Upplýst og gagnrýnin umræða um samfélagsmál. Umsjón: Leifur Hauksson og Ragnhildur Thorlacius.
Aðstoð eftir afplánun er verkefni á vegum Rauða krossins og er ætlað að hjálpa föngum við ýmislegt er varðar daglegt líf og þær breytingar sem verða við það að ljúka afplánun. Pétur Kristófersson er sjálfboðaliði í verkefninu og ætlar að deila með okkur sinni reynslu. Mikilvægi mataræðis og svefns þegar kemur að bættri líðan verður varla ofmetið. Life Track er íslenskt smáforrit sem hefur náð mikilli útbreiðslu meðal fjölbreytts hóps fólks á stuttum tíma. Ingi Torfi Sverrisson, eigandi Life Track, ætlar að segja okkur frá forritinu og hvernig það varð til. Í lok þáttar er svo komið að vísindahorninu - vísindamiðlari Samfélagsins, hún Edda Olgudóttir kemur til okkar og ætlar að tala um lífplast og möguleikana í kringum það. Tónlist þáttarins: Helgi Björnsson - Það bera sig allir vel Lightouse Family - High Vilhjálmur og Ellý Vilhjálms - Ramóna Gréta Mjöll - Ó María
Hlutverk KLAK er að stækka og styðja við samfélag frumkvöðla á Íslandi með það að markmiði að fjölga sprotafyrirtækjum. Nýverið lauk Startup Supernova verkefninu, sem leitast við að byggja upp viðskiptalausnir fyrir alþjóðamarkað. Haraldur Bergvinsson og Freyr Friðfinnsson, starfsmenn KLAK, kíkja til okkar. Svo bregðum við okkur í heimsókn í Þjóðskjalasafnið. Í dag ætlum við að heyra um skýrslu sem var afhent forsætisráðherra í október 1939. Efni skýrslunnar er kynnisferð þáverandi flugmálaráðunauts til Danmerkur og Þýskalands það sama ár, og tillögur hans varðandi lögreglumál. Skýrslunni var hinsvegar stungið undir stól og við fáum að heyra allt um hvers vegna hér á eftir. Jassballett fyrir fötluð börn er nám sem er kennt í Danslistarskóla JSB í Lágmúlanum. Tímarnir hafa verið í boði í á þriðja vetur og hafa gefist vel. Dansgleði og hreyfifærni barnanna er virkjuð í gegnum leik og dans og nemendurnir taka þátt í stórum sýningum í Borgarleikhúsinu í lok skólaársins. Lilja Helgadóttir, danskennari, segir okkur frá náminu. Tónlist þáttarins: SIGURÐUR GUÐMUNDSSON & MEMFISMAFÍAN - Þú ert þar (ásamt Sigríði Thorlacius). NÝDÖNSK - Flugvélar. THE MAMAS AND THE PAPAS - California Dreamin.
Er dauðinn tabú sem umræðuefni í nútímasamfélagi? Vikulega hittist fólk í Langholtskirkju í grafarspjalli þar sem dauðinn er ræddur á ýmsan hátt. Alda Lóa Leifsdóttir kom til okkar og sagði okkur frá dauðakaffi - þar sem má ræða allt sem tengist dauðanum. Með aukinni notkun á gervigreind eru margir að velta fyrir sér hvernig hún virkar? Hvaða stærðfræði er það sem gervigreindin byggir á? Hafsteinn Einarsson, dósent í tölvunarfræði við HÍ, svaraði nýverið spurningu þessu tengdu á Vísindavefnum og hann ætlar að útskýra þetta allt fyrir okkur. Konungsfjölskyldur eru merkilegt menningarfyrirbæri sem eru stöðugt í sviðsljósinu og vekja sífellt áhuga. Guðný Ósk Laxdal kom til okkar og segja okkur það nýjasta úr heimi konungsfjölskyldna. Tónlist þáttarins: NÝDÖNSK - Ég ætla að brosa. Hipsumhaps - Lífið sem langar í
Af hverju ættum við að stunda geðrækt eins og við stundum líkamsrækt? Er hægt að rækta eða styrkja geðið? Við ræðum við Sigrúnu Þóru Sveinsdóttur sérfræðing í geðrækt hjá Embætti landlæknis um geðrækt og fimm leiðir að vellíðan. Stefán Gíslason, umhverfisfræðingur, líkir villtri náttúru við spægipylsu í pistli vikunnar. Alzheimersamtökin fagna fjörutíu ára afmæli í ár og af því tilefni var haldin ráðstefna um liðna helgi. Samfélagið hitti Guðlaug Eyjólfsson, framkvæmdastjóra samtakanna, sem fór yfir sögu samtakanna, og hvað hefur áunnist í baráttunni við Alzheimer í þau 40 ár sem samtökin hafa verið starfandi.
Hearing Voices eru Landssamtök fyrir öll sem heyra raddir, sjá sýnir eða hafa aðrar óhefðbundar upplifanir og áhugafólk. Grétar Björnsson félagsfræðingur og starfsmaður hjá Hugarafli og Rakel Björk Haraldsdóttir sem hefur reynslu af því að heyra raddir - koma til okkar og segja okkur nánar frá samtökunum. og hvað það er að heyra raddir? Eitt af hverjum fimm börnum elst upp hjá foreldri með geðrænan vanda og það skiptir miklu máli fyrir barn, sem á foreldri með geðsjúkdóm, að hafa einhvern í nærumhverfi sem styður við það. Samfélagið hitti Sigríði Gísladóttur, framkvæmdastjóra samtakanna Okkar heimur, og fékk að fræðast um samtökin og stöðu þeirra barna sem alast upp við þessar aðstæður. Matarvenjur sem myndast í æsku fylgja oft einstaklingum út lífið og geta haft á langtímaheilsu. Hvað vitum við t.d. um áhrif koffíns á heilsu ungmenna? Fyrsti fundur í fundaröðinni Heilsan okkar fer fram í fundarsal Þjóðminjasafnsins á föstudaginn klukkan hálf tólf. Ingibjörg Gunnarsdóttir, prófessor í næringarfræði við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands ætlar að segja okkur frá Koffín neyslu, fæðuvali og svefni unglinga. Tónlist þáttarins: LAUFEY - Street by street. KK OG MAGNÚS EIRÍKSSON - Sestu Hérna Hjá Mér Ástin Mín.
Sýn og reynsla barna af vináttu og lausn ágreiningsmála er efni nýrrar rannsóknar Maritar Davíðsdóttur, aðjúnkts við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og annars eiganda Gleðiskruddunnar, og Eyrúnar Maríu Rúnarsdóttur dósents. Styðjandi og traust vinatengsl barna draga úr einmanaleika og ýta undir félagsfærni. Aðstoð foreldra, og eldri systkina, við að leysa úr ágreiningsmálum er mikilvæg. Samfélagið hitti þær Marit og Eyrúnu og fékk að heyra um þessa áhugaverðu rannsókn og niðurstöður hennar. Páll Líndal sagði okkur frá því hvernig sýndarveruleiki nýtist í rannsóknum á tengslum fólks við umhverfi sitt. Í lok þáttar ræddi Samfélagið við Ólaf Ögmundarson, dósent við matvæla-og næringafræðideild Háskóla Íslands, um stóra rannsókn á umhverfisáhrifum íslenskra fæðukerfa. Íslensk fæðukerfi og íslensk neyslumynstur voru skoðuð út frá umhverfislegri, efnahagslegri og samfélagslegri sjálfbærni. Tónlist þáttarins: LAY LOW - Gleðileg blóm
Launasetning háskólamenntaðra á opinberum vinnumarkaði er hvað lægst hjá heilbrigðisstéttum. Hvaða áhrif hefur langtíma undirmönnun á gæði heilbrigðisþjónustu? Steinunn Bergmann formaður Félagsráðgjafafélags Íslands og Laufey Elísabet Gissurardóttir, formaður Þroskaþjálfafélags Íslands komu til okkar í spjall og rýndu í stöðuna. Helga Lára Þorsteinsdóttir, safnstjóri RÚV, fræðir okkur um sögu Vesturbæjarlaugar í Reykjavík. Laugin hefur nokkuð oft verið lokuð undanfarið vegna viðhalds og viðgerða. Í safni RÚV er að finna upptökur frá því að sagt var frá opnun laugarinnar í fréttum árið 1961. Allt í kringum okkur eru agnir; ryk, veirur, frjókorn, sót. Þessar agnir hreyfast í lofti eða vatni - en hvernig? Björn Birnir, stærðfræðiprófessor og vísindamaður við Santa Barbara-háskóla í Kaliforníu, varpar í nýrri rannsókn ljósi á hvernig þessar agnir hreyfast í straumiðu. Sú þekking getur haft mikla praktíska þýðingu, svo sem fyrir flugöryggi, gerð veðurspáa eða viðbrögð við smitsjúkdómum. Tónlist þáttarins: ELLEN KRISTJÁNSDÓTTIR - Íslenskt vögguljóð á hörpu. STING - Fragile
Málþing um mikilvægi og áhrif evrópsks menningarsamstarfs er haldið í dag og þar er meðal annars verið að kynna verkefni um framleiðslu tíu stuttmynda frá jaðri Evrópu. Meðal umfjöllunarefna eru skynsegin sjálfsmyndir í íslensku landslagi. Dögg Sigmarsdóttir segir okkur frá þessu. Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis- orku og loftslagsráðherra, segir Ísland ekki hafa staðið sig nógu vel í að vernda hafið. Hann vill byrja á að vernda ónýtt svæði utarlega í efnahagslögsögunni. Ísland hefur skuldbundið sig til að vernda 30% hafsvæða við landið fyrir árið 2030 - stökkið er ansi hátt, því í dag nýtur einungis um 0,07% lögsögunnar formlegrar verndar. Vera Illugadóttir kemur í dýraspjall í lok þáttar og segir okkur frá hinum háðsku Ignóbelsverðlaunum, sebrahestar koma þar eitthvað við sögu. Tónlist í þættinum: Norah Jones - Those Sweets Words. Ríó Tríó - Dýrið gengur laust. Nýdönsk - Fullkomið farartæki.
Við höldum áfram að fjalla um botnvörpuveiðar og áhrif þeirra, ástand hafsins við Ísland og áform stjórnvalda um að ná verndarsvæðum í hafi úr 1,6% lögsögunnar í 30% fyrir árið 2030. Liður í slíkri umfjöllun hlýtur að vera að heyra í forsvarsmönnum sjávarútvegsins - við ræðum hafið við Guðmund Kristjánsson, forstjóra Brims sem ætlaði aldrei að koma nálægt trollum - enda alinn upp af línufólki. Hann gagnrýnir aukið sérfræðingaveldi, vill að stjórnvöld treysti sjómönnum og sjávarútvegsfyrirtækjum og þau fái aukna aðkomu að ákvörðunum um greinina og umhverfi hennar. Skák hefur heltekið marga í gegnum árin og fegurð íþróttarinnar ekki síst fólgin í því hve vel hún hentar öllum. Með tækniþróun hafa orðið breytingar á skákkennslu og eftir Covid varð aukning meðal þeirra sem sækja sér kennslu og mæta á skákmót. Samfélagið hitti Gauta Pál Jónsson, ritstjóra og skákkennara og fræddist um stöðu skákíþróttarinnar. Harpa Þorsteinsdóttir, lýðheilsufulltrúi Reykjavíkurborgar, ætlar að koma til okkar í lok þáttar og segja okkur allt um virkniþing fyrir eldra fólk sem fer fram í Ráðhúsinu á morgun. Á þinginu verður kynnt fjölbreytt heilsueflandi þjónusta og afþreying. Tónlist í þættinum: Ásgeir Trausti - Stardust. Ljótu hálfvitarnir - Sonur hafsins. Eivör Pálsdóttir - Við gengum tvö.
Í heimildarmynd Davids Attenboroughs um hafið er mikið fjallað um möguleika þess til að milda áhrif loftslagsvandans - en slæm meðferð á hafinu og einkum hafsbotninum getur aukið á vandann. Botnvörpuveiðar valda raski á hafsbotni og þetta rask veldur losun gróðurhúsalofttegunda. En hversu mikil er þessi losun? Er fiskur kannski ekki jafn loftslagsvæn fæða og talið var? Þessu eiga vísindamenn erfitt með að svara. Matarvenjur fólks eru margbreytilegar eftir heimsálfum, menningu og siðum í landi hverju. Mismunandi er hvaða matar kröfur eru gerðar til barna eftir því hvar þau búa í heiminum og hvað foreldrar ætlast til að þau borði. Margir uppalendur hafa áhyggjur af matarvenjum barna sinna, hvort einhverjar fæðutegundir skorti í mataræðið eða ef börnin eiga erfitt með að samþykkja nýjar fæðutegundir. Samfélagið kíkti í heimsókn til Sigrúnar Þorsteinsdóttur, barnasálfræðings og fræddist um matvendni. Í lok þáttar kom Edda Olgudóttir til okkar og segja okkur frá nýrri rannsókn á krabbameinsstofnfrumum. Tónlist í þættinum: EYÞÓR INGI & LAY LOW - Aftur Heim Til Þín. THE RONETTES - Be My Baby. SÍÐAN SKEIN SÓL - Ég Stend Á Skýi.
Í gulum september, sem nú stendur yfir, er lögð áhersla á að auka meðvitund fólks um mikilvægi geðræktar og sjálfsvígsforvarna með kærleika, aðgát og umhyggju að leiðarljósi. Í tilefni af gulum september ætla landssamtökin Geðhjálp að ferðast um landið með geðlestina. Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Geðhjálpar, kom í spjall. Stór hluti þess afla sem er sóttur í hafið við Ísland er veiddur með botnvörpu, veiðarfærum sem hafa sætt gagnrýni undanfarið, eftir mynd breska fjölmiðlamannsins Davids Attenborough um hafið. Haraldur Arnar Einarsson, fiskifræðingur hjá Hafró og sérfræðingur hjá Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna, hefur rannsakað þróun veiðarfæra og áhrif þeirra á náttúruna. Öll veiðarfæri valda skaða, enda hönnuð til að drepa og öll geta þau valdið viðbótarskaða á lífríkinu. Skaðinn af völdum botnvarpa á Íslandi er víða löngu skeður. Hvenær lærðu Íslendingar að skrifa og jafngildir það að geta párað eða klórað því að vera skrifandi? Erla Hulda Halldórsdóttir, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, svaraði þessum spurningum nýlega á Vísindavefnum. Hún ræðir við okkur um skriffærni almennings á öldum áður og mótlæti sem fátækar stúlkur sem vildu læra að draga til stafs mættu - langamma hennar þar á meðal. Tónlist í þættinum: Ómar Ragnarsson - Kossar, sætari en vín. Una Torfadóttir - Það sýnir sig (Studio RUV). Helga Möller - Ort í sandinn.
Fyrir árið 2030 hyggjast íslensk stjórnvöld tryggja vernd 30% hafsvæða við Ísland. Þetta er stórt stökk því í dag er bara örlítið brot af hafinu við Ísland verndað. Snjólaug Árnadóttir, dósent við Lagadeild HR og forstöðumaður Sjálfbærni- og loftslagsréttarstofnunar Háskólans í Reykjavík, ætlar að ræða við okkur um hafréttarmál en það er allur gangur á því hvort alþjóðasáttmálar um vernd hafsins eru bindandi eða ekki og misjafnt hversu skýrar kröfur þeir gera til aðildarlanda. Þjóðskjalasafn Íslands varðveitir heimildir um sögu landsins og þróun byggðar og mannlífs. Þar má meðal annars finna heimildir um fjalir sem varðveittar eru á Þjóðminjasafni Íslands. Fjalirnar komu til safnsins 1924 og voru lengi sveipaðar dulúð vegna myndefnisins sem var á þeim. Fjórir af hverjum tíu í heiminum segjast forðast að neyta frétta, stundum eða oft, samkvæmt árlegri könnun á fjölmiðlanotkun sem nær til 48 landa. Þetta hlutfall hefur hækkað um ellefu prósentustig frá árinu 2017. Þátttakendur í könnuninni segjast jafnvel úrvinda yfir miklu magni frétta og umfjöllun oft of neikvæð. Við ræddum þessar niðurstöður við Skúla Braga Geirdal fjölmiðlafræðing.
Árið 2024 umbreytti hönnunarfyrirtækið FÓLK Reykjavík 14,5 tonnum af iðnaðar- og neytendaúrgangi í verðmætar hönnunarvörur. Blómavasar, veggljós, bakkar og púðar voru búin til úr afgangssteini-, gleri og textíl sem annars hefði farið til spillis, endað í landfyllingu eða verið brennt með tilheyrandi umhverfiskostnaði. Við ræðum við Rögnu Söru Jónsdóttur, stofnanda og framkvæmdastjóra Fólk Reykjavík. Ný skordýr eru stöðugt að skjóta upp kollinum hér á landi. Samfélagið hefur áður heimsótt skordýrafræðingana Brynju Hrafnkelsdóttur og Matthías Alfreðsson á Mógilsá - þar sem þau leggja gildrur og rannsaka landnám nýrra skordýra. Birkitré víða um land eru til dæmis í betra ástandi núna vegna landnáms sníkjuvespu sem er óvinur birkiþélunnar sem hefur leikið birkið grátt síðustu ár. Þau Matthías og Brynja hafa svo undanfarið ár fylgst með landnámi barkarbjöllutegundar, sem þau töldu saklausa í fyrstu - en annað hefur nú komið á daginn. Við heyrum allt það nýjasta úr heimi skordýranna. Djúpfalsanir eru ein af dökku hliðum gervigreindar. Með aðstoð tækninnar er hægt að falsa myndir og myndbönd á afar sannfærandi hátt. Stærstur hluti djúpfalsana er klám og helstu fórnarlömb djúpfalsana eru konur, ekki bara frægar konur heldur hver sem er sem á mynd af sér á netinu. Eyrún Magnúsdóttir, blaðamaður og gervigreindarfréttaritari Samfélagsins, kemur til okkar á eftir og ræðir um gervigreind og kvenfyrirlitningu sem birtist í djúpfölsunum. Tónlist í þættinum: DOLLY PARTON - Coat Of Many Colours. PRINS PÓLÓ - París Norðursins.
Borgar sig að vanmeta menntun? var yfirskrift málþings sem fór fram í Grósku í byrjun vikunnar. Arðsemi háskólanáms á Íslandi hefur dregist saman um helming frá árinu 2008, samkvæmt nýrri skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands sem unnin var fyrir BHM. Kolbrún Halldórsdóttir, formaður BHM, segir okkur frá helstu niðurstöðum. Íþróttakennsla barna í grunnskólum hefur tekið breytingum þau fjörutíu ár sem Erla Gunnarsdóttir hefur sinnt kennslu. Erla hóf störf sem íþróttakennari í Seljaskóla í Breiðholti á níunda áratug síðustu aldar en flutti sig yfir í Hamraskóla í Grafarvogi þegar sá skóli opnaði árið 1991. Samfélagið hitti Erlu í Hamraskóla á dögunum og hún segir okkur frá upplifun sinni af því að kenna börnum íþróttir og sund í gegnum árin og sínu hlutverki sem kennara, sem hún segir best lýst sem heilsuþjálfara. Stefán Gíslason, umhverfisstjórnunarfræðingur og pistlahöfundur Samfélagsins, greinir frá nýrri uppgötvun sem getur reynst vel, bæði í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og í baráttunni gegn plastmengun. Tónlist í þættinum: JOHNNY CASH - I Walk The Line. KATRINA AND THE WAVES - Walking On Sunshine.
Hvað vitum við um lífríkið á hafsbotninum umhverfis Ísland? Þekking vísindamanna er gloppótt og sömuleiðis vitneskja um áhrif botnvörpuveiða á þetta lífríki. Í sumar hitti Samfélagið Steinunni Hilmu Ólafsdóttur, sjávarlíffræðing, um borð í nýja hafrannsóknaskipinu, Þórunni Þórðardóttur. Steinunn Hilma var á leið í nokkurra vikna siglingu til að rannsaka lífríki hafsbotnsins við Ísland og sagði okkur frá rannsóknaraðferðunum, stöðu þekkingar og hvað henni finnst um þá útreið sem botnvörpuveiðar fá í nýjustu mynd Davids Attenborough, Ocean. Skólar landsins eru fullir af lífi á ný eftir sumarfrí og í þættinum ætlum við að fá innsýn inn í vinnudag kennara. Atli Rafnsson er umsjónarkennari við Setbergsskóla í Hafnarfirði. Við fylgdum honum eftir einn vinnudag, frá því hann mætti hjólandi til vinnu að morgni og þar til hann gekk inn í síðustu kennslustund dagsins. Edda Olgudóttir, vísindamiðlari Samfélagsins, kom í þáttinn og sagði okkur frá nýrri rannsókn á Parkinson sjúkdómnum. RÚNAR JÚLÍUSSON - Hamingjulagið. Mitchell, Joni - Little Green. FRIÐRIK DÓR - Ekki stinga mig af.
Grænvangur er samstarfsvettvangur atvinnulífs og stjórnvalda í loftslagsmálum. Ársfundur samtakanna fór fram á dögunum. Við ræðum við Nótt Thorberg, forstöðumann Grænvangs, um getu atvinnulífsins til að leggja sitt af mörkum í loftslagsmálum, helstu hindranir og sóknarfæri og samstarfið við stjórnvöld. Páll Líndal veltir í pistli dagsins fyrir sér staðaranda, staðleysu og Disney-væðingu og setur í samhengi við fyrirhugaða uppbyggingu gamla Slippssvæðisins í Vesturbugt í Reykjavík.
Bókasafnsdagurinn er haldinn í borgarbókasafninu í Kringlunni í dag. Þema dagsins er lestur er bestur - fyrir sálina. Guttormur Þorsteinsson, bókavörður, segir okkur allt um dagskrána á bóksafninu í dag. Við heyrum söguna af því þegar íslenska körfuboltalandsliðið fór næstum því á fund Bandaríkjaforseta, á sjöunda áratug síðustu aldar. En Evrópumótið í körfubolta fer nú fram í Kýpur, Finnlandi, Póllandi og Lettlandi. Íslenska landsliðið hefur lokið sinni keppni á mótinu en það var í árslok 1964 sem íslenskt körfuboltalandslið hélt til Bandaríkjanna og Kanada í sína fyrstu keppnisferð erlendis. Í skjalasafni íslenska sendiráðsins í Washington, sem varðveitt er í Þjóðskjalasafni, er að finna bréf sem voru send í aðdraganda þessarar ferðar. Heiðar Lind Hansson, safnvörður á Þjóðskjalasafninu, segir okkur frá þessum skjölum. Einar Gunnar Bollason var einn þeirra leikmanna landsliðsins sem fór í þessa ferð. Einar varð síðar landsliðsþjálfari, formaður Körfuknattleikssambands Íslands og hefur starfað víða tengt körfuboltanum. Hann deilir endurminningum sínum tengdum ferðinni, meðal annars kynnum sínum af stórstjörnunni Diana Ross. Tónlist í þættinum: ELVIS PRESLEY - Only Fools Rush In. MUGISON - Haustdansinn. DIANA ROSS & THE SUPREMES - Stop in the name of love
Samfélagið sendi út frá hljóðveri Ríkisútvarpsins í Hjálmakletti í Borgarnesi og ræddi við forsvarsmenn hátíðanna tveggja sem setja svip sinn á bæinn um helgina, Hinseginhátíð Vesturlands og Brákarhátíð. Við skoðum úrvalið í Regnbogasjoppunni og Guðrún Steinunn Guðbrandsdóttir, forseti Hinsegin Vesturlands, og Hafþór Ingi Gunnarsson, formaður Hollvinasamtaka Borgarness, segja frá tilurð hátíðanna, mikilvægi þeirra fyrir samfélagið og helstu dagskrárliðum. Heiðrún Helga Bjarnadóttir, sóknarprestur í Borgarnesi, ræðir síðan um regnbogamessur, fræðslustarf kirkjunnar og mikilvægi þess að kirkjan og öll þau sem hafa rödd og vettvang til að láta í sér heyra standi með hinsegin samfélaginu. Tónlist í þættinum: HJÁLMAR - Áttu vinur augnablik. Franklin, Aretha - The masquerade is over. Bill Withers - Lean On Me. STJÓRNIN - Hleypum gleðinni inn. ARETHA FRANKLIN - I Say A Little Prayer.
Við höldum áfram að rannsaka lífríkið við rannsóknarstöð Lands og skóga að Mógilsá í Kollafirði. Arnhildur Hálfdánardóttir slóst í maí í fyrra í för með þeim Brynju Hrafnkelsdóttur, skógfræðingi hjá Landi og skógi, og Matthíasi S. Alfreðssyni, skordýrafræðingi hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, sem vinna saman að því að rannsaka nýja landnema á borð við grenivefara og sniglanárakka. Þau skoða hvað hefur safnast í fiðrildagildrur og fallgildrur og veita okkur nýja innsýn í rannsóknir á skordýrum - sem geta svo sannarlega krafist mikillar þrautseigju og þolinmæði. Og síðan rifjum við upp heimsókn Samfélagsins í textílflokkunarmiðstöð Rauða krossins – meira um það á eftir.
Í gær fjölluðum við í Samfélaginu um aðför að loftslagsvísindum og vísindastofnunum í Bandaríkjunum og við höldum okkur á svipuðum nótum í dag. Umrót í vísindalandslagi Bandaríkjanna gæti haft víðtækari áhrif. Einar Mantyla, sérfræðingur í nýsköpun hjá Orkídeu – sem hefur fengist við svokallaða vísindalega nýsköpun um árabil – ætlar að setjast hjá okkur og ræða spekileka sem hefur lengi legið til Bandaríkjanna en gæti verið að snúast við. En síðan veltum við fyrir okkur lífríkinu við Mógilsá – Arnhildur Hálfdánardóttir hitti Brynju Hrafnkelsdóttur, skógfræðing, á förnum vegi og slóst í för með henni í rannsóknarleiðangur. Og að lokum kíkir Edda Olgudóttir við eins og hún gerir alla miðvikudaga. Hún er sérstakur vísindamiðlari Samfélagsins og ætlar í dag að fræða okkur um greiningar á DNA í andrúmslofti.
Við verðum á vísindalegum nótum í þætti dagsins og byrjum á að ræða um helín – eða helíum – lofttegund sem við þekkjum einna helst úr sautjánda-júní-blöðrum en gegnir einnig mikilvægu hlutverki í læknavísindum og vísindarannsóknum á hinu og þessu. En notkun okkar á þessari gastegund er langt umfram framleiðslu – þetta er takmörkuð auðlind sem við göngum á og erum mjög léleg í að endurnýta. Ágúst Kvaran, prófessor emeritus í eðlisefnafræði, kíkir í heimsókn hér í upphafi þáttar, segir okkur frá þessari gastegund og hvort við gætum einfaldlega klárað allt þetta helíum. Og síðan fáum við loftslagsspjall. Arnhildur Hálfdánardóttir fær til sín Halldór Björnsson, fagstjóra veðurs og loftslags hjá Veðurstofu Íslands til að ræða aðför að loftslagsvísindum og vísindastofnunum í Bandaríkjunum.
Fyrirtæki eru í auknum mæli farin að nýta gervigreind til að auka afköst, bæta sölustarf og ná betur til réttra markhópa – líka fyrirtæki sem fremleiða sígarettur. Þau veðja þó ekki lengur á retturnar heldur hafa fjárfest fyrir hundruð milljarða í níkótínpúðum og nýta tæknina til að koma þeim hraðar í hendur – og undir varir – ungra neytenda. Og síðan kíkjum við í heimsókn í Þjóðskjalasafn Íslands, þar sem Gunnar Örn Hannesson, fagstjóri skráninga hjá Þjóðskjalasafninu, skyggnist með okkur í dagbók lögreglunnar frá árinu 1941. Tónlist úr þættinum: VELVET UNDERGROUND - Pale Blue Eyes [Closet mix]. Lenker, Adrianne - Real House. Lúpína - Hvað varð um allt?.
Í dag fjöllum við um refaveiðar. Samfélagið leggur leið sína til Patreksfjarðar, þar sem Gréta Sigríður Einarsdóttir, fréttamaður RÚV á Vesturlandi og Vestfjörðum, ræddi við grenjaskyttu sem starfar í gamla Rauðasandshreppi, vestasta odda landsins. Hann segir tilganginn ekki vera að útrýma refnum heldur halda fjölda þeirra í skefjum svo fuglalífið geti blómstrað. Og við höldum okkur í ríki dýranna. Undanfarin ár hefur fjöldi nýrra skordýrategunda numið hér land. Við ræðum við Matthías S. Alfreðsson, skordýrafræðing á Náttúrufræðistofnun Íslands, en hann vaktar þau smádýr sem hingað berast og er sérlegur áhugamaður um skógarmítla.
Pallborð á kvenréttindadaginn: Í dag eru 110 ár liðin frá því konur 40 ára og eldri fengu kosningarétt - kvenréttindadagurinn 19. júní á sér langa sögu og upp á hann hefur verið haldið með margvíslegum hætti - og við látum ekki okkar eftir liggja hér í Samfélaginu á Rás 1 og blásum til pallborðsviðræðna um stöðu kvenna og kvára. Við ætlum að líta um öxl en líka reyna að bera kennsl á hin fjölmörgu baráttumál sem enn blasa við - sum eru augljós og vel þekkt, önnur kannski ný til komin eða og meira falin. Þátttakendur: Hér er Kristín Ástgeirsdóttir, sagnfræðingur, ein af stofnendum Samtaka um kvennalista og formaður þingflokks þeirra um árabil - hún er hér sem fulltrúi Kvenréttindafélags Íslands. Aleksandra Leonardsdóttir, sérfræðingur í fræðslu og inngildingu hjá Alþýðusambandi Íslands og er í miklum samskiptum við konur af erlendum uppruna. Rakel Adolphsdóttir, sagnfræðingur og fagstjóri Kvennasögusafns Íslands. Rósa Björk Einarsdóttir og Rakel Birta Ásgeirsdóttir frá Félagi ungra mæðra sem er hugsað sem stuðningsnet fyrir ungar mæður. Í lok þáttar heyrum við 395. pistil Stefáns Gíslasonar - hann fjallar í dag um skordýr. Tónlist í þættinum: SINEAD O'CONNOR - Mandinka. Beyoncé - Ameriican Requiem.
Í tilefni af degi sjálfbærrar matargerðarlistar verður í dag boðið upp á gönguferð og plöntusmakk fyrir utan Norræna húsið í Reykjavík. Að þessu standa meðal annars samtökin Borgarnáttúra, sem ætla að kenna fólki að bera kennsl á villtar matjurtir í grenndinni og samtökin Slow food á Íslandi. Svava Hrönn Guðmundsdóttir, stundum kennd við sinnep, verður einn fulltrúi Slow food á staðnum og hún ætlar að spjalla við okkur um matseðil náttúrunnar - hér rétt á eftir. Japanski metsöluhöfundurinn Haruki Murakami hefur verið sæmdur heiðursdoktorsnafnbót við Háskóla Íslands – þeir eru orðnir ansi margir, heiðursdoktorarnir við HÍ, og tengsl þeirra við háskólann – og jafnvel Ísland eru mismikil – við fyrstu sín virðast tengsl Murakamis við Ísland frekar takmörkuð en eru þau það í raun og veru? Í dag ræðum við um heiðursdoktorsnafnbótina og komumst að því hvers vegna Haruki Murakami var sæmdur henni – við ræðum það við Kristínu Ingvarsdóttur, lektor í japönskum fræðum við Háskóla Íslands Í lok þáttar kemur Edda Olgudóttir, vísindamiðlari Samfélagsins, í heimsókn í hið vikulega vísindaspjall. Í dag fjallar hún um svefn unglinga. Tónlist í þættinum: LEONARD COHEN - Slow.
Um 120 kennarar í grunn- og framhaldsskólum komu saman fyrir helgi til að læra nýstárlega aðferð til að kenna stærðfræði. Aðferðin er kölluð upp á íslensku hugsandi kennslustofur og er tíunduð í samnefndri bók eftir hinn sænska Peter Liljeberg – prófessor í stærðfræðimenntun við Simon Fraser-háskólann í Kanada, og það var einmitt hann sem stóð fyrir þessu námskeiði ásamt Bjarnheiði Kristinsdóttur, lektor í stærðfræði við Háskóla Íslands - og Samfélagið kíkti við til að heyra meira. Hitabylgjan sem reið yfir Ísland og Grænland í maí var öfgafull og hefði aldrei orðið ef ekki væri fyrir loftslagsbreytingar af mannavöldum. Veðurmet féllu á langflestum veðurstöðvum hér á landi. Halldór Björnsson, fagstjóri veðurs og loftslags á Veðurstofu Íslands, segir aukna tíðni öfgaveðurs sem á einungis að geta skollið á á hundrað ára fresti benda til þess að veðurtölfræðin sé öll að breytast. Helga Lára Þorsteinsdóttir, safnstjóri Ríkisútvarpsins, kemur svo til okkar í lok þáttar - og rifjar upp glæsilegan aðbúnað í hinu sögufræga millilandaskipi Gullfossi. Tónlist í þættinum: Berry Chuck - School day (Ring Ring Goes the BellI) Reverend and the makers - Heatwave in the cold north
Þjóðhátíðardagurinn er handan við hornið, eða helgina og viti menn - þá er spáð rigningu um mest allt land enda ekki almennilegur 17. júní nema það rigni og helst duglega. Til að búa landsmenn undir hæhó og jibbý jei ákvað Samfélagið að ráðast í rannsókn á regnhlífanotkun á Íslandi fyrr og nú - og spyrja: Eru regnhlífar gagnlegar eða ef til vill algerlega gagnslausar á Íslandi? Hvers vegna ráðum við túristum eindregið frá því að pakka regnhlífum fyrir Íslandsferðina? Nýlegar breytingar á Google-leitarvélinni sem færa notendum svör samin af gervigreind hafa orðið til þess að netumferð á fréttamiðla hefur snarminnkað. En munu tæknirisar endanlega gera út af við fréttamiðla? Í dag veltum við þessari spurningu fyrir okkur með Eyrúnu Magnúsdóttur, gervigreindarfréttaritara Samfélagsins. Pistill frá Esther Jónsdóttur, pistlahöfundi Samfélagsins - hún hefur undanfarið verið með hugann við hafið og pistill dagsins endurspeglar það. Tónlist í þættinum: SPILVERK ÞJÓÐANNA, SPILVERK ÞJÓÐANNA - Skýin. MASSIVE ATTACK - Teardrop. RIHANNA - Umbrella. THE WEATHER GIRLS - It´s Raining Men. Franklin, Aretha - My guy. O-Shen - Siasi.
Rúnar Gunnarsson ljósmyndari er einn fárra sem stundað hefur götuljósmyndun á Íslandi - raunar hefur hann myndað mannlífið í 65 ár. Við hittum Rúnar á Lækjartorgi og ræðum við hann um götuljósmyndun, mannlífið í miðborg Reykjavíkur í áranna rás og hvort tíminn sé mögulega bara einhvers konar blekking. Félag áhugafólks um gerjun – eða FÁGUN – er stofnað utan um áhugamál sem er í raun og veru ólöglegt á Íslandi: heimabrugg. Engu að síður er starfsemi félagsins blómleg og félagarnir talsvert margir. Í dag heimsækjum við FÁGUN, fræðumst um starfsemina og heyrum meira um bjórbrugg, bjórmenningu og baráttuna fyrir afglæpavæðingu heimabruggs. Tónlist í þættinum: Sylvan Esso - Die young Júníus Meyvant og KK - Skýjaglópur
Mannréttindaráðstefna World Pride var haldin í síðustu viku í höfuðborg Bandaríkjanna – en ráðstefnan er hluti af stærstu hinsegin viðburðarröð heims og dregur að sér þátttakendur, sérfræðinga og leiðtoga alls staðar að úr heiminum til að ræða stöðu og framtíð mannréttinda hinsegin fólks. Fulltrúar Samtakanna 78 og Hinsegin daga tóku meðal annarra þátt í ráðstefnunni og í dag koma þeir í heimsókn til okkar - þær Bjarndís Helga Tómasdóttir, formaður Samtakanna 78, og Helga Haraldsdóttir, formaður Hinsegin daga – til að gera upp ráðstefnuna. Fyrstu samfélagslögreglumennirnir á Íslandi tóku til starfa fyrir rúmum sex árum síðan. Síðan hefur verkefnið vaxið hratt og nú eru starfandi samfélagslöggur á flestum lögreglustöðvum landsins. Við ræðum við Unnar Þór Bjarnason, reynda samfélagslöggu, um hvernig megi skapa traust og tengsl milli lögreglunnar og almennings og hvernig lögreglan hefur stigið inn í erfið mál tengd unglingum og ungu fólki. Edda Olgudóttir, vísindamiðlari Samfélagsins, fræðir okkur um loftslagsbreytingar og mjólkurvörur. Tónlist í þættinum: Japanese Breakfast - Slide Tackle Suki Waterhouse - Supersad
Í dag fjöllum við um glæpi. Þegar fylgst er með almennri umræðu á Íslandi mætti stundum halda að glæpatíðnin í dag væri hærri en gengur og gerist og stundum heyrast jafnvel raddir sem segja að ástandið hér á landi sé stjórnlaust – af hinum ýmsu ástæðum. En hvað segja tölurnar okkur? Snorri Örn Árnason, verkefnastjóri hjá ríkislögreglustjóra og aðjúnkt í afbrotafræði við Háskóla Íslands kíkir í heimsókn til að segja okkur meira um það. Sumarstörf eru alls konar, við heyrum í dag nokkrar sögur frá hlustendum af eftirminnilegum sumarstörfum og ræðum við Önnu Katrínu Halldórsdóttur, framkvæmdastjóra vinnumiðlunarinnar Alfreðs, um stöðu sumarstarfa í dag. Tónlist úr þættinum: ARETHA FRANKLIN - Say a Little Prayer For Me. Kraftwerk - Taschenrechner. La Havas, Lianne - Unstoppable (bonus track mp3). King, Carole - Lay down my life (album version).
Fyrir fjórum árum stóð Loftur Guðmundsson, verkfræðingur, á krossgötum, ákvað að láta reyna á gamlan draum og flutti í húsbíl. Nýlega ákvað hann að minnka við sig og býr nú í þriggja fermetra sendiferðabíl á Sævarhöfða í Reykjavík, þar sem fleira fólk býr í húsbílum og smáhýsum með aðgang að rafmagn og hreinlætisaðstöðu. Við heimsækjum Loft sem líklega er einn nægjusamasti maður landsins og kynnumst hugmyndunum á bakvið lífsstílinn. Frumkvöðlar hætta ekki að fá hugmyndir á sumrin – þess vegna stendur Klak Icelandic Startups fyrir sumarhraðlinum Startup Supernova – þar sem markmiðið er að ný fyrirtæki lendi hlaupandi og stækki hratt. Atli Björgvinsson og Jenna Björk Guðmundsdóttir frá Klak koma í heimsókn í dag til að segja okkur frá þessum hraðli – og líka aðeins frá sögu Klak, sem fagnaði nýlega 25 ára afmæli. Stefán Gíslason flytur okkur eitraðan pistil þar sem netverslunarrisinn Temu og rithöfundurinn Agatha Christie koma við sögu. Tónlist í þættinum: Katrín Helga Ólafsdóttir - Seinasti dansinn okkar. Simon and Garfunkel - Cecilia
Tæknin hjálpar okkur við margt í daglegu lífi, en mun gervigreind hjálpa til við að leysa stór vandamál sem steðja að heiminum, eins og matarsóun. Eyrún Magnúsdóttir, gervigreindarfréttaritari Samfélagsins, ætlar að koma til okkar og fjalla um það hvernig gervigreind og matarsóun tengjast. Reglulega berast foreldrum leikskólabarna tölvupóstar um að hinn eða þessi sjúkdómur hafi skotið sér niður í skólanum. Einn þessara sjúkdóma er hand-, fóta- og munnsjúkdómur, líka kallaður blöðrumunnbólga með útbrotum. Við ætlum að ræða við Valtý Stefánsson Thors, barnasmitsjúkdómalækni á Landspítalanum, um barnasmitsjúkdóma, hvernig sjúkdómaflóran hefur breyst í áranna rás og hvers vegna sumt eldra fólk kváir þegar barnasjúkdóma dagsins í dag ber á góma. Edda Olgudóttir, vísindamiðlari þáttarins og fastur miðvikudagsgestur, ætlar svo að spjalla við okkur um nýjar rannsóknir á verkjameðferðum.
Ýmsar umbúðir sem fyrirtæki hér á landi nota verða ólöglegar ef og þegar ný umbúðareglugerð Evrópusambandsins verður innleidd í íslenskt regluverk í gegnum EES-samninginn. Reglurnar lúta að hönnun, samsetningu og stærð umbúða og koma til með að snerta marga framleiðendur hér. Til dæmis verður bannað að pakka gúrkum og tómötum í plast, litlar smjöröskjur og pokarnir með tómatsósu, sem oft fylgja frönskum á veitingastöðum heyra líka sögunni til og sums staðar eiga einnota umbúðir að víkja alfarið fyrir umbúðum sem hægt er að nota aftur og aftur. Sigurður Helgi Birgisson, viðskiptastjóri matvælaiðnaðar hjá Samtökum iðnaðarins, hefur verið fyrirtækjum innan handar við að búa sig undir þessar breytingar og hann ætlar að koma til okkar og ræða stöðuna í dag og framtíðina í umbúðamálum. Við fjöllum líka aðeins um röddina. Við heimsækjum Lindu Markúsardóttur, talmeina- og raddfræðing, á Grensásdeild Landspítalans – meðal annars til að ræða kynjaða eiginleika raddarinnar, sem eru flóknari en þeir hljóma við fyrstu hlustun. Spænska borgin Valencia varð illa úti í miklum flóðum í fyrra. Flóð hafa öldum saman valdið usla í borginni og svo fór að um miðja síðustu öld var árfarvegur árinnar Túría, sem oft flæddi yfir bakka sína, fluttur út fyrir borgina - Páll Líndal, umhverfissálfræðingur, segir frá því hvað varð um gamla árfarveginn og hvernig þessi tilfærsla eltist í pistli dagsins. Tónlist í þættinum: BOB DYLAN - One More Cup Of Coffee. JET BLACK JOE - Summer is gone. Bravo, Nino - Un beso y una flor.
Hátíðin Reykjavík Fringe Festival fer fram í áttunda sinn þessa vikuna, þar verða margs konar listform og gjörningar ráðandi; uppistand, ljóð, ljósmynda- og leiksýningar - meira að segja burlesque-danssýning þar sem kettir koma við sögu. Við fáum tæknistjóra hátíðarinnar, Juliette Louste, til að ræða við okkur um þessa hátíð sem á rætur sínar að rekja til grasrótarhreyfingar listamanna í Skotlandi fyrir hartnær áttatíu árum síðan. Um helgina var boðað til tveggja mótmæla í miðborg Reykjavíkur – önnur voru á Austurvelli vegum hóps sem heitir Ísland, þvert á flokka, þar sem stefnu stjórnvalda í útlendingamálum var mótmælt – og hin voru eiginleg gagnmótmæli á Ingólfstorgi, þar sem hópur kom saman til að taka afstöðu gegn mótmælunum á Austurvelli og með jaðarsettum hópum. Samfélagið mætti á þau bæði – ræddi við fólkið sem þar var og fylgdist með því sem fór fram. Tónlist í þættinum: AIR - All I Need.
Oft eru gerðar miklar kröfur um samskiptahæfileika í atvinnuauglýsingum, jafnvel í störfum þar sem þeirra er ekki þörf. Þetta getur haft útilokandi áhrif fyrir einhverfa sem búa oft yfir öðrum styrkleikum sem nýtast vel í starfi. Eru gáfur jafnvel að fara til spillis vegna þess að vinnumarkaðurinn er of einsleitur? Í meistararitgerð með yfirskriftinni: Allir eiga að vera mega hressir og með brennandi áhuga, rannsakar Bjarney L. Bjarnadóttir þessi mál. Við ræðum við hana um rannsóknina hér á eftir. Og í dag flytjum við líka sérstakan pistil úr smiðju Estherar Jónsdóttur, pistlahöfundar Samfélagsins. Pistill dagsins fjallar um hafið og í honum komum við meðal annars við á eyjunni Maui, í kvikmyndahúsi í Reykjavík á frumsýningu merkilegrar kvikmyndar, í Háskólasetri Vestfjarða og á stöndinni við Hólmavík.
Aðgengi almennings að Heiðmörk kann að verða takmarkað í framtíðinni. Veitur stefna að því að loka grannsvæði vatnsverndar fyrir almennri bílaumferð. Í dag verður haldið málþing á vegum Skógræktarfélags Reykjavíkur þar sem framtíð Heiðmerkur verður rædd. Auður Kjartansdóttir, framkvæmdarstjóri Skógræktarfélags Reykjavíkur, kemur og ræðir við okkur um framtíð Heiðmerkur. Síðan fáum við síðasta pakkann af umfjöllunum frá nemendum í blaða- og fréttamennsku við Háskóla Íslands. Stefanía Silfá Sigurðardóttir fjallar um tónlistarhátíðina Aldrei fór ég suður á Ísafirði. Theódóra Guðný Vilhjálmsdóttir fjallar um strákahljómsveitir. Þórður Ari Sigurðsson fjallar um níkótínpúðanotkun ungmenna. Og að lokum kíkir Edda Olgudóttir til okkar í vísindaspjall og segir okkur frá áhrifum Alzheimers á aðra vefi líkamans.
Íslensk ættleiðing er eina ættleiðingarfélagið á Íslandi sem hefur löggildingu frá Dómsmálaráðuneytinu til þess að annast milligöngu um ættleiðingar erlendis frá. Við ætlum að ræða við formann félagsins, Ástu Sól Kristjánsdóttur, um ættleiðingar til Íslands og helstu störf félagsins en margir ættleiddir leita til þess í leit að uppruna sínum. Og við höldum áfram að flytja umfjallanir nemenda í blaða- og fréttamennsku við Háskóla Íslands. Við byrjuðum í gær og fáum þrjú innslög í þætti dagsins: Ísabella Sól Ingvarsdóttir fjallar um hlaup og hvort 100 kílómetrar séu nýja maraþonið. Kári Snorrason ræðir við Sigga Storm um íslenska sumarið. Malín Eyfjörð fjallar um fyrirbærið kreppupopp og hvað popptónlist getur sagt okkur um efnahagsástandið.
Í þessari viku flytjum við hér í Samfélaginu ellefu umfjallanir úr smiðjum nemenda í blaða- og fréttamennsku við Háskóla Íslands. Í dag flytjum við fimm umfjallanir: Alma Sól Pétursdóttir fjallar um óhefðbundin, óformleg og krefjandi skátamerki. Ásrún Aldís Hreinsdóttir fjallar um brúnkukremsnotkun íslenskra ungmenna og brúnkukremsfíkn. Baldvin Þór Hannesson fjallar um nýja kynslóð íslenskra rappara og listahópinn FlySouth. Birta María Hallsteinsdóttir fjallar um tónlist og gervigreind. Halldór Ingi Óskarsson fjallar um incel-menningu. Við kíkjum líka í heimsókn í Þjóðskalasafn Íslands og veltum okkur upp úr einkaskjalasöfnum með Þórunni Marel Þorsteinsdóttur, verkefnastjóra hjá Þjóðskjalasafni Íslands.
Á dögunum var nýjasta heimildarmynd Davids Attenborough – Hafið – frumsýnd á Íslandi og viðbrögðin hafa verið sterk og jákvæð. Að því tilefni ætla framleiðendur myndarinnar og hópur íslenskra félagssamtaka, í samvinnu við umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið og Háskólann í Reykjavík, að halda fund um hafvernd á Íslandi á mánudaginn. Hér rétt á eftir fáum við til okkar Katrínu Oddsdóttur og Andrés Inga Jónsson, tvo af skipuleggjendum fundarins, til að segja okkur meira. Hlustendur í höfuðborginni hafa líklega tekið eftir því að sumarblóm eru byrjuð að birtast hér og þar í borgarlandinu. Þessi sumarblóm – sem og allmörg tré, runnar og annar gróður – eru langflest ræktuð í Ræktunarstöð Reykjavíkurborgar í Fossvogi. Við heimsóttum ræktunarstöðina í vikunni og fengum að heyra hvernig gengur á þessum miklu annatímum hjá stöðinni við byrjun sumars. Og í lok þáttar setjumst við niður með félögum í Bjórmenningafélagi Íslands.
Við fjölluðum um nýyrðasmíð gervigreindar í síðustu viku og Eyrún Magnúsdóttir, gervigreindarfréttaritari Samfélagsins, heldur áfram þeirri umfjöllun í dag. Hún ræðir við Huldu Ólafsdóttur og Svanhvíti Lilju Ingólfsdóttur, sérfræðinga í máltækni hjá Miðeind, um nýyrðasmíð gervigreindar og færni hennar í íslensku. Seinna í þættinum fáum við til okkar stofnendur mótmælahreyfingarinnar F.L.Í.S. – eða Fokk Laxeldi í Sjókvíum – sem standa fyrir mótmælum á Austurvelli á morgun. Stofnendurnir eru þrjár stúlkur í tíunda bekk í Laugalækjaskóla. Við setjumst niður með tveimur þeirra, sem og fulltrúa Ungra umhverfissinna til að ræða um loftslagsaktívisma hjá ungu fólki. En í dag er dagur líffræðilegrar fjölbreytni og Stefán Gíslason, pistlahöfundur Samfélagsins, fjallar um það í pistli sínum í dag, sem við fáum að heyra undir lok þáttar.
Stór hópur fólks kom saman við utanríkisráðuneytið í dag og krafðist aðgerða í ljósi ólýsanlegra hörmunga á Gaza. Það er í sjálfu sér ekki nýtt – þessi mótmælahreyfing hefur verið öflug í rúmt eitt og hálft ár, en óhætt er að segja að ákveðinn vendipunktur hafi orðið þegar Sameinuðu þjóðirnar sögðu í gær að allt að 14 þúsund börn myndu svelta á Gaza ef neyðaraðstoð er ekki hleypt inn á svæðið. Þrýstingurinn á aðgerðir er að aukast og við fjöllum um það í dag – sem og mótmælin sem haldin voru í morgun. Hlaup eru vinsæl íþrótt og sumarið er tíminn þar sem fleiri og fleiri hlauparar fara á stjá. En hvernig á maður að byrja? Ósk Gunnarsdóttir hlaupari byrjaði að hlaupa fyrir þremur árum síðan og gat þá ekki hlaupið einn kílómeter án þess að stoppa. Á dögunum tók hún þátt í Bakgarðshlaupinu og hljóp þar rúma 240 kílómetra. Hún segir hlaupin hafa bjargað geðheilsu sinni og ætlar að gefa þeim sem vilja byrja að hlaupa nokkur góð hlauparáð. Að lokum kemur Edda Olgudóttir í heimsókn til okkar til að segja okkur frá því nýjasta úr heimi vísindanna. Tónlist í þættinum: FONTAINES D.C. - Skinty Fia. BRUCE SPRINGSTEEN - Born to run. Góss - Vor við flóann.
Gott að eldast er aðgerðaráætlun stjórnvalda um að auka samstarf varðandi málefni eldra fólks. En er gott að eldast á Íslandi og hvað er hægt að gera til þess að lifa betra lífi á efri árum? Við fáum til okkar Þórunni Huldu Sveinbjörnsdóttur, fyrrverandi formann Landssambands félags eldri borgara, til þess að ræða þessi mál og fleiri. Og svo fáum við til okkar Sigurð Jóhannesson, hagfræðing og forstöðumann Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, til að ræða um loftslagssamkomulög og hvaða máli þau skipta, sérstaklega í ljósi þess að sumir vilja ekki vera með. Að lokum fáum við pistil frá Páli Líndal umhverfissálfræðingi og pistlahöfundi Samfélagsins.