Fjallað er fordómalaust um menningu samtímans í öllum sínum fjölbreytileika, samfélagsmiðla, dægurmenningu, allt sem mótar líf okkar hér og nú og speglar frá degi til dags alla virka daga kl. 17.03.
Gísli Marteinn Baldursson ræðir brotthvarf Jimmy Kimmel í kjölfar ummæla hans um morðið á Charlie Kirk. Valur Gunnarsson segir frá Leonard Cohen, en á sunnudag stendur hann fyrir tónleika og sagnakvöldi í Tjarnarbíó sem fjallar um Cohen. Friðrik Margrétar Guðmundsson tónlistarspekúlant þáttarins kryfur lagið Lover Girl, af nýútkominni plötu Laufeyjar, A Matter of Time.
Við rýnum í grínþættina The Studio eftir Seth Rogen sem rökuðu til sín verðlaunum á Emmy-sjónvarpsverðlaunahátíðinni í byrjun vikunnar. Brynja Hjálmsdóttir, sjónvarpsgagnrýnandi, tekur sér far með Lestinni. Lóa fær svo til sín Rúnar Guðbrandsson, sem hefur áratugum saman verið einn afkastamesti leikstjórinn í grasrót íslenskra sviðslista. Þau ræða framtíð leikhússins, jaðarsenuna og hvort það hafi einhvern tímann verið hægt að lifa vel af leiklist.
Erum við orðin ófær um að eiga í samtali við fólk sem við erum ósammála? Morðið á Charlie Kirk og umtalað Kastljósviðtal í byrjun mánaðarins hafa orðið kveikjan að umræðu um þöggun, rökræður og samfélagslegt samtal. Við ætlum að halda áfram að ræða um samtalið eða skortinn á því. Við spjöllum við Vilhjálm Árnason, prófessor emiritus í heimspeki, sem hefur í gegnum árin velt fyrir sér samtalinu, lýðræðinu og samræðusiðferði. Kolbeinn Rastrick flytur rýni um Eldana, nýja íslenska bíómynd í leikstjórn Uglu Hauksdóttur. Einar Hugi Böðvarsson ræðir gervigreind og agentíska-gervigreind við okkur.
Í Lestinni í dag veltum við fyrir okkur hvað launmorðið á bandaríska áhrifavaldinum Charlie Kirk í síðustu viku og viðbrögðin við því segja okkur um stjórnmálaumræðuna og pólitísk átök á tímum samfélagsmiðla. Við kynnum okkur líka nýja íslenska grínþætti um Brján sem er frábær í Football Manager en fær óvænt starf aðallþjálfara Þróttara í meistaraflokki karla. Sigurjón Kjartansson, Sólmundur Hólm, Karen Björg og Halldór Gylfason koma öll að þáttunum. En hugmyndin kviknaði hjá knattspyrnumanninum Erlingi Jack Guðmundssyni fyrir meira en 15 árum síðan.
Charlie Kirk var íhaldsmaður og aktivisti, stonfandi samtakanna Turning Point sem voru stofnuð í þeim tilgangi að breiða út íhaldsöm gildi í Bandarískum háskólum. Hann var myrtur í háskóla í Utah í Bandaríkjunum í gær og er morðingja hans enn leitað. Kirk var afar vinsæll og náinn bandamaður Trump bandaríkjaforseta. Hermann Nökkvi Gunnarsson, blaðamaður á Morgunblaði, hefur fylgst með Kirk undanfarin ár. Síðastliðinn föstudag kom út platan Blokkarbarn sem tónlistarkonunni Ástu. Platan er búin að bíða tilbúin í meira en tvö ár, en óttinn við berskjöldun varð til þess að hún beið tilbúin ofan í skúffu í allan þennan tíma. Hvað er heilafúi? Hvað er Gonster? Og er Gonster heilafúi? Hanna Sigþrúður Birgisdóttir er háskólanemi og hlaðvarpsstjórnandi Lof mér að tala. Hún hefur smakkað Gonster.
Þorleifur Örn villist þegar hann heimsækir ný leikhús. Það er vegna þess að þau eru hönnuð í kringum tóm. Þorleifur Örn Arnarsson er einn reynslumesti leikstjóri landsins. Hann hefur leikstýrt víða um Evrópu, aðallega Þýskalandi, verið yfirmaður leikhúsmála hjá Volksbühne í Berlín, og svo sett upp fjölda sýninga á Íslandi, Njálu, Íslandsklukkuna og Engla Alheimsins svo fátt eitt sé nefnt. Við ræðum við hann um leikhúsið og spyrjum í lokin, hvers vegna ætti ungt fólk að stefna á leikstjórn í dag? Súkkulaðistrákarnir í strákahljómsveitinni IceGuys hafa gert þrjár sjónvarpsþáttaseríur sem sýndar eru á Sjónvarpi Símans. Brynja Hjálmsdóttir, sjónvarpsgagnrýnandi, fellir dóm um þá þriðju og nýjustu.
Við kynnum okkur Skjöld Davíðs, nýjan ísraelskan áróðurs-tölvuleik sem gerist á Gaza, og rekjum furðulega langa sögu tölvuleikja sem hafa tekist á við átök Palestínu og Ísraels. Hálf-íslenska dragdrottningin Heklína fannst látin við ískyggilegar aðstæður fyrir rúmum tveimur árum. Þóra Tómasdóttir í fréttaskýringaþættinum Þetta helst segir frá. Við heyrum svo í fönk-pönksveitinni BKPM sem gaf nýlega út sína fyrstu plötu, Bíddu ha? Una Schram ræddi við sveitina í sumar.
Lestin heldur áfram að taka stöðuna á menningarástandinu í dag og beinum sjónum okkur að gagnrýni. Listgagnrýni hefur verið mikilvægur þáttur í menningarumræðunni svo öldum skiptir. En fjölmiðlalandslagið, umræðuvettvangurinn og menningin öll hefur breyst mikið á 21. öldinni. Internetið og samfélagsmiðlar áttu að lýðræðisvæða menningarumræðuna, en eru kannski að ganga að henni dauðri. Við fáum til okkar þrjá gesti sem hafa allir setið beggja vegna borðsins, verið gagnrýndir og starfað sem gagnrýnendur: Atli Bollason, Auður Jónsdóttir og Magnús Jochum Pálsson.
Við kryfjum lagið Tears með Sabrinu Carpenter til mergjar með poppsérfræðingi Lestarinnar Friðriki Margrétar Guðmundssyni. Textinn er klúr og kaldhæðnisslegur og tónlistin er diskó-leg. En Carpenter öðlaðist sennilega heimsfrægð með laginu Espresso, sem var eitt vinsælasta lag ársins í fyrra. Í dag er það Manchild sem er spilað mikið í útvarpinu, en það er fyrsti singúllinn á glænýrri plötu hennar, Man's Best Friend. Þóranna Björnsdóttir er ein þeirra listamanna sem koma fram á Extreme Chill, sem fer fram í 16. sinn núna um helgina. Við ræðum við hana í lok þáttar.
King and conquerer nefnast nýir sögulegir drama og spennuþættir frá BBC. Þeir fjalla um valdabaráttu í Bretlandi á 11.öld - átök sem enduðu með orrustinni við Hastings árið 1066. James Norton og Nikolaj Coster-Waldau leika þá Harald Guðnason og Vilhjálm sigursæla, en mikill fjöldi Íslendinga kemur að þáttunum, bæði sem leikarar og fólk í ýmsum stórum hlutverkum bakvið tjöldin. Þættirnir hafa fengið misjafnar viðtökur og meðal annars hefur verið rifist um það hvernig fólk talaði árið 1066, hvernig hártískan var á sögutímanum og það hvort leikaravalið sé of fjölbreytt. Við spjöllum við Baltasar Kormák, listrænan stjórnanda þáttanna, um þessar spurningar og aðrar. Við fáum innslag af ysta jaðri tónlistarheimsins. Þórður Ingi Jónsson rekur harmsögu rapparans unga Lil EBG og læriföður hans Glock40spaz. Við kíkjum líka í Bíó Paradís og heyrum um íslensku hinsegin kvikmyndahátíðina sem hefst á morgun.
Sólveig Anna Jónsdóttir mætir í Lestina og spjallar um hugtakið woke, woke-fána og friðarsúluna svo eitthvað sé nefnt. Við kíkjum líka í Ásmundarsal og spjöllum við Sigurð Ámundason, myndlistarmann, um nýtt sviðslistaverk sem hann leikstýrir: Rómantísk gamanmynd. Verkið fjallar um eitraða ást og iðrun.
Kristján og Lóa taka stöðuna á menningunni í dag. Í þættinum er meðal annars popptónlistargagnrýni, pólitíska samtímalist, Florentinu Holzinger og Taylor Swift. Efni sem rætt er um í þættinum er meðal annars: - How music critcism lost it's edge eftir Kelefah Sanneh https://www.newyorker.com/magazine/2025/09/01/how-music-criticism-lost-its-edge - The painted protest eftir Dean Kissick https://harpers.org/archive/2024/12/the-painted-protest-dean-kissick-contemporary-art/ - What is Contemporary Art for Today? eftir ýmsa höfunda https://open.spotify.com/episode/2yne5b8syWSDJwLcwS44aj?si=cZ1aP3YhSWCr4fmh8WcWQQ
Stígagerðamenn á Hengilssvæðinu eru í hópi þeirra listamanna sem taka þátt á Hamraborgar festivalinu í ár. Við hittumst á túninu í Kópavogi þar sem gjörningurinn verður framkvæmdur á laugardaginn og pælum í stígagerð. Davíð Roach Gunnarsson fer yfir nokkra tónleika sumarsins og veltir fyrir sér laginu Home með Edward Sharpe and the Magnetic Zeros. Kristján Guðjónsson kynnir Þætti úr sögu nútímans, viðtöl við heimspekingin Jóhann Pál Árnason.
Nýjasta kvikmynd leikstjórans, Hlyns Pálmasonar, Ástin sem eftir er, verður framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna 2026. Kolbeinn Rastrick kvikmyndagagnrýnanadi, rýnir í myndina. Er hver sinnar gæfu smiður? Við ræðum sjálfsrækt á samfélagsmiðlum við Sigvalda Sigurðarson, sem skrifaði meistararitgerð sína í félagssálfræði um skilaboð um sjálfsrækt á samfélagsmiðlum.
Hvað er þetta Labubu sem allir eru að tala um? Krúttlegur bangsi eða fáránlegt tískufyrirbæri. Lóa ræðir Labubu og Lafufu við Sólrúnu Dögg Jósefsdóttur, blaðakonu á Vísi. X-kynslóðin mun troðfylla Laugardalshöll í kvöld þegar Smashing Pumpkins koma fram á risatónleikum. Róbert Jóhannsson, fréttamaður, er forfallinn aðdáandi hljómsveitarinnar. Hann segir frá sjarmanum við Billy Corgan og co. Hópur fólks er lokaður í kastala í skosku hálöndunum, en meðal þeirra eru morðingjar. Raunveruleikaþættirnir The Traitors eða svikararnir njóta nokkurra vinsælda um þessar mundir beggja vegna Atlantshafsins. Þeir byggja á klassískum félagsmiðstöðvaleikjum eins og Varúlfur. Brynja Hjálmsdóttir sjónvarpsgagnrýnandi segir frá.
Í Lestinni í dag ætlum við að velta fyrir okkur gervigreindarmyndböndum, hvaða áhrif hefur það á notendur samfélagsmiðla þegar það verður sífellt flóknara að greina hvað er sannleikur og hvað er uppspuni, Hvaða áhrif hefur það á kvikmyndalistina ef hver sem er getur búið til heila bíómynd með tæknibrellum sem jafnast á við Hollywood-ofurhetjumyndi? Gestir okkar í Lestinni í dag eru Hafsteinn Einarsson, lektor í tölvunarfræði við Háskóla Íslands og Margrét Hugrún Gústavsdóttir, mannfræðingur og blaðakona. Og síðar í þættinum heyrum við í Ásgrími Sverrissyni, kvikmyndagerðarmanni og ritstjóra kvikmyndavefritsins Klapptré.
Í byrjun sumars tilkynnti poppprinsinn og vandræðagemsinn Justin Bieber um útgáfu nýrrar plötu með instagram-mynd af auglýsingaskilti í Fellsmúla. Platan nefnist Swag og þykir marka kaflaskil á ferli Biebersins, en hún er tekin upp að hluta til í þykkri grasþoku í glæsivillunni Deplum í Skagafirði. Við kryfjum plötuna með Friðriki Margrétar- Guðmundssyni, tónskáldi og tónlistarmanni, og ræðum við heitan Bieber aðdáanda á eftirlaunum, Birnu Rún Kolbeinsdóttur, um feril þessarar kanadísku poppstjörnu.
Hvers vegna er Spotify enn á ný til umræðu? Hvað gerði þessi streymisrisi af sér að þessu sinni? Nýverið voru sagðar fréttir af því að tónlistarfólk hygðist fjarlægja efni sitt af Spotify í mótmælaskyni við fjárfestingar stofnandans Daniel Ek. Við veltum fyrir okkur kostunum og göllum Spotify í samtali við tónlistarfólk, útvarpsfólk og framkvæmdastjóra STEF. Rætt er við Sigurlaugu Thorarensen í BSÍ, Árna Húma Aðalsteinsson tónskáld, Þorstein Hreggviðsson útvarpsmann á Rás 2 og Guðrúnu Björk Bjarnadóttur, framkvæmdastjóra STEF.
Eftir að Spaugstofan hvarf af skjánum hefur Íslendinga skort vettvang til að gera grín að málefnum líðandi stundar. Áramótaskaupið mætti vera mun oftar, kannski einu sinni í mánuði. Nú hafa nokkrir spunaleikarar tekið sig saman til að reyna að framkvæma þetta. Gúrkutíð er mánaðarleg spuna- og grínsýning innblásin af öllum helstu málefnum líðandi stundar í íslensku samfélagi. Sindri Kamban og Stefán Gunnlaugur, spunaleikarar, segja frá. Við fjöllum um bandaríska tónlistarmanninn John Maus sem kemur fram í fyrsta skipti á Íslandi á Extreme Chill tónlistarhátíðinni í september - þegar hann spilar á Húrra. Við rifjum upp plötuna Screen Memories sem kom út árið 2017 og afdrifaríkt atvik þegar hann og kollegi hans, Ariel Pink, voru vitlausir menn á vitlausum stað, meðal stuðningsmanna Donalds Trump þann 6. janúar 2021. Þeir voru mikið gagnrýndir fyrir þátttöku sína í mótmælunum, en hafa brugðist á ólíkan hátt við mótlætinu.
Við förum yfir það sem stóð upp úr í menningarneyslu okkar í sumarfríinu. Hjá Lóu voru það Netflix-þættirnir Too Much og hjá Kristjáni voru það tvær bækur þar sem New York er sögusviðið. Just Kids eftir Patti Smith og New York! New York! Ameríkuannálar Kristins Jóns Guðmundssonar. Brynja Hjálmsdóttir segir frá þáttunum Pokerface, nýju uppáhaldsþáttunum sínum.
Við heimsækjum Unu Þorleifsdóttur og Ebbu Katrínu Finnsdóttur í Gryfjuna í Ásmundarsal þar sem þær hafa verið að rannsaka með aðferðum sviðslistinna bókina Konur sem kjósa - aldarsaga. Kolbeinn Rastrick rýnir í nýjustu mynd Wes Anderson, Pheonician Scheme. Snorri Páll Jónsson flytur pistil um ógnina í einsleikahugmyndinni.
Einar Hugi Böðvarsson ræðir við Hjalta Nordal, tónskáld, um tónsmíðar á tímum gervigreindar. Salvör Gullbrá Þórarinsdóttir veltir því fyrir sér hvort það sé í sjálfu sér gott að vera uppi, og Lóa Björk ræðir við tvo meðlimi hljómsveitarinnar Mukka.
Helga Dögg Ólafsdóttir og Salka Snæbrá Hrannarsdóttir binda endi á vikuleg bréfaskrif sín í Lestinni, enda er að koma sumar og komið að kveðjustund. Snæbjörn Brynjarsson, leikhússtjóri Tjarnarbíós, veltir fyrir sér framtíð sviðslista, styrkleika senunnar hér og hlutverk leikhússins.
Kattholt er fullt og á föstudaginn birtu þau færslu á Facebook og óskuðu eftir kattamat. Viðbrögðin leyndu sér ekki, enda elska margir ketti. Við heimsækjum Kattholt og fáum leiðsögn um húsið, sem hefur verið í starfseminni síðan 1991. Svo hlustum við á tónlist sem samin er fyrir kisur og förum á vorsýningu Kynjakatta í Officeraklúbbnum í Reykjanesbæ.
Rapparinn Birnir ræðir Dyrnar, nýja plötu sem kom út í lok maí. Plötuna vinnur hann með pródúsentinum Marteini Hjartarsyni, Bngerboy. Anna Marsibil Clausen segir frá Blæju og Snorri Páll Jónsson fjallar um tengsl valds og tungumáls.
Það hefur ótalmargt gerst frá stofnun hljómsveitarinnar Gróu, sem steig á svið í Músíktilraunum árið 2017. Fjórar plötur hafa komið út, smáskrífur, tónlistarmyndbönd, gigg spiluð innan landsteina og utan, skólastig kláruð og nýr meðlimur bæst við. Nýjasta platan Drop P, kom út 6. júní síðastliðin. Einar Hugi Böðvarsson talar um bókina og bíómyndina Saló, 120 dagar í Sódómu.
Í ræðu til útskriftarnema í tíunda bekki taldi skólastjóri í Grunnskóla Reyðafjarðar sig vera að vísa í ljóð eftir skáldið Jón Örn Loðmfjörð, eða Lomma eins og hann er kallaður og sagði: “Það sem við gerum í dag, byggir heiminn á morgun. Látum því góðmennsku og kraft vera okkar leiðarljós.” Tilvitnunin reyndist vera skáldskapur gervigreindarinnar og raunar mjög ólíkur því sem Lommi er þekktur fyrir að skrifa. Þetta er þó viðeigandi á einhvern öfugsnúinn hátt því Lommi er frumkvöðull í að nota forritun og ljóðavélar á skapandi hátt í framúrstefnuljóðlist. Við ræðum við Jón Örn Loðmfjörð um ljóð og vélar. Alessandra Celesi var heiðursgestur á Skjaldborgarhátíðinni á Patreksfirði. Eftir hana voru sýndar tvær heimildarmyndir sem gerast með nokkura ára millibili í hverfinu New Lodge í Belfast. Þar er margt sem minnir á fortíðina, The Troubles. Áföllin sitja enn í mörgum íbúanna, þó margt hafi gleymst og borgin hafi breyst. En hvers vegna gerir ítölsk sviðslistakona heimildarmyndir á Norður-Írlandi? Frænkurnar Helga Dögg Ólafsdóttir og Salka Snæbrá Hrannarsdóttir halda áfram að skrifast á í Lestinni.
Snorri Páll Jónsson flytur pistil um spilakassarekstur Háskóla Íslands. Davíð Roach rýnir í nýja plötu rapparans Birnis og André 3000. Við pælum í nýju verki úr smiðju Succession-höfundarins, Jesse Armstrong. Kvikmyndin Mountainhead kom út á dögunum og hefur fengið allskonar viðbrögð. Svo rifjum við upp samtal Gunnars Þórðarsonar og Eiríks Guðmundssonar frá árinu 2016 þegar Brian Wilson, heitinn, kom til landsins.
Háhyrningur strandaði við Grafarvog í gærkvöldi og viðbragðsaðilar voru fljótlega komnir á staðinn. Þangað mætti líka Lóa Björk og fylgdist með björgunaraðgerðunum. Hún segir frá í Lest dagsins. Við veltum því líka fyrir okkur hvernig fólk uppgötvar nýja og ferska tónlist í dag, hvort að spilunarlistar á tónlistarveitum - bæði opinberir og heimagerðir - séu orðnir að helsta vettvangi uppgötvunar. Við ræðum við nokkra eldheita tónlistarunnendur um playlista. Af hverju var gert grín að listaverkasmekk forseta Íslands í Áramótaskaupinu? Einar Hugi Böðvarsson veltir fyrir sér umræðum um Höllu Tómasdóttur út frá kenningum félagsfræðingsins Pierre Bourdieu.
Jóna Gréta Hilmarsdóttir ákvað að gera heimildarmynd um pabba sinn, en það reyndist vera flókið. Við spjöllum við Jónu um flókið feðginasamband og þráhyggjuna sem eru stef í myndinni Ósigraður sem var sýnd á Skjaldborg um helgina og hlaut dómnefndarverðlaun í flokki stuttmynda. Fönkfrumkvöðullinn og hipparokkstjarnarn Sly Stone er látinn 82 ára að aldri. Við ræðum við Samúel Jón Samúelsson, Samma, um kappann. Og við förum á tónleikaferð til Berlínar með tveimur íslenskum rokksveitum, Supersport og Space Station. Katrín Helga Ólafsdóttir segir frá.
Elon Musk hefur lýst yfir mikilli vanþóknun á nýju frumvarpi Bandaríkjaforseta, Big, Beautiful Bill, því það mun auka ríkisútgjöld og vinna gegn þeirri miklu niðurskurðarvinnu sem Musk og liðsmenn hans í DOGE, hagræðingahópnum, hafa staðið í síðastliðna 130 daga. Hvort þetta þýði að áhrif Musks fari minnkanndi í Hvíta Húsinu á eftir að koma í ljós. En fyrir hvað stendur hann, fyrir hverju berst hann og á hvað trúir hann? Hvernig tengist nýlenda á Mars börnunum 14? Efni sem var notað við gerð þáttarins: Ævisagan Elon Musk eftir Walter Isaacson (2023) Viðtöl við Elon Musk og fleira: Elon Musk: War, AI, Aliens, Politics, Physics, Video Games, and Humanity | Lex Fridman Podcast #400 https://www.youtube.com/watch?v=JN3KPFbWCy8 Elon Musk at Qatar Economic Forum https://www.youtube.com/watch?v=76nZJbiSTqQ Joe Rogan Experience #2281 - Elon Musk https://www.youtube.com/watch?v=sSOxPJD-VNo Elon Musk delivers SpaceX update on Starship, Mars goals and more at Starbase https://www.youtube.com/watch?v=0nMfW7T3rx4 Í ljósi sögunnar: Ættir og ævi Elon Musk https://www.ruv.is/utvarp/spila/i-ljosi-sogunnar/23795/b78sch Elon Musk í Norður-Ameríku https://www.ruv.is/utvarp/spila/i-ljosi-sogunnar/23795/b78sci Annað efni: We Went To The Town Elon Musk Took Hostage https://www.youtube.com/watch?v=5cZEZoa8rW0 The Tactics Elon Musk Uses to Manage His ‘Legion' of Babies—and Their Mothers https://www.wsj.com/politics/elon-musk-children-mothers-ashley-st-clair-grimes-dc7ba05c On the Campaign Trail, Elon Musk Juggled Drugs and Family Drama https://www.nytimes.com/2025/05/30/us/elon-musk-drugs-children-trump.html Longtermism: https://www.williammacaskill.com/longtermism Áhrifarík umhyggja - umfjöllun í Lestinni https://www.ruv.is/utvarp/spila/lestin/23619/b72p37/georg-ludviksson-um-effective-altruism
Útlendingar halda oft að þungarokkshátíðin Sátan í Stykkishólmi heiti eftir myrkrahöfðingjanum sjálfur. En Sátan er líka fjall í nágrenni bæjarins. Degi áður en hátíðin hefst í annað sinn hringjm við vestur og ræðum við Gísla Sigmundsson sem skipuleggur hátíðina ásamt konu sinni og dóttur og góðum vinahópi. Hann spilar á hátíðinni ásamt hljómsveit sinni Sororicide, en þetta eru allra síðustu tónleikar þeirrar goðsagnakenndu dauðarokksveitar. Við höldum áfram að fylgjast með bréfaskriftum frænkanna Helgu Daggar Ólafsdóttur og Sölku Snæbrár Hrannarsdóttur. Í öðru bréfinu ræða þær meðal annars covid-tímann, mennskuna og nostalgíu. Kvikmyndagagnrýnandi Lestarinnar, Kolbeinn Rastrick, segir frá bestu mynd sem hann hefur séð á árinu. Og Kristján vill segja upp áskriftinni sinni að hljóðbókaveitunni Audible, en getur það ekki, sama hvað hann reynir.
Við heimsækjum plötubúðin, fatabúðina og tónleikarýmið Space Odyssey í Bergstaðastræti. Þar hittum við Pan Thorarensen sem situr bakvið búðarborðið og ráðleggur fólki hvaða sveimtónlist það á að hlusta á hverju sinni. Hann er líka að skipuleggja fjórfalda útgáfutónleika sem fara fram í Iðnó á fimmtudag. Snorri Páll Jónsson flytur pistil um orðin sem eru notuð til að lýsa hinu ólýsanlega: stríð, mannúðarkrísa, þjóðarmorð eða helför. Dularfullt hvarf Au Pair-barnfóstru hjá ríkri fjölskyldu í Danmörku kemur af stað spennandi atburðarás í Netflix-þáttunum Reservatet - sem nefnist Secrets We Keep á ensku. Brynja Hjálmsdóttir rýnir í þættina. Svo heyrum við brot úr gömlu viðtali við Pál Skúlason heimspeking.
Við hittum tónlistarkonuna Fríd, sem er listamannsnafn Sigfríðar Rutar Gyrðisdóttur. Hún hefur alltaf sungið en í Lýðháskóla í Danmörku komst hún að því að hún elskaði líka að semja tónlist. Í maí gaf hún út stuttskífuna Hærra. Svo heyrum við viðtal frá því í desember, Sigurður Ægisson, sóknarprestur á Siglufirði, hefur í hálfa öld grafið upp ótal kenningar um uppruna þessa þekktasta orðatiltækis í heimi.
Undir lok síðasta árs kom út platan Monster Milk, sem er fyrsta breiðskífa tónlistarkonunnar Sigrúnar Jónsdóttur, sem á sviðinu kallar sig einfaldlega SiGRÚN. Sigrún er þó alls enginn nýliði heldur hefur gefið út fimm stuttskífur undir eigin nafni undanfarinn áratug, en hún hefur einnig unnið sem hljóðfæraleikari, söngvari og pródúser, og spilað undir með Sigur Rós, Björk og Florence and the machine svo einhverjir séu nefndir. Monster Milk fékk Grammy-verðlaun íslensku grasrótarinnar, Kraumsverðlaunin, og í kvöld fagnar Sigrún plötunni með útgáfutónleikum í Iðnó. Við ræðum við Sigrúnu í Lest dagsins. Einar Hugi Böðvarsson flytur okkur sinn fyrsta pistil í Lestinni. Meðal þess sem kemur við sögu er spjallmennið Grok sem vill aðeins tala um þjóðarmorð á hvítum í Suður Afríku, gervigreindarsmíðaðar bækur á Amazon og lítill vængbrotinn þrastarungi. Næstu vikur ætlum við að fylgjast með bréfaskriftum frænkanna Helgu Daggar Ólafsdóttur og Sölku Snæbrár Hrannarsdóttur. Í fyrsta bréfinu ræða þær meðal annars bréfaskriftir og valdaleysið sem þær upplifa varðandi hryllinginn á Gaza.
Það styttist í Skjaldborgarhátíðina sem er haldin ár hvert á Patreksfirði. Góðvinur hátíðarinnar og Lestarinnar, Ásgeir H. Ingólfsson, sem féll frá í janúar, verður heiðraður á hátíðinni. Heimildamyndin Menningarsmygl sem fjallar um Ásgeir verður líka sýnd, en hún er í vinnslu. Ragnar Ísleifur Bragason og Kristín Andrea Þórðardóttir hita upp fyrir Skjaldborg. Við rifjum upp Vematsu, mann sem býr í Japan en á þó nokkuð marga vini á Íslandi sem hann kynntist á Twitter fyrir að verða áratug síðan.
Varaforseti Bandaríkjanna er kaþólskari en Páfinn. Hann fann trúna fyrir örfáum árum, skírðist til kaþólskrar trúar og segir það móta mjög sýn sína á pólitík. Áður en J.D. Vance hélt inn á hið pólitíska svið var hann metsöluhöfundur. Árið 2016 gaf hann út Hillbilly Elegy, þar sem hann lýsir uppvexti sínum í Ohio og Kentucky, þar sem hann bjó við óöruggar heimilisaðstæður en með hjálp ömmu sinnar og afa rættist úr honum. Það rættist ansi vel úr honum, eftir fjögur ár í hernum og tvö í háskóla hlaut Vance inngöngu í laganám hins virta Yale-skóla. Þar kynntist hann örlagavaldi í sínu lífi, fjárfestinum Peter Thiel. Vance á marga vini í Kísildalnum og það mætti segja að hann tengi saman tæknigeirann og þjóðernispopúlistana sem fylkja sér á bak við Trump.
Árið 2005 kom út fyrsta platan með hljómsveit Benna Hemm Hemm, 12 laga plata samnefnd tónlistarmanninum. Síðan þá eru liðin 20 ár og Benni kennir nú tónlist í Hagaskóla, og Ingi Garðar Erlendsson, básúnuleikari í hljómsveitinni, stýrir þar skólahljómsveitinni, Skólahljómsveit Vesturbæjar og Miðbæjar, SVoM. Á laugardag ætla SVoM og benni að leiða saman hesta sína og leika plötuna í heild sinni á tónleikum í Háskólabíó. Mér lék forvitni á að vita hvernig indí-fólk krútttónlist fyrsta áratugarins færi ofan í unglinga dagsins í dag og kíkti niður í Hagaskóla. Alkibíades var einhver alræmdasti stjórnmálamaður Grikklands til forna, einstaklega fagur, hrífandi og vel að máli farinn. Hann leiddi Aþenu út í tilgangslaust stríð og endaði á því að gera út af við lýðræðið í borgríkinu. Fyrir jól kom út íslensk þýðing á samræðunni Alkibíades eftir Platón, en þar segir frá fundi heimspekingsins Sókratesar og stjórnmálamannsins unga. Við ræðum við Hjalta Snæ Ægisson, bókmenntafræðing, þýðanda og bókaútgefanda.
Við ræðum við listamanninn Odee Friðriksson, um námið í Bergen og Samherja-gjörninginn. Mál Samherja gegn listamanninnum hefur nú staðið yfir í um tvö ár. Ástæða málsóknarinnar er lokaverkefni Odee úr Listaháskóla Íslands, þar sem hann þóttist vera Samherji og baðst afsökunar. Við hlýðum svo á pistla, Kolbeinn Rastrick færir okkur kvikmyndagagnrýni um myndina A Different Man og Guðrún Úlfarsdóttir syrgir eldhúsið.
Fimm skandinavískir kvikmyndagerðarmenn kváðu sér hljóðs á kvikmyndahátíðinni í Cannes á dögunum og kynntu nýtt manifesto sitt, Dogma 25. Þetta er nákvæmlega þremur áratugum eftir að Lars Von Trier og Thomas Vinterberg hristu upp í kvikmyndaheiminum með Dogma 95 stefnuyfirlýsingunni. Dogma 25 er björgunleiðangur og menningarleg uppreisn segja þau og setja sér 10 skýrar reglur um hvernig bíó þau ætla að búa til - meðal annars ætla þau ekki að nota internetið og handskrifa handritin sín. Í mars kom út í íslenskri þýðingu fjórða skáldsaga Sally Rooney, Intermezzo eða Millileikur. Lóa fær til sín annan aðdáanda írska rithöfundarins, Ingunni Snædal, til að ræða þemun sem koma fyrir í bókinni: sorgina, trúnna, skákina og samböndin.
Gísli Freyr Valdórsson er stjórnandi hlaðvarpsins Þjóðmál. Þar fer fram hispurlaus umræða um stjórnmál, efnahagsmál og menningu. Þátturinn hóf göngu sína í mars 2021, eftir ár af Covid, en áður en Þjóðmál varð hlapvarpsþáttur þá var það tímarit. Hvers vegna að breyta tímariti í hlaðvarp? Og hvers vegna eru engir viðmælendur af vinstri vængnum?
Lestin lítur við á Borgarbókasafninu og hittir þar sýrlenska sýningarstjórann, listamanninn og aðgerðasinnan, Khaled Barakeh. Hann er að opna sýninguna Absenced þar sem hann sýnir verk eftir listafólk sem hefur verið þaggað niður í vegna stuðnings þess við Palestínu. Það eru komin 18 ár frá því að söngleikurinn Leg eftir Hugleik Dagsson var frumsýndur. Í næstu viku munu útskriftarnemar á leikarabraut sýna verkið. Við spjöllum við Hugleik um ádeilu og grín, hnakka og trefla.