Fréttir og fréttaskýringar í útvarpi þar sem kafað er dýpra í málin, þau sett í stærra samhengi og skýringa leitað.

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, ríkislögreglustjóri var í hópi þeirra forstjóra ríkisstofnana sem fengu dreifibréf frá fjármálaráðuneytinu í ágúst á síðasta ári þar sem stofnanir ríkisins voru beðnar um að forðast alla gerviverktöku; hún væri ólögmæt. Eini starfsmaður Intru ráðgjafar, sem ríkislögreglustjóri var í tugmilljóna viðskiptum við og nánast eini verkkaupi, var með tölvu og netfang hjá embættinu og aðgang að innra neti þess. Ráðherrar hafa kynnt fyrsta hluta aðgerða í húsnæðismálum. Von á öðrum pakka í byrjun næsta árs sem er ætlað er að lækka fasteignaverð og fjölga íbúðum. Rætt við Höllu Gunnarsdóttur formann VR og Ragnar Þór Ingólfsson Flokki fólksins sem leiddi þingmannanefnd um húsnæðismál.

Spegillinn hefur síðustu daga fjallað um umfangsmikil viðskipti ríkislögreglustjóra við ráðgjafafyrirtækið Intru ráðgjöf. Þau hafa verið gagnrýnd og dómsmálaráðherra sagði eftir ríkisstjórnarfund í gær að áferð málsins væri ekki góð. Hún ítrekaði þau skilaboð eftir fund sinn með ríkislögreglustjóra í dag. En hvað segir ríkislögreglustjóri? Freyr Gígja Gunnarsson ræddi ítarlega við Sigríði Björk Guðjónsdóttur. Niðurstöður forsetakosninga í Argentínu um helgina þar sem flokkur forsetans, hægri pópúlistans Javiers Milei, Frelsið fremst fékk 40% atkvæða, komu mörgum greinendanum á óvart að sögn Hólmfríðar Garðarsdóttur prófessors í spænsku. Hún er í Buenos Aires og Anna Kristín Jónsdóttir talaði við hana um úrslit kosninganna. Kosið var um hluta þingmanna og bætti Frelsið fremst verulega við sig, en er þó ekki stærstur flokka á þingi. Hólmfríður telur að óttinn við að Bandaríkjastjórn myndi hætta við björgunarpakka, sem Donald Trump forseti Bandaríkjanna var búinn að lofa, gæti hafa haft mikil áhrif.

Stjórnendaráðgjafinn, sem ríkislögreglustjóri greiddi 160 milljónir fyrir ráðgjafarstörf, var ráðinn tímabundið í fullt starf tveimur dögum eftir að fréttastofa óskaði eftir því að fá afhentar tímaskýrslur og reikninga vegna vinnu hennar fyrir embættið. Ríkisendurskoðandi segir málið bera þess merki að innri endurskoðun og innra eftirlit ríkislögreglustjóra hafi ekki verið eins og lög kveði á um. Nokkrum starfsmönnum ríkislögreglustjóra var sagt upp störfum í gær vegna sparnaðaraðgerða. Forystufólki í sveitarstjórnarmálum á Austurlandi finnst vanta mikið upp á að stjórnvöld meti framlag fjórðungsins í þjóðarframleiðslunni þegar kemur að uppbyggingu innviða. Nærri fjórðungur af útflutningsverðmætum landsins verði til á Austurlandi þótt þar búi innan við þrjú prósent þjóðarinnar.

Ríkislögreglustjóri hefur síðustu fimm ár keypt þjónustu af ráðgjafafyrirtækinu Intru ráðgjöf fyrir 160 milljónir. Hvorki var gerður skriflegur samningur við fyrirtækið né farið í útboð en klukkutímarnir hlaupa á þúsundum. Síðastliðin tvö ár hefur eini starfsmaður félagsins verið nánast í fullu starfi á háu tímakaupi við að flytja embættið, fara í skoðunarferðir í húsgagnaverslanir, panta gardínur, velja sorpflokkunarílát, breyta nöfnum á fundarherbergjum og finna stað fyrir píluspjöld. Flokkur forseta Argentínu vann nokkuð óvæntan sigur kosningum um helgina. Forsetinn er litrík og umdeild persóna sem hefur orðið nokkuð ágengt í baráttu við verðbólgu sem var með himinskautum fyrir nokkrum árum en gagnrýnendur segja árangurinn dýru verði keyptan.

Íslenskt efnahagslíf stendur frammi fyrir nokkrum áskorunum; Norðurál þarf að takmarka sína framleiðslu, Play fór á hausinn og PCC á Bakka hefur ekki verið starfrækt í nokkra mánuði. Fjármálaráðherra var í beinni útsendingu. Það getur verið freistandi fyrir hagsýna Svisslendinga að fara yfir landamærin og næla sér í franskt kjötmeti sem er þar miklu ódýrara. Það getur líka verið dýrkeypt að vera gripinn með góssið, eins og Ævar Örn Jósepsson fjallaði um. Ágúst Ólafsson ræddi síðan við formann Skotveiðifélags Íslands en rjúpnaveiðitímabilið hófst í dag. Nýtt fyrirkomulag var tekið upp fyrrahaust en formaðurinn segir unga fólkið hafa lítinn áhuga á því að arka upp á fjöll með byssu á öxl.

Forstjóri PCC á Bakka segist ekki sjá betur en að versta sviðsmynd varðandi framtíð kísilverksmiðjunnar sé að raungerast. Hann býst ekki við að hægt verði að hefja rekstur aftur fyrr en í fyrsta lagi í lok sumars 2026. Um 20 manns verða við störf á Bakka í vetur. Mikið er rætt um skólamál og ungmenni í fjölmiðlum. Sú umræða er oftar en ekki undir neikvæðum formerkjum en hvað finnst krökkum sem eru að ljúka grunnskóla um hana? Verða þeir varir við ofbeldi í skólum, eru þeir öruggir þar? Símanum er oft kennt um ýmislegt sem miður fer og hafa reyndar verið bannaðir í mörgum skólum. Sakna nemendur þeirra og hvað um einkunnagjöfina?

Gísli Már Gíslason, prófessor emeritus í vatnalíffræði, segir að koma moskító-flugna til landsins yrði líklega ekki jafn óþægileg fyrir landsmenn og þegar lúsmýið nam hér land. Tegundin sé þekkt fyrir að stinga bæði menn og dýr, en sé ekki smitberi lífshættulegra sjúkdóma á norðurhveli jarðar. Ólöf Rún Erlendsdóttir ræðir við Gísla Ísland og Grænland eru nánir grannar en samstarf þeirra og samskipti hafa ekki alltaf verið mikil. Forsætisráðherra og formaður grænlensku landstjórnarinnar skrifuðu í gær undir yfirlýsingu um sameiginlega sýn á framtíð Norður-Atlantshafssvæðisins og að vinna ætti að sjálfbærri efnahagsþróun. Vísuðu þau til samstarfsyfirlýsingar frá 2022 sem ætti að fylgja eftir af auknum krafti. Anna Kristín Jónsdóttir ræðir við Vilborgu Ásu Guðjónsdóttur alþjóðastjórnmálafræðing. Umsjón: Ævar Örn Jósepsson Tæknimaður: Markús Hjaltason

Leið Lilju Alfreðsdóttur að formannsstóli Framsóknarflokksins er ekki jafn greið og margir telja. Skorað hefur verið á oddvita flokksins í Reykjavík að gefa kost á sér og í einu af höfuðvígjum flokksins renna margir hýru auga til Willums Þórs Þórsson. Tveir þingmenn eru sömuleiðis að þreifa fyrir sér. Fjöldi fólks safnaðist saman við heimili Nicolas Sarkozy fyrrverandi Frakklandsforseta í morgun til að lýsa stuðningi við hann og stappa í hann stálinu þar sem yfirgaf heimili sitt og í fylgd konu sinnar og barna og steig upp í einn margra ómerktra lögreglubíla í mikilli bíla- og mótorhjólalest sem flutti hann í La Santé-fangelsið í París. Nær allir fjölmiðlar í Bandaríkjunum hafa rýmt skrifstofur sínar í varnarmálaráðuneytinu í mótmælaskyni við nýjar reglur. Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands, segir aðför Trump-stjórnarinnar að fjölmiðlum minna á þróun mála í Rússlandi eftir valdatöku Pútíns - og að sú aðför hafi byrjað strax í kosningabaráttunni fyrir fyrra kjörtímabil hans.

Vopnahléið sem samið var um 8. október á Gaza hangir nánast á bláþræði - líkt og reyndar framtíð Benjamín Netanjahús á forsætisráðherrastólnum í Ísrael. Bindur vopnahléið og lausn ísraelsku gíslanna í síðustu viku enda á stjórnmálaferil Netanjahús eða styrkir hann. Jón Björgvinsson hefur undanfarnar vikur verið í Ísrael og rætt við stjórnmálamenn og almenning um hvað taki við í stjórn landsins. Fimmtíu ár, hálf öld er síðan konur á Íslandi tóku sér kvennafrí og fylltu miðbæ Reykjavíkur á einum stærsta útifundi Íslandssögunnar. Á föstudaginn er aftur boðað kvennaverkfall til að mæta bakslagi í jafnréttisbaráttunni.

Nánast allir fjölmiðlar sem voru með aðstöðu í varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna og aðgang að fréttafundum þess rýmdu skrifstofur sínar og yfirgáfu ráðuneytið í vikunni. Þannig brugðust þeir við nýjum fjölmiðlareglum ráðuneytisins, sem þeim var gert að samþykkja en hverfa á brott ella. Bubbi skrifaði grein í Morgunblaðið í morgun þar sem hann húðskammaði íslenska stjórnmálamenn fyrir hvernig komið væri fyrir íslenskri tungu og þegar þjóðskáldið byrstir sig leggur þjóðin við hlustir. María Rut Kristinsdóttir og Ingibjörg Isaksen svara fyrir stjórnmálastéttina.

Betur hefði mátt standa að upplýsingagjöf til borgarráðs þegar bensínstöðvasamningar Reykjavíkurborgar við olíufélögin voru samþykktir á tveimur fundum. Allir fulltrúar hefðu þó átt að vera meðvitaðir um að olíufélögin höfðu fjárhagslegan ávinning af samningunum. Margt virðist hins vegar hafa verið óljóst og annað hvorki skoðað né greint nægilega vel. Þetta kemur fram í úttekt innri endurskoðunar borgarinnar á samningunum. Rætt við borgarfulltrúana Einar Þorsteinsson (B), Hildi Björnsdóttur (D) og Líf Magneudóttur (V) um samningana.

Fyrrverandi forstjóri Innheimtustofnunar sveitarfélaganna krefst þess að stofnunin greiði honum rúmar níutíu milljónir. Hann er með réttarstöðu sakbornings í rannsókn héraðssaksóknara sem er á lokastigi. Innheimtustofnun hafnar öllum kröfum og telur forstjórann fyrrverandi hafa valdið henni miklu tjóni með ákvörðunum sínum. Freyr Gígja Gunnarsson reifar málið. Talið er kosta allt að sjö og hálfum milljarði að ráðast í nauðsynlegar endurbætur á raforkukerfinu á Norðausturlandi svo hægt verði að flytja nægt rafmagn til allra byggðarlaga. Núverandi afhendingargeta rafmagns er að mestu uppurin með tilheyrandi áhrifum á orkuskipti, búsetuþróun og atvinnumál, segir Kristín Soffía Jónsdóttir í viðtali við Ágúst Ólafsson. Frétta- og tökumenn bandarísku sjónvarpsstöðvanna ABC, CBS, NBC og CNN og Fox News eru í óða önn að tæma skrifstofur sínar í Pentagon, höfuðstöðvum bandaríska varnarmálaráðuneytisins, sem nú heitir reyndar stríðsráðuneyti. Sama á við um nánast alla aðra fjölmiðla, bandaríska og alþjóðlega, sem voru með aðstöðu í ráðuneytinu. Ástæðan er nýjar reglur ráðuneytisins sem fjölmiðlar telja stjórnarskrárbrot sem heftir getu þeirra til að fylgja grunngildum blaðamennsku og sinna skyldum sínum við almenning. Ævar Örn Jósepsson ræðir við Sigríði Dögg Auðunsdóttur, formann Blaðamannafélags Íslands. Umsjón: Ævar Örn Jósepsson. Tæknimaður: Mark Eldred.

Þegar Play lagðist á hliðina í lok september óskaði Spegillinn eftir þeim gögnum sem kynnu að hafa verið útbúin í tengslum við fjárhagsvandræði flugfélagsins og gjaldþrot frá forsætisráðuneytinu, fjármálaráðuneytinu, atvinnuvegaráðuneytinu og innviðaráðuneytinu. Ítrekað hafði verið fjallað um fjárhagsvandræði Play í fjölmiðlum en skyndilegt fall kom flestum í opna skjöldu. Nærri tuttugu þúsund farþegar urðu fyrir skakkaföllum þegar ferðum félagsins var skyndilega hætt og sumir urðu að reiða fram háar upphæðir til að komast heim. Árum saman hefur ríkt ósamkomulag um skiptingu kvóta úr öllum deilistofnum uppsjávarfisks sem Íslendingar eiga hlutdeild að, nema loðnu, og jafn lengi hefur verið veitt langt umfram veiðiráðgjöf vísindamanna. Deilistofnar eru fiskistofnar sem Ísland nýtir sameiginlega með öðrum þjóðum og ganga ýmist milli lögsagna ríkjanna eða um alþjóðlegt hafsvæði. Í þessu tilfelli eru þetta makríll, kolmunni og norsk-íslensk síld. Íbúar í Múlaþingi eru ánægðari með aðgengi sitt að stjórnsýslu sveitarfélagsins en íbúar Ísafjarðarbæjar. Þetta sýna tvær nýjar rannsóknir. Þeim var ætlað að leiða í ljós hver væri besta leiðin til að tryggja að enginn verði undir þegar nýtt og öflugra sveitarfélag verður til úr nokkrum minni.

Það var til eilífðar - þangað til það var ekki lengur - þannig mætti ef til vill snara titli bókarinnar It was forever - until it was no more, bók um síðustu ár Sovétríkjanna, eftir rússnesk-bandaríska félagsfræðinginn Alexei Yurchak. Rússneski stjórnarandstæðingurinn Vladimir Kara-Murza segir titilinn lýsa því fullkomlega, hvernig breytingar á rússnesku stjórnskipulagi ganga fyrir sig. Hafrannsóknastofnun kynnti í síðustu viku nýja ráðgjöf um loðnuveiðar og leggur til að afli á vertíðinni verði ekki meiri en 43.766 tonn. Hlutur íslenskra skipa verður þar enn minni, því taka þarf tillit til samninga við Færeyjar, Noreg og Grænland, og þá standa eftir rúm 33 þúsund tonn. Spilafíkn er ekki afþreying sem hefur farið úr böndunum heldur langvinnur sjúkdómur, segir Ingunn Hansdóttir framkvæmdastjóri meðferðarsviðs hjá SÁÁ í grein í Læknablaðinu. Þrátt fyrir það hafi lítið verið fjallað um hana sem heilbrigðisvanda. Rétt eins og skjólstæðingar séu spurðir um áfengisnotkun, nikótínneyslu og hreyfingu, ætti að spyrja um fjárhættuspil. Mikil skömm fylgi því að hafa ekki stjórn á spilamennsku og fæstir nefni vandann þótt hann sé til staðar.

Bæði Héraðsdómur Reykjaness og Landsréttur töldu hendur sínar bundnar í máli palestínsks manns sem héraðssaksóknari ákærði í sumar fyrir að beita eiginkonu sína og börn hrottalegu ofbeldi á Gaza. Málið varpar ljósi á þá flóknu stöðu sem íbúar á Gaza búa við sem líkja má við hálfgerða lögleysu. Öll skilyrði eru til að endurreisa íslenska kræklingarækt, sýni stjórnvöld vilja og stuðning, að mati sérfræðings hjá Hafrannsóknastofnun. Eitt fyrirtæki ræktar núna bláskel hér á landi en þau voru tuttugu fyrir fáum árum. Þá er hvergi fylgst með eiturþörungum vilji fólk tína sér bláskel í matinn. Það vakti mikla athygli að um síðustu helgi fór maður inn í Alþingishúsið við Austurvöll að kvöldlagi um opnar dyr og var þar alla nóttina. Öryggisvörður, sem síðan var sagt upp störfum, varð var við manninn snemma nætur en sannfærðist um að hann ætti þar erindi. Það var ekki fyrr en við vaktaskipti um morguninn sem þingvörður komst að því að maðurinn væri í húsinu og kallaði til lögreglu. Við ræðum öryggismálin við nýjan skrifstofustjóra Alþingis.

Ísraelar hafa hindrað för skipa sem sigla með vistir til Gaza - handtekið fólk um borð og sent svo úr landi. Í morgun fóru ísraelskir hermenn um borð í skipið Conscience sem er hluti af friðarflotanum og handtóku meðal annarra tónlistarkonuna Möggu Stínu. Eru þær handtökur löglegar? Snjólaug Árnadóttir dósent við HR og sérfræðingur í Hafrétti svarar því. Bútasaumur er orð sem Runólfi Pálssyni forstjóra Landspítalans finnst lýsandi um rekstur spítalans á meðan beðið er eftir nýjum. Hann hefur áhyggjur af því að tæki spítalans séu að verða úrelt, fjármagn vanti til að fara í nauðsynlegt viðhald og að Ísland sé smám saman að dragast aftur úr nágrannalöndunum. Freyr Gígja Gunnarsson ræðir við hann. Verð á gulli hefur hækkað hratt og mikið undanfarna mánuði og fór í dag í 4.031 Bandaríkjadal á únsuna, sem er hin staðlaða eining í gullviðskiptum. Þetta er í fyrsta skipti sem verð á gulli fer upp fyrir 4.000 dollara á únsuna, en það hefur hækkað um 50 prósent á hálfu ári. Ævar Örn Jósepsson fjallar um þetta og ræðir við Eld Ólafsson, framkvæmdastjóra gullnámufyrirtækisins Amaroq. Umsjón: Ævar Örn Jósepsson Tæknimaður: Markús Hjaltason

Fyrri hluti þáttarins verður helgaður því að í dag eru tvö ár frá því að vígamenn Hamas frömdu grimmilega hryðjuverkaárás í Ísrael sem var upphafið að alblóðugasta kaflanum í margra áratuga stríði Ísraela og Palestínumanna. Við fjöllum líka um af hverju Flokkur fólksins hefur skipt um skoðun um bókun þrjátíu og fimm.

Áform um breytingar á leikskólum í Reykjavík voru kynntar í síðustu viku og meðal annars lagt til að vinnutími starfsfólks og dvalartími barna mætist í 38 tímum og ný gjaldskrá verði tekjutengd. Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar segir gefa auga leið að stemma verði saman vinnu og dvalartímann. Ólga og ókyrrð lýsa ástandinu í frönskum stjórnmálum þessi misserin. Um fátt er rætt og ritað af meiri ákefð hér á landi en hnignun íslenskrar tungu og yfirvofandi dauða hennar. Bölmóðurinn er mikill, en Ármann Jakobsson, prófessor og formaður Íslenskrar málnefndar, segir að það sé ekki að öllu leyti slæmt.

Laun handhafa forsetavalds og ferðakostnaður fyrstu tólf mánuði Höllu Tómasdóttur í forsetaembætti námu yfir þrjátíu milljónum króna. Fyrirhugað er að breyta fyrirkomulagi handhafalaunanna. Framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands segir löngu tímabært að Akureyrarflugvöllur verði viðurkenndur sem önnur gátt inn í landið til jafns við Keflavík. Hún vísar þar meðal annars til Grænlands þar sem brátt verða þrír nýir alþjóðaflugvellir. Þá glíma Færeyingar við sömu árstíðasveifluna og Ísland og vilja fjölga ferðamönnum yfir veturinn.

Nær sex þúsund kröfum var lýst í þrotabú WOW air þegar það varð gjaldþrota. Skiptum á félaginu er ólokið, nú sex árum síðar. Skiptastjóri segir margt óvenjulegt í gjaldþroti flugfélags en það séu fyrst og fremst tímafrek dómsmál sem hafi dregið skiptin á langinn. Mörg hundruð sveitarstjórnarmenn af öllu landinu eru á árlegri fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna. Mikið rætt þar um inniviði, fjárfestingar, fjármögnun og tekju- og verkefnaskiptingu ríkis og sveitarfélaga.

Rauði krossinn hefur hætt starfsemi í Gaza-borg og flutt starfsfólk sitt sunnar í Gaza því ekki er hægt að tryggja öryggi þess og halda starfsemi áfram eftir því sem harðar er sótt að borginni. Magnús Þorkell Bernharðsson prófessor við Williamsháskóla í Bandaríkjunum og sérfræðingur í málefnum miðausturlanda segir fátt nýtt að finna í margliða áætlun Doanlds Trumps um frið á Gaza. Henni svipi um margt til tillögu sem lögð var fram fyrir um tíu mánuðum, þegar Joe Biden var enn forseti. Hún leiddi ekki til friðar.

Fjölþáttaógnir færðust nær Íslandi þegar loka þurfti Kastrup -flugvelli í Kaupmannahöfn vegna óþekktra dróna. Aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra segir óvinveittum ríkjum hafa orðið ágengt með þennan hernað sinn; ein lítil og eðlileg bilun geti sett stjórnkerfið af stað. Sérfræðingur í samgöngurannsóknum segir að innviðafélag, líkt og innviðaráðherra vill stofna, ætti að geta leyst úr fjölda verkefna sem lengi hafa legið ókláruð í vegakerfinu. Þar megi ekki einblína of mikið á jarðgöng. Mörg önnur verkefni séu afar brýn, eins og brúagerð og langir kaflar á hringveginum. Útgerðarmenn og bæjaryfirvöld í Stykkishólmi kalla eftir að ráðherra gefi út reglugerð um skel- og rækjubætur tafarlaust þrátt fyrir að endurskoðun byggðakerfis í sjávarútvegi standi yfir. Þótt skelbætur hafi átt að vera tímabundin ráðstöfun benda þau á að gera þurfi upp ójafnvægi í úthlutun veiðiheimilda frá árdögum fiskveiðistjórnunarkerfisins.

Play ætlaði sér að vaxa of hratt og viðskiptamódelið gekk ekki upp, eins og fulljóst er við fall félagsins. Spurningar vakna líka um hvað varð um tvo og hálfan milljarð sem fengust í sumar, segir Steinn Logi Björnsson fjárfestir sem þekkir vel til í flugrekstri. Þótt þrjú flugfélög hafi fallið á öldinni telur hann allt eins líklegt að aftur verði til félag vil hlið Icelandair. Spegillinn hefur sagt frá nýju lagafrumvarpi Eyjólfs Ármannssonar innviðaráðherra, sem hefði í för með sér að greiddur yrði fasteignaskattur af öllum mannvirkjum fyrir orkuframleiðslu. Lögfræðingur Samorku - Samtaka orku- og veitufyrirtækja á Íslandi, segir margt óljóst í áformum ráðherrans og margir hafa áhyggjur af aukinni skattlagningu á orkumannvirki. Sveitarfélög fagna hins vegar mörg hver.

Framleiðslukostnaður við tökur á kvikmyndinni Ódysseifur hér á landi var áætlaður rúmlega tveir og hálfur milljarður og endurgreiðsla úr ríkissjóði tæplega níu hundruð milljónir, sem yrði næsthæsta endugreiðsla fyrir kvikmyndaverkefni frá upphafi. Innviðaráðherra hyggst með nýju lagafrumvarpi sjá til þess að greiddur verði fasteignaskattur af öllum mannvirkjum sem reist eru til orkuframleiðslu hér á landi. Samtök orkusveitarfélaga fagna þessu og segja mikla mismunun felast í alls kyns undanþágum í núverandi fyrirkomulagi. Íslensk málnefnd birti í gær árlega ályktun sína um stöðu íslenskrar tungu. Ályktunin er að þessu sinni helguð gildandi regluverki um þjóðtunguna og því sem brýnast er að skoða, gera, breyta og bæta til að auka skilvirkni þess. Þar er fyrst á blaði tillaga um styrkja íslenska tungu með því að festa það í stjórnarskrá, að íslenska skuli vera þjóðtunga Íslendinga og opinbert mál á Íslandi

Ivan Kaufmann, kaupsýslumaður frá Liechtenstein, hefur stefnt utanríkisráðherra fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur. Hann krefst þess að ákvörðun ráðuneytisins, um að meina honum að taka sæti í stjórn Vélfags í byrjun mánaðarins, verði felld úr gildi. Hann segir ráðuneytið hafa meðhöndlað sig eins og svikahrapp. Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra hefur lagt fram frumvarp til laga um breytingar á sveitarstjórnarlögum þar sem meðal annars er lagt til að ef íbúar sveitarfélags eru færri en 250, þann fyrsta janúar ár hvert, skuli ráðherra eiga frumkvæði að því að sameina það aðliggjandi sveitarfélagi. Fyrsta haustlægð ársins er í þann mund að skella á. Hún er óvenju seint á ferðinni, og í allra blautasta lagi. Veðurstofan hefur gefið út gula viðvörun um mestallt land vegna sunnan og suðaustan hvassviðris. Spár gera ráð fyrir allt að 25 millimetra úrkomu á klukkustund til fjalla og á jöklum þar sem mest rignir, og tíu millimetra á klukkustund á láglendi.

Mette Frederiksen forsætisráðherra Danmerkur og Jens-Frederik Nielsen formaður grænlensku heimastjórnarinnar báðust formlega afsökunar á lykkjuhneykslinu í dag við athöfn í Katuq menningarhúsinu í Nuuk. Fjöldi kvenna var við athöfnina og sumar stóðu í sorgarklæðum því reiðin og sársaukinn hverfur ekki. Anna Kristín Jónsdóttir fylgdist með fundinum og ræddi við Vilborgu Ásu Guðjónsdóttur alþjóðastjórnmálafræðing. Göng undir Klettsháls gætu verið besti jarðgangakosturinn á Vestfjörðum ef marka má greiningarvinnu fyrir nýtt svæðisskipulag í landshlutanum, og mikilvægasta vegabótin væri á veginum frá Bíldudal inn Arnarfjörð. Þegar rýnt er nánar í gögnin kemur þó fljótt í ljós að enn skortir undirbúningsvinnu og rannsóknir til að hægt sé að taka afgerandi ákvarðanir. Gréta Sigríður Einarsdóttir fjallar um málið og ræðir við Gerði Björk Sveinsdóttur, sveitarstjóra í Vesturbyggð. Það geisar menningarstríð milli Bandaríkjanna og Evrópu og það ristir dýpra en átök um viðskiptakjör og öryggismál. Þetta er meginniðurstaða nýrrar skýrslu sem kynnt var í Brussel í gær. Björn Malmquixt rýndi í skýrsluna fyrir Spegilinn. Umsjón: Ævar Örn Jósepsson Tæknimaður:: Kormákur Marðarson.

Þótt enn sé langt eftir af kjörtímabilinu á breska þinginu er tekið að næða um Keir Starmer, leiðtoga Verkmannaflokksins og forsætisráðherra. Fimm ráðherrar í ríkisstjórn hans hafa sagt af sér eftir hneykslismál og á meðan eykst fylgið við Reform-flokk Nigel Farage - við kynnum okkur stöðuna í breskum stjórnmálum á eftir. En fyrst eru það flygildin yfir Kastrup-flugvelli. Óvíst er hverjir flugu drónum við Kastrup og Gardemoen þótt spjótin beinist að Rússum. Þingmaður og fyrrverandi flugumferðarstjóri segir flugvelli fyrir viðkvæma fyrir truflunum af þessu tagi og flugsamgöngur almennt.

Bæjarstjórinn á Akureyri segist hafa áhyggjur af breyttri heilbrigðisþjónustu eftir að verktakasamningum við sérgreinalækna á sjúkrahúsinu þar í bæ var sagt upp. Heilbrigðisráðuneytið bað forstjóra heilbrigðisstofnana að fækka samningum sem gætu falið í sér gerviverktöku. Netárás um helgina, sem setti starfsemi flugvalla í Evrópu úr skorðum, var áminning um hversu mikilvægar netvarnir eru; og það er líklegt að fólk þurfi að vera undir það búið að netárásum á mikilvæga innviði fjölgi.

Nítjándi refsipakki Evrópusambandsins gegn Rússum var kynntur í dag, sambandið ætlar að skrúfa fyrir allt rússneskt gas og herða aðgerðir gegn skuggaflotanum. Og Deilur um mögulegar virkjanir í skagfirskum jökulám hafa blossað upp að nýju Formaður allsherjarnefndar Alþingis segir bið þeirra sem hafa sótt um íslenskan ríkisborgararétt óásættanlega. Vísbendingar eru um að það lága verð sem fólk greiðir fyrir slíka umsókn hafi skapað rangan hvata og óeðlilegt álag á Útlendingastofnun. Rúmlega tvö þúsund umsóknir um íslenskan ríkisborgararétt eru nú til meðferðar hjá Útlendingastofnun.

Vatnaskil hafa orðið hjá dönskum stjórnvöldum í öryggis- og varnarmálastefnu. Danir ætla að kaupa langdræg vopn, efla loftvarnakerfi og innviði á Grænlandi. Þeir eru þó ekki einir um að setja meira fé í varnir og öryggismál því sú er þróunin víða í Evrópu. Forsvarsmönnum í verkalýðshreyfingunni líst illa á að ríkisstjórnin vilji stytta tímabil atvinnuleysisbóta um ár og afnema áminningarskyldu hjá hinu opinbera sem undanfara uppsagnar. Þeir telja að skort hafi samráð við aðila vinnumarkaðarins.

Hópur Íslendinga aðhyllist ofbeldisfulla hugmyndafræði og aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá greiningardeild ríkislögreglustjóra segir deildina reglulega fá ábendingar um tengsl Íslendinga við slíkar hugmyndir; Það getur tekið mörg ár að berja í brestina þegar loka þarf stórum fyrirtækjum og segja upp fjölda fólks. Fjárfestar töpuðu tugum milljarða á stóriðjurekstri í Helguvík og nú er allt gert til að bjarga rekstri kísilvers PCC á Bakka. Enn og aftur er bandarískt samfélag heltekið af skotárásum og byssuofbeldi, sérstaklega í skólum og stjórnmálum.

Ísraelsstjórn réðst í dag inn í Gaza-borg á sama tíma og rannsóknarnefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna sakaði hana um þjóðarmorð. Þetta er í fyrsta skipti sem alþjóðastofnun notar slíkt hugtak um stríðsrekstur Ísraela á Gaza - við ætlum að ræða hvað felst í þessu hugtaki og hvaða skyldur ríki eins og Ísland hafa til að koma í veg fyrir þjóðarmorð við Kára Hólmar Ragnarsson, dósent við Háskóla Íslands og sérfræðing í þjóðarrétti. Fyrr í dag ræddi hins vegar Hallgrímur Indriðason, fréttamaður, við Magnús Þorkel Bernharðsson, prófessor í nútímasögu Miðausturlanda, um framvinduna í dag og spurði hann fyrst hvað það þýddi að landhernaður Ísraels væri hafin í Gaza-borg.

Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, er á leið í heimsókn til Kína. Hernaðarsagnfræðingur telur að það yrði sérstakt ef forsetinn kæmi þar ekki á framfæri afdráttarlausri stefnu Íslands gagnvart innrásarstríði Rússa í Úkraínu. Endurómur af erlendum íhaldssömum viðhorfum að konur eigi að draga sig úr skarkala hins opinbera lífs og helga sig heimilisstörfum og barneignum, hljómar sífellt hærra hér á landi. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir segir að þarna þurfi að spyrna við fótum. Þær raddir verða sífellt háværari sem gagnrýna Sameinuðu þjóðirnar og telja þær magnvana andspænis stríði og ófriði í heiminum. Sameinuðu þjóðirnar setja ekki lög og fastaþjóðir í öryggisráðinu beita neitunarvaldi.

Þverpólitískur samráðshópur kynnti í dag skýrslu um inntak og áherslur Íslands í varnar- og öryggismálum, málaflokki sem hefur fengið aukið vægi í allri umræðu, ekki síst eftir innrás Rússa í Úkraínu. Að skýrslunni stóðu þingmenn allra flokka nema Miðflokksins og skýrsluhöfundar voru sammála um að töluverð vinna væri framundan til að tryggja öryggi og varnir Íslands. Utanríkisráðherra sagði, þegar hún ávarpaði pallborðsumræður um skýrsluna í morgun, að það væri mat nokkurra samstarfsríkja Íslands að Rússar myndu ráðast gegn ríki Atlantshafsbandalagsins innan fárra ára og það væri einfeldni að halda að slíkt myndi ekki gerast. Starfsmanni héraðssaksóknara var veitt réttarstaða sakbornings eftir að Jón Óttar Ólafsson, lykilmaður í PPP-málinu svokallaða, lét að því liggja í skýrslutöku í sumar að starfsmaðurinn hefði haft aðgang að gögnum hans og samstarfsmanns í gegnum fjaraðild. Starfsmaðurinn vísaði þessu á bug í skýrslutöku og sagði frásögn Jóns Óttars ekki ganga upp; hvorki í tíma né tæknilega. Þetta kemur fram í gögnum sem Spegillinn hefur undir höndum.

Charlie Kirk, sem var myrtur á fundi í Háskóla í Utah var kosningahvíslari Donalds Trumps hjá unga fólkinu en fyrst og fremst kristinn aðgerðasinni. Pólitískt ofbeldi er órjúfandi þáttur af bandarískri stjórnmálasögu og nú rís bylgja þess sem sér ekki fyrir endann á. Einn af þingmönnum þýska hægriflokksins AfD, Alternative fur Deutschland, var í dag sviptur þinghelgi, vegna gruns um að hafa þegið mútur frá fyrirtækjum með tengsl við Kína. Ákvörðunin var samþykkt samhljóða á þýska þjóðþinginu í morgun.

. Pólland hefur ekki verið nær stríðsátökum frá lokum seinna stríðs, sagði forsætisráðherra Póllands eftir að drónar frá Rússlandi voru skotnir niður í pólskri lofthelgi. Við ætlum að ræða þá stöðu sem upp er komin í Evrópu við þau Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, þingmann sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi utanríkisráðherra, og Erling Erlingsson, hernaðarsagnfræðing en líka Friðrik Jónsson, sendiherra Íslands í Póllandi.

157 máli eru á þingmálaskránni, rúmlega þriðjungur þeirra er endurfluttur - sumum hefur verið lítillega breytt. Viðbúið er að fæst þessara mála verði að lögum. Þingflokksformennirnir Ragnar Þór Ingólfsson Flokki fólksins og Ingibjörg Isaksen Framsóknarflokki ræddu um komandi þing og skrána.

Hallinn á fjárlagafrumvarpinu er áætlaður 15 milljarðar og stefnt er að hallalausum fjárlögum 2027 - markmið sem fjármálaráði finnst vera metnaðarfullt en og fjármálaráðherra segir að ekki megi þá verða nein áföll sem, hafa þó verið regla frekar en undantekning síðustu ár. Samtök iðnðarins eru ánægð með aðhaldið sem frumvarpið ber með sér en helsta markmiðið sé ða tryggja stöðugleika, lækka verðbólgu og vexti.

Þingsetning verður á þriðjudag. Síðasta þingi lauk með hvelli þegar umræðunni um veiðigjaldsfrumvap ríkisstjórnar var slitið. Hefur tekist að bera klæði á vopnin eða mæta þingmenn til leiks í vígahug? Sigmar Guðmundsson og Ólafur Adolfsson fara yfir stöðuna. Þjóð gegn þjóðarmorði heitir fjöldafundur sem boðaður hefur verið á sex stöðum á landinu á morgun; Reykjavík, Stykkishólmi, Ísafirði, Akureyri, Húsavík og Egilsstöðum. Þetta er fundur yfir hundrað og sextíu samtaka og félaga þar sem stríðsrekstri Ísraelsstjórnar á Gaza verður mótmælt og þess krafist að íslensk stjórnvöld stígi fastar til jarðar.

Tjón sveitarfélagsins Norðurþings vegna stöðvunar kísilvers PCC á Bakka er metið á 700 milljónir króna. Sveitarstjórinn býst við raunhæfum lausnum við vandanum frá starfshópi sem á að skila af sér í næstu viku. Kína sýndi mátt sinn og megin á hersýningu í vikunni. Leiðtogi Kína tók sér líka afdráttarlausa stöðu með leiðtogum Rússlands og Norður-Kóreu. Skilaboð til alls heimsins segir alþjóðastjórnmálafræðingur. Stærsta fríverslunarsvæði heims verður til, ef viðskiptasamningur Evrópusambandsins við Mercosur ríkin fimm í Suður-Ameríku verður að veruleika. EFTA ríkin fjögur eru við það að staðfesta sambærilegan samning.

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra segir að þrátt fyrir að aðstæður í Úkraínu séu skelfilegar hafi stríðið enn sýnt og sannað mikilvægi alþjóðasamstarfs. Það sem gerist í Rússlandi og Úkraínu snerti öryggi Íslands í pólitískum leik stórþjóða verði Ísland að passa að það verði ekki skilið eftir. Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, viðurkennir að hann hafi áhyggjur af því að slakt gengi flokksins í síðustu þingkosningum og skoðanakönnunum smitist yfir á komandi sveitastjórnarkosningar, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Hann vill leiða flokkinn út úr þeim ólgusjó sem flokkurinn er í, fór í naflaskoðun eftir síðustu þingkosningar en bendir jafnframt á hina sígildu og margtuggnu klisju - vika er langur tími í pólitík, hvað þá mánuðir og misseri.