segir frá. Umsjón: Ævar Örn Jósepsson Tæknimaður: Markús Hjaltason
Þeir sem bjóða sig fram og kjósa í sveitarstjórnarkosningum verða að eiga lögheimili í því sveitarfélagi og þar af leiðandi ólíklegt að brottfluttir Grindvíkingar geti kosið þar í vor segir Eva Marín Hlynsdóttir, prófessor í stjórnmálafræði og sérfræðingur í sveitarstjórnarmálum. Nokkuð lengi hefur verið rætt um að fækka sveitarfélögum og stefnt að því af mörgum að í hverju þeirra búi ekki færri en þúsund, en sú verður varla raunin í vor, segir Eva Marín í samtali við Önnu Kristínu Jónsdóttur, enda um helmingur þeirra enn með undir 1.000 íbúum. Í Speglinum í gær var rætt við Halldór Björnsson, fagstjóra loftslagsmála á Veðurstofunni, um þá miklu hlýnun sem orðið hefur á meginlandi Evrópu - og á Bretlandi - á undanförnum árum og áratugum og mun að öllum líkindum halda áfram - og um afleiðingar hennar. Svo virðist sem Evrópa hlýni um það bil tvisvar sinnum hraðar og meira en aðrir heimshlutar - og sumir hlutar Evrópu hlýna enn hraðar og meira . Það á sérstaklega við um norðurslóðir, og þar er Ísland ekki undanskilið, segir Halldór í viðtali við Ævar Örn Jósepsson. Umsjón: Ævar Örn Jósepsson Tæknimaður: Markús Hjaltason
Enginn strokulax sást í fyrra í myndavélateljurum sem Hafrannsóknastofnun hefur komið fyrir í þrettán ám. 30 strokulaxar sem veiddust voru greindir og hægt var að rekja til strokstaða með samanburði á arfgerðum strokulaxa og klakhænga. 42 blendingar greindust í 15 ám og eldri erfðablöndun fannst hjá seiðum í 23 ám. Flestir blendingarnir fundust í ám nærri eldissvæðum en þó voru dæmi um blendinga sem fundust í tvö til þrjúhundruð kílómetra fjarlægð frá eldinu. Þetta er meðal þess sem kemur fram í samantekt sem birtist í sumar um áhrif sjókvíaeldis á villta laxastofna 2024. Anna Kristín Jónsdóttir ræðir við Guðna Guðbergsson, sviðsstjóra ferskvatns og eldisfisks á Hafrannsóknastofnun. Fátt bendir til þess að ríki heims nái því markmiði sem þau skuldbundu sig til að reyna að ná þegar þau staðfestu Parísarsamkomulagið - nefnilega að hindra að loftslagið hlýni um meira en hálfa aðra gráðu umfram meðalhitann sem hér ríkti seinni hluta nítjándu aldar. Þrátt fyrir fögur fyrirheit um annað heldur notkun kola og annars jarðefnaeldsneytis áfram að aukast og þar með losun gróðurhúsalofttegunda´. Á sama tíma virðist áhersla margra öflugustu iðnríkja heims á loftslagsmálin fara minnkandi í takt við ört vaxandi vígvæðingu. Undanfarin tvö ár hafa verið þau heitustu í sögu veðurmælinga og árið í ár er enn eitt árið sem við fáum fréttir af hitabylgjum á hitabylgjur ofan. Ævar Örn Jósepsson ræðir við Halldór Björnsson, fagstjóra loftslagsmála á Veðurstofu Íslands. Umsjón: Ævar Örn Jósepsson Tæknimaður: Kári Guðmundsson
Ísraelsher drap fimm fréttamenn Al-Jazeera á Gaza í gær með sprengjuárás. Árásir og dráp á fréttamönnum flokkast sem stríðsglæpir, líkt það að Ísraelsstjórn hindri það að lífsnauðsynleg hjálpargögn berist til Gazabúa. Ísraelsher segir að einn fréttamannanna hafi verið hryðjuverkamaður. Formaður Blaðamannafélags Íslands segir ömurlegt að Ísrael beini árásum sérstaklega að blaðamönnum og reyni að koma í veg fyrir að almenningur fái þaðan fréttir. Setja á upp lokunarpóst í Reynisfjöru og rautt ljós kviknar þar fyrr en áður. Þetta er gert til að reyna að forða frekari slysum í fjörunni. Arnar Már Ólafsson forstjóri Ferðamálastofu segir að unnið sé að því að bæta öryggi í ferðaþjónustu,
Samfélagsbreytingar síðustu ára kalla á viðbrögð í fangelsiskerfinu. Landsmönnum og alvarlegum málum hefur fjölgað og fangelskerfið verður að haldast í hendur við það. Dómsmálaráðherra hefur boðað lagasetningu til að koma megi á fót lokaðri brottvísunarstöð og vista útlendinga sem ákveðið hefur verið að skuli yfirgefa landið, í stað þess að vista þá í fangelsum. Birgir Jónasson forstjóri Fangelsismálastofnunar fagnar þessum áformum því vistun í gæsluvarðhaldi sé ekki heppileg. Aðbúnaður í fangelsum sé ekki hugsaður til að vista fólk sem ekki hafi landvistarleyfi.
Áttatíu árum eftir að kjarnorkusprengjum var varpað á Hiroshima og Nagasaki vara sérfræðingar og eftirlifendur við því að kjarnorkuvopnakapphlaupið sé að hefjast á ný, eftir margra ára og áratuga tímabil, þar sem markvisst var unnið að því að fækka kjarnavopnum og draga úr spennu og hættu á notkun þeirra.
Í fyrra komu hátt í hundrað sérfræðingar á vegum GRÓ - þekkingarmiðstöðvar þróunarsamvinnu til landsins. GRÓ starfrækir fjóra skóla, um jafnrétti, jarðhita, landgræðslu og sjávarútveg undir hatti UNESCO, Mennta-, vísinda- og menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Nína Björk Jónsdóttir forstöðumaður miðstöðvarinnar segir þetta starf eiga sér langa og merka sögu. Anna Kristín Jónsdóttir ræðir við hana. Umsjón: Ævar Örn Jósepsson Tæknimaður: Mark Eldred
Bandaríkjaforseti krefst þess af aðildarríkjum NATO að þau verji fimm prósentum af vergri landsframleiðslu til varnar- og öryggismála eins og það er oftast orðað. Bandaríkin voru til skamms tíma nánast eina NATO-ríkið sem lagði meira en tvö prósent af vergri landsframleiðslu til þessa málaflokks, en nú stefna nánast öll aðildarríki Evrópusambandsins og NATO að fimm prósenta markinu. Þetta er rökstutt með vaxandi óvissu og ógnum í heimspólitíkinni almennt og stóraukinni ógn úr austri eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu sérstaklega. Og það eru ekki bara Vesturlönd sem margfalda viðskipti sín við hergagnaframeiðendur heimsins, Rússar gera það auðvitað líka og svipaða sögu er að segja af mörgum ríkjum í öllum heimsálfum. En þjóðríki hafa ekki ótæmandi sjóði, sem þýðir að margföldun útgjalda á einu sviði kallar á niðurskurð á öðrum. Þetta hefur ekki síst bitnað á þróunaraðstoð og hvers kyns mannúðar- og hjálparstarfi og svo hafa umhverfis- og loftslagsmál líka orðið illa fyrir niðurskurðarhnífnum, enda sársaukaminna fyrir stjórnmálafólk sem á starfsferil sinn undir velvild kjósenda að skera niður útgjöld til þessara málaflokka en þeirra, sem bitna beint og milliliðalaust á almenningi heimafyrir. Rætt er við Evu Bjarnadóttur, teymisstjóra hjá Unicef á Íslandi, Gísla Rafn Ólafsson, framkvæmdastjóra Íslandsdeildar Rauða krossins og Margréti Sigurðardóttur Blöndal, barnalækni. Umsjón: Ævar Örn Jósepsson Tæknimaður: Kári Guðmundsson
Nýjasta útgáfan af lista Trumps yfir verndartolla á innflutningi varnings frá hátt í eitt hundrað ríkjum til Bandaríkjanna var birt að kvöldi 31. júlí. Í flestum tilvikum hækkuðu tollarnir nokkuð frá því sem áður hafði verið tilkynnt og Ísland er þar ekki undanskilið. Tíu prósenta tollur var lagður á íslenskan innflutning til Bandaríkjanna í apríl, en það er lágmarkstollur á innflutning þangað. Hvorutveggja íslensk stjórnvöld og íslensk fyrirtæki gerðu því skóna að þar með væri málið afgreitt. Trump leggur jú áherslu á að tolla varning frá ríkjum sem selja meira til Bandaríkjanna en þau kaupa af þeim, en þessu er öfugt farið hér. Þess vegna kom það á óvart að tollar á íslenskan varning eiga samkvæmt þessum nýja lista að hækka úr 10 prósentum í 15 prósent. En hvað er til ráða? Og hvers vegna hlaupa kaupahéðnar heimsins enn upp til handa og fóta við hverja tilkynningu Trumps, sem þó skiptir um skoðun oftar en tölu verður á komið? Ævar Örn Jósepsson spurði Gylfa Zoega, hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands um þetta. Einnig er rætt við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins. Umsjón: Ævar Örn Jósepsson Tæknimaður: Kormákur Marðarson