Fjallað er fordómalaust um menningu samtímans í öllum sínum fjölbreytileika, samfélagsmiðla, dægurmenningu, allt sem mótar líf okkar hér og nú og speglar frá degi til dags alla virka daga kl. 17.03.

Raphael úr hljómsveitinni La Dimension mætir og segir okkur frá suðuramerískri cumbia-tónlist og hátíðarhöldum á degi hinna dauðu. Við hringjum á Akranes í útvarpsmanninn Óla Palla og heyrum um afmælisbarn mánaðarins, Rokkland, sem fagnar 30 árum. Davíð Roach Gunnarsson segir frá bjargvættum indírokksins, Geese, og nýjustu plötu þeirra Getting killed.

Það verður tónlistarfókus í Lestinni þennan miðvikudaginn. Orðið Myasnoi þýðir kjöt á rússnesku. Þegar Yulia var 14 ára ákvað hún að þetta væri fullkomið hljómsveitarnafn. Seinna flutti hún til Íslands og byrjaði að gera tónlist með reykvísku listafólki. Nú er MC Myasnoi ein virkasta og hættulegasta sveitin í grasrótarsenunni. Sex af sjö meðlimum sveitarinnar koma í kaotískt viðtal. Rakel Sigurðardóttir gaf nýlega út sína fyrstu plötu, A place to be - en staðurinn sem titillinn vísar í eru æskuslóðir hennar Stað í Hrútafirði. Lóa spjallar við tónlistarkonuna. Og svo flytur Atli Bollason okkur annað innslag í pistlaröðinni Ekki slá í gegn.

Gréta Kristín Ómarsdóttir, leikstjóri og dósent í Listaháskóla Íslands, ræðir sviðslistir, samsköpun, bakslagið og verkið Skammarþríhyrninginn sem nú er á fjölum Borgarleikhússins. Og hvernig 1 plús 1 verður 3. Við byrjum á sama stað og vanalega, hvaða sviðslistaverk hreyfði síðast við þér. Þórður Ingi Jónsson er með pistil í tilefni Hrekkjavökunnar, hann hefur verið að sökkva sér ofan söguna um dularfullt leynifélag, Bræðralag Satúrnusar, Fraternas Saturni, sem hafði nokkur áhrif í Þýskalandi á millistríðsárunum.

Við rifjum upp hluta þáttar sem við gerðum í október 2023 sem fjallaði um stöðuna á leigumarkaði. Hvers vegna er svona erfitt að óska eftir meðleigjanda? var sennilega rannsóknarspurningin. Hvers vegna er það talið betra að eiga en að leigja á Íslandi og af hverju er það þannig? Við berum saman stöðu íslendinga og aðfluttra á leigumarkaðnum og ræðum við sérfræðinga. Og svo förum við inn í nútímann, er þetta jafn slæm staða, betri eða verri en fyrir tveimur árum? Við ræðum við Jónas Atla Gunnarsson hagfræðing hjá HMS. Kolbeinn Rastrick hefur þó leika á rýni í nýjustu mynd norska leikstjórans Joachim Trier, Sentimental Value.

Á tveggja vikna fresti kryfjum við popplag með Friðriki Margrétar Guðmundssyni, tónskáldi og tónlistarmanni. Að þessu sinni er það hrekkjavökuslagarinn Dracula með áströlsku sýrupoppsveitinni Tame Impala. Á morgun fer fram kvennaverkfall. Nokkrar konur hafa stigið fram undanfarna daga og gagnrýnt framtakið. Við fáum nokkrar konur til að velta fyrir sér tilganginum með kvennaverkfalli árið 2025.

Á morgun opnar myndlistarsýningin Tveir heimar í Iðu Zimsen. Þar verða sýnd verk sem Mouhamed hefur unnið að undanfarin 5 ár. Hann kemur frá Mauritaníu og hefur búið á Íslandi síðan 2010/11. Við ræðum við Mouhamed Lo og Láru Jónu Þorsteinsdóttur. Brynja Hjálmsdóttir, sjónvarpsrýnir Lestarinnar, rýnir í nýja íslenska sjónvarpsþætti sem koma úr smiðju Birkis Blæs Ingólfssonar og Harðar Rúnarssonar. Að lokum fáum við pistil frá Atla Bollasyni sem er með hugann við ferðamannastaðinn Taormina á Sikiley.

Ragnar Bragason heimsækir Lestina og spjallar um sjónvarpsþættina Felix og Klara sem eru sýndir á RÚV um þessar mundir. Jón Gnarr og Edda Björgvinsdóttir leika eldri hjón sem flytja í þjónustuíbúð fyrir aldraða. Við ræðum um óþolandi aðalpersónur, transendentalíska kvikmyndagerð og besta öldrunargervi í sjónvarpssögunni. Svo heyrum við um gjörninginn Viltu kvittun? þar sem skáldin Elín Edda og Guðrún Brjánsdóttir prenta ljóðabækur sínar, Gakk og Tími til neins, á pappírsrúllur sem eru yfirleitt notaðar fyrir kvittanir.

Lækkandi fæðingartíðni er reglulega í umræðunni þessa dagana, bæði hér á Íslandi og reyndar víða erlendis, og er að verða eitt af stóru menningarpólitísku deilumálunum í samtímanum. Prónatalismi, eða fólksfjölgunarhyggja, er orðin að stjórnmálalegu afli í Bandaríkjunum með Elon Musk, JD Vance og fleiri sem leggja áherslu á að bandarikjamenn eignist fleiri börn. Stjórnvöld í Ungverjalandi hafa orðið að leiðarljósi fólksfjölgunarsinna víðar með stefnum sem hampa barnmörgum hefðbundnum fjölskyldum. Í síðustu viku hér í Lestinni talaði varaformaður Miðflokksins um vonleysi og deyfð sem einkenndi Íslendinga í dag og hefði þau áhrif að þeir fjölguðu sér ekki. Við ræðum þessi mál við Sunnu Kristínu Símonardóttur, lektor í Háskólanum á Akureyri sem hefur rannsakað lækkandi fæðingartíðni og ástæður hennar. Katrín Helga Ólafsdóttir fór fyrir hönd Lestarinnar á listahátíðina State of the Art. Við fáum umfjöllun frá henni um hátíðina.

Steingrímur Teague er í hópi aðdáenda sem nú syrgja merkan listamann. D'Angelo féll frá í vikunni eftir baráttu við krabbamein aðeins 51 árs að aldri, en áhrif hans eru ómæld. Við ræðum við tónlistarmanninn Elvar sem átt eitt laga sumarsins, Miklu betri einn. Hann er í listakollektívunni flysouth og vinnur nú að sinni annari plötu í samstarfi við Loga Pedro. Kolbeinn Rastrick rýnir í taílensku kvikmyndina A Useful Ghost eða Ryksugudraugurinn sem nú er í sýningu í Bíó Paradís.

Í Lestinni undanfarna mánuði höfum verið að reyna að átta okkur á pólitískum breytingum á hægri væng stjórnmálanna bæði í Bandaríkjunum og hér á Íslandi. Nýja hægrinu svokallaða - sem leggur minni áherslu á frjálsan markað og meiri áherslu á íhaldssöm gildi. Hér á landi er mest áberandi andlit þessa nýja hægris líklega Snorri Másson, fyrrum blaðamaður, hlaðvarpari, og nýkjörinn varaformaður Miðflokksins. Við spjöllum við Snorra um þessa meintu íhaldsbylgju Z-kynslóðarinnar og hvernig hægristjórnmál líta út árið 2025. Leikhúsið og tvívera þess eftir Antonin Artaud kemur út á morgun í íslenskri þýðingu Trausta Ólafssonar. Við spjöllum við Trausta um leikhús grimmdarinnar - leikhús sem hefur þó ekkert með ofbeldi að gera.

Á næsta ári fagna Bandaríkjamenn því að 250 ár eru frá því að lýðveldi þeirra var stofnað. Margir sérfræðingar segja þó að staða réttarríkisins og lýðræðisins í þessu valdamesta lýðræðisríkis sögunnar hafi sjaldan ef aldrei verið í jafn mikilli hættu. Í þáttaröðinni okkar Konungssinnar í Kísildal kom Sveinn Máni Jóhannesson sagnfræðingur og talaði um stofnun Bandaríkjanna, en okkur langaði að fá hann til okkar aftur og nú til að greina stöðuna í dag, hvort amerískt lýðræði sé raunverulega í hættu. Við fjöllum svo um heimildarmyndina Paradís amatörsins sem var frumsýnd á Skjaldborgarhátíðinni í vor. Myndin notast meðal annars við mikið magn heimamyndbanda sem fjórir ólíkir menn birtu af hversdagslífi sínu á Youtube. Atli Bollason heldur svo áfram að velta fyrir sér frama og fegurð í pistlaröðinni Ekki slá í gegn! Nú finnur hann hetju í kvikmyndapersónunni Dude úr The Big Lebowski.

Það er tímabært að sækja til hægri sagði nýkjörinn formaður Sambands ungra Sjálfstæðismanna. En hvað þýðir það? Hvernig lítur það hægri út? Júlíus Viggó var á dögunum kjörinn formaður SUS og við ræddum hægrið, þjóðleg gildi, frjálslyndi og íhald. Og hvort það sé hægri sveifla hjá ungu fólki. Una Ragnarsdóttir er tiltölulega nýbúin að vera í menntaskóla hvar hún var látin lesa Laxness. Í kjölfar frétta um að bækur hans væru svo að segja að hverfa af námskrá framhaldsskóla hafði hún áhuga á því að ræða við nemendur skóla sem lesa og lesa ekki Halldór Laxness. Hvers vegna ættum við að lesa Sjálfstætt fólk? Vilja unglingar lesa Sjálfstætt fólk?

Lóa Björk og Hanna Sigþrúður Birgisdóttir kryfja internetfyrirbærið performative male, sem er allt í senn brandari, steríótýpa og fatastíll. Við rýnum í heimildarmyndina Jörðin undir fótum okkar eftir Yrsu Roca Fannberg þar sem fylgst er með lífi og dauða á hjúkrunarheimilinu Grund. Kolbeinn Rastrick segir frá myndinni. Og við ræðum af hverju læknanemar ættu að lesa skáldsögur og ljóðlist til að verða betri í starfi sínu. Guðrún Steinþórsdóttir bókmenntafræðingur kemur og ræðir læknahugvísindi.

Við kryfjum myndina One Battle After Another með Birni Þór VIlhjálmssyni. Myndin er í leikstjórn Paul Thomas Anderson og er byggð á skáldsögu Thomas Pynchon, Vineland. Leonardo DiCaprio fer með aðalhlutverkið í myndinni, leikur jónureykjandi pabba í náttslopp, sem er örvæntingafullur að leita að dóttur sinni, Willu. Brynja Hjálmsdóttir horfði á And Just Like That... sjálfstætt framhald af Sex And The City, en hve mikið tekst þessum nýju þáttum að halda í kjarna upprunalegu þáttanna, sem mótuðu nánast heila kynslóð kvenna.

Kristín Eysteinsdóttir er rektor Listaháskóla Íslands, leikstjóri og fyrrverandi Borgarleikhússtjóri. Lóa Björk fær Kristínu í samtal um framtíð sviðslista. Við hringjum á Ísafjörð og forvitnumst um kvikmyndahátíðina PIFF sem fer fram í fimmta sinn í dag. Atli Bollason heldur áfram að setja purningamerki við þrá nútímamannsins eftir viðurkenningu og ríkidæmi, í pistlaröð sinni Ekki slá í gegn.

Í síðustu viku kom út nýjasta plata Taylor Swift, Life of a Showgirl. Að venju var mikil eftirvænting eftir nýrri tónlist frá þessari skærustu poppstjörnu samtímans. Viðbrögðin hafa hins vegar ekki verið á einn veg, dómar frekar neikvæðir og sumir Swifties - sem eru þekktir fyrir að standa við bakið á sinni konu í blíðu og stríðu - hafa orðið fyrir vonbrigðum. Nína Hjálmarsdóttir, Swiftie og sviðslistakona, er ein þeirra sem er svekkt með sýningarstúlkuna. Við ræðum við Nínu. Rapparinn M Can hefur verið hálfgerður huldumaður í íslenskri rappsenu undanfarin fimm ár, en hann hefur gert tónlist með Birgi Hákoni og Yung Nigo Drippin svo einhverjir séu nefndir. Hann hefur tengingu við Tyrkland, Bretland og Ísland og rappar á ensku. Þórður Ingi Jónsson hitti á M Can og forvitnaðist um ferilinn og fyrstu plötuna hans, Paint a Picture.

Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík, RIFF, lýkur um helgina. Gunnar Theodór Eggertsson rýnir í þrjár myndir: Sorry Baby, White Snail og All That's Left Of You. Stundum heyrist að #MeToo-hreyfingin heyri sögunni til, sé orðin úrelt og eigi ekki erindi við nútímann. Er þetta rétt? Á þriðjudag standa þátttakendur í rannsóknarverkefninu Flæðandi siðfræði: Femínísk siðfræði og #MeToo fyrir umræðufundi þar sem þessi mál verða rædd. Við forvitnuðumst um málið. Við höldum áfram umræðum sem hófust í síðasta þætti um lagið Elli Egils með Herra Hnetusmjör. Við förum yfir nokkur góð rapplög sem eru nefnd eftir raunverulegum lifandi Íslendingum. Og við frumflytjum nýtt lag sem er nefnt eftir tónskáldinu og poppkrufningarmanni Lestarinnar, Friðriki Margrétar Guðmundssyni. Það er Drengurinn Fengurinn sem samdi lagið og sendi okkur eftir þátt gærdagsins.

Bankareikingur með tuttugu og sjö og ég er bara tuttugu og sjö syngur Herra Hnetusmjör. Friðrik Margrétar Guðmundsson, poppsérfræðingur og tónskáld, kryfur lagið Elli Egils til mergjar. Brynja Hjálmsdóttir sjónvarpsgagnrýnandi rýnir í nýja þætti sem eru nú í sýningu á streymisveitu Sýnar, þættirnir Brjánn í leikstjórn Sigurjóns Kjartanssonar.

Hvers vegna er það strax orðið umdeilt val að Bad Bunny skuli hafi verið bókaður til að spila í hálfleiknum á Superbowl? Við kynnum okkur þennan Puerto Ríkanska tónlistarmann sem sló fyrst í gegn árið 2016 og hefur síðan orðið einn sá frægasti í heimi, þó hann sé ekki endilega öllum íslendingum kunnugur, en hann rappar einvörðungu á spænsku. Magnús Jóhann og Sverrir Páll segja frá State of the Art hátíðinni sem hefst eftir viku. Þar eru ólíkum tónlistarstefnum og tónlistarfólki stefnt saman og list sýnd í óhefðbundnum rýmum. Útkoman er eitthvað alveg nýtt og spennandi. Atli Bollason flytur pistil undir yfirskriftinni 'Ekki slá í gegn'.

Við rýnum í Alþjóðlega kvikmyndahátíð í Reykjavík sem hófst á fimmtudag. Gunnar Theodór Eggertsson, RIFF-rýnir, segir frá þremur myndum sem hann sá um helgina: Mömmusóló, Þríleikur um skipbrot, og Kim Novak's vertigo. Texas Jesús er snúin aftur. Þessi keflvíska sveit starfaði frá 1993 til 1996 og hljómar ekki eins og nein önnur hljómsveit: þetta er teiknimyndatónlist úr helvíti, krúttlegur mikki refur á sveppum. Við fáum til okkar tvo meðlimi þessarar költsveitar. Og við fylgjumst með gervigreindarbólunni springa smám saman. Lóa segir frá fúski fyrirtækisins Friend.com sem framleiðir óþolandi gervigreindarvin.

Við flettum í Riff-bæklingnum og förum yfir þær myndir sem við erum spennt að sjá. Kristján heimsækir Morgunblaðið í Hádeigismóum og skoðar nýjasta menningarvef landsins. Þau koma svo þrjú til okkar, Harpa Hjartardóttir, Brynjar Leó Hreiðarsson og Bergur Árnason, kvikmyndagerðarfólk ungt og upprennandi sem eru öll að sýna stuttmynd á Riff í ár.

Jón Atli Jónasson er höfundur fjölda leiksýninga en fæst nú aðallega við bóka- og sjónvarpsþáttaskrif. En hvers vegna gerir hann ekki leikrit lengur? Brynja Hjálmsdóttir spjallar við okkur um nýja sjónvarpsþætti sem eru með íslandstengingu. Ugla Hauksdóttir leikstýrir nokkrum þáttum af Alien: Earth.

Alþjóðlega söngvakeppnin Intervision fór fram um helgina og bar framlag Víetnama sigur úr bítum. Keppnin er andsvar Rússlands við Eurovision, keppni sem á að vera ópólitísk og hampa hefðbundnum fjölskyldugildum. Við kynnum okkur keppnina. Við spjöllum um stórtónleika Birnis í Laugardalshöllinni þar sem hljóð, mynd og ljós fóru fullkomlega saman í mögnuðu sjónarspil. Í dag hefst ný pistlaröð sem nefnist „Ekki slá í gegn.“ Atli Bollason setur spurningamerki við þrá nútímamannsins eftir viðurkenningu og ríkidæmi, hann veltir því fyrir sér hvernig áhersla á frama hefur áhrif á líðan okkar og sjálfsvirðingu, hann pælir í tilgangi sköpunarinnar, tilburðum markaðarins til að fletja allt út, og hvers vegna vinsældir og gæði fari svo sjaldan saman.

Undanfarið hefur mikið verið rætt um þöggun og skort á samræðu milli fólks með ólíkar skoðanir. Lestin ætlar að bregaðst við ákallinu um aukið samtal. Internetið og samfélagsmiðlar eru slæmur vettvangur fyrir pólitískt samtal, en í þætti dagsins mætast augliti til auglitis tvær manneskjur sem hafa gert sig gildandi í umræðum á samfélagsmiðlinum X - og hafa mjög ólíkar pólitískar skoðanir. Fríða Þorkelsdóttir, sem segist vera sósíalisti, og Sverrir Helgason, sem kallar sjálfan sig hægri-öfgamann, setjast saman inn í hljóðver og ræða saman um skoðanir sínar.

Gísli Marteinn Baldursson ræðir brotthvarf Jimmy Kimmel í kjölfar ummæla hans um morðið á Charlie Kirk. Valur Gunnarsson segir frá Leonard Cohen, en á sunnudag stendur hann fyrir tónleika og sagnakvöldi í Tjarnarbíó sem fjallar um Cohen. Friðrik Margrétar Guðmundsson tónlistarspekúlant þáttarins kryfur lagið Lover Girl, af nýútkominni plötu Laufeyjar, A Matter of Time.

Við rýnum í grínþættina The Studio eftir Seth Rogen sem rökuðu til sín verðlaunum á Emmy-sjónvarpsverðlaunahátíðinni í byrjun vikunnar. Brynja Hjálmsdóttir, sjónvarpsgagnrýnandi, tekur sér far með Lestinni. Lóa fær svo til sín Rúnar Guðbrandsson, sem hefur áratugum saman verið einn afkastamesti leikstjórinn í grasrót íslenskra sviðslista. Þau ræða framtíð leikhússins, jaðarsenuna og hvort það hafi einhvern tímann verið hægt að lifa vel af leiklist.

Erum við orðin ófær um að eiga í samtali við fólk sem við erum ósammála? Morðið á Charlie Kirk og umtalað Kastljósviðtal í byrjun mánaðarins hafa orðið kveikjan að umræðu um þöggun, rökræður og samfélagslegt samtal. Við ætlum að halda áfram að ræða um samtalið eða skortinn á því. Við spjöllum við Vilhjálm Árnason, prófessor emiritus í heimspeki, sem hefur í gegnum árin velt fyrir sér samtalinu, lýðræðinu og samræðusiðferði. Kolbeinn Rastrick flytur rýni um Eldana, nýja íslenska bíómynd í leikstjórn Uglu Hauksdóttur. Einar Hugi Böðvarsson ræðir gervigreind og agentíska-gervigreind við okkur.

Í Lestinni í dag veltum við fyrir okkur hvað launmorðið á bandaríska áhrifavaldinum Charlie Kirk í síðustu viku og viðbrögðin við því segja okkur um stjórnmálaumræðuna og pólitísk átök á tímum samfélagsmiðla. Við kynnum okkur líka nýja íslenska grínþætti um Brján sem er frábær í Football Manager en fær óvænt starf aðallþjálfara Þróttara í meistaraflokki karla. Sigurjón Kjartansson, Sólmundur Hólm, Karen Björg og Halldór Gylfason koma öll að þáttunum. En hugmyndin kviknaði hjá knattspyrnumanninum Erlingi Jack Guðmundssyni fyrir meira en 15 árum síðan.

Charlie Kirk var íhaldsmaður og aktivisti, stonfandi samtakanna Turning Point sem voru stofnuð í þeim tilgangi að breiða út íhaldsöm gildi í Bandarískum háskólum. Hann var myrtur í háskóla í Utah í Bandaríkjunum í gær og er morðingja hans enn leitað. Kirk var afar vinsæll og náinn bandamaður Trump bandaríkjaforseta. Hermann Nökkvi Gunnarsson, blaðamaður á Morgunblaði, hefur fylgst með Kirk undanfarin ár. Síðastliðinn föstudag kom út platan Blokkarbarn sem tónlistarkonunni Ástu. Platan er búin að bíða tilbúin í meira en tvö ár, en óttinn við berskjöldun varð til þess að hún beið tilbúin ofan í skúffu í allan þennan tíma. Hvað er heilafúi? Hvað er Gonster? Og er Gonster heilafúi? Hanna Sigþrúður Birgisdóttir er háskólanemi og hlaðvarpsstjórnandi Lof mér að tala. Hún hefur smakkað Gonster.

Þorleifur Örn villist þegar hann heimsækir ný leikhús. Það er vegna þess að þau eru hönnuð í kringum tóm. Þorleifur Örn Arnarsson er einn reynslumesti leikstjóri landsins. Hann hefur leikstýrt víða um Evrópu, aðallega Þýskalandi, verið yfirmaður leikhúsmála hjá Volksbühne í Berlín, og svo sett upp fjölda sýninga á Íslandi, Njálu, Íslandsklukkuna og Engla Alheimsins svo fátt eitt sé nefnt. Við ræðum við hann um leikhúsið og spyrjum í lokin, hvers vegna ætti ungt fólk að stefna á leikstjórn í dag? Súkkulaðistrákarnir í strákahljómsveitinni IceGuys hafa gert þrjár sjónvarpsþáttaseríur sem sýndar eru á Sjónvarpi Símans. Brynja Hjálmsdóttir, sjónvarpsgagnrýnandi, fellir dóm um þá þriðju og nýjustu.

Við kynnum okkur Skjöld Davíðs, nýjan ísraelskan áróðurs-tölvuleik sem gerist á Gaza, og rekjum furðulega langa sögu tölvuleikja sem hafa tekist á við átök Palestínu og Ísraels. Hálf-íslenska dragdrottningin Heklína fannst látin við ískyggilegar aðstæður fyrir rúmum tveimur árum. Þóra Tómasdóttir í fréttaskýringaþættinum Þetta helst segir frá. Við heyrum svo í fönk-pönksveitinni BKPM sem gaf nýlega út sína fyrstu plötu, Bíddu ha? Una Schram ræddi við sveitina í sumar.

Lestin heldur áfram að taka stöðuna á menningarástandinu í dag og beinum sjónum okkur að gagnrýni. Listgagnrýni hefur verið mikilvægur þáttur í menningarumræðunni svo öldum skiptir. En fjölmiðlalandslagið, umræðuvettvangurinn og menningin öll hefur breyst mikið á 21. öldinni. Internetið og samfélagsmiðlar áttu að lýðræðisvæða menningarumræðuna, en eru kannski að ganga að henni dauðri. Við fáum til okkar þrjá gesti sem hafa allir setið beggja vegna borðsins, verið gagnrýndir og starfað sem gagnrýnendur: Atli Bollason, Auður Jónsdóttir og Magnús Jochum Pálsson.

Við kryfjum lagið Tears með Sabrinu Carpenter til mergjar með poppsérfræðingi Lestarinnar Friðriki Margrétar Guðmundssyni. Textinn er klúr og kaldhæðnisslegur og tónlistin er diskó-leg. En Carpenter öðlaðist sennilega heimsfrægð með laginu Espresso, sem var eitt vinsælasta lag ársins í fyrra. Í dag er það Manchild sem er spilað mikið í útvarpinu, en það er fyrsti singúllinn á glænýrri plötu hennar, Man's Best Friend. Þóranna Björnsdóttir er ein þeirra listamanna sem koma fram á Extreme Chill, sem fer fram í 16. sinn núna um helgina. Við ræðum við hana í lok þáttar.

King and conquerer nefnast nýir sögulegir drama og spennuþættir frá BBC. Þeir fjalla um valdabaráttu í Bretlandi á 11.öld - átök sem enduðu með orrustinni við Hastings árið 1066. James Norton og Nikolaj Coster-Waldau leika þá Harald Guðnason og Vilhjálm sigursæla, en mikill fjöldi Íslendinga kemur að þáttunum, bæði sem leikarar og fólk í ýmsum stórum hlutverkum bakvið tjöldin. Þættirnir hafa fengið misjafnar viðtökur og meðal annars hefur verið rifist um það hvernig fólk talaði árið 1066, hvernig hártískan var á sögutímanum og það hvort leikaravalið sé of fjölbreytt. Við spjöllum við Baltasar Kormák, listrænan stjórnanda þáttanna, um þessar spurningar og aðrar. Við fáum innslag af ysta jaðri tónlistarheimsins. Þórður Ingi Jónsson rekur harmsögu rapparans unga Lil EBG og læriföður hans Glock40spaz. Við kíkjum líka í Bíó Paradís og heyrum um íslensku hinsegin kvikmyndahátíðina sem hefst á morgun.

Sólveig Anna Jónsdóttir mætir í Lestina og spjallar um hugtakið woke, woke-fána og friðarsúluna svo eitthvað sé nefnt. Við kíkjum líka í Ásmundarsal og spjöllum við Sigurð Ámundason, myndlistarmann, um nýtt sviðslistaverk sem hann leikstýrir: Rómantísk gamanmynd. Verkið fjallar um eitraða ást og iðrun.

Kristján og Lóa taka stöðuna á menningunni í dag. Í þættinum er meðal annars popptónlistargagnrýni, pólitíska samtímalist, Florentinu Holzinger og Taylor Swift. Efni sem rætt er um í þættinum er meðal annars: - How music critcism lost it's edge eftir Kelefah Sanneh https://www.newyorker.com/magazine/2025/09/01/how-music-criticism-lost-its-edge - The painted protest eftir Dean Kissick https://harpers.org/archive/2024/12/the-painted-protest-dean-kissick-contemporary-art/ - What is Contemporary Art for Today? eftir ýmsa höfunda https://open.spotify.com/episode/2yne5b8syWSDJwLcwS44aj?si=cZ1aP3YhSWCr4fmh8WcWQQ

Stígagerðamenn á Hengilssvæðinu eru í hópi þeirra listamanna sem taka þátt á Hamraborgar festivalinu í ár. Við hittumst á túninu í Kópavogi þar sem gjörningurinn verður framkvæmdur á laugardaginn og pælum í stígagerð. Davíð Roach Gunnarsson fer yfir nokkra tónleika sumarsins og veltir fyrir sér laginu Home með Edward Sharpe and the Magnetic Zeros. Kristján Guðjónsson kynnir Þætti úr sögu nútímans, viðtöl við heimspekingin Jóhann Pál Árnason.

Nýjasta kvikmynd leikstjórans, Hlyns Pálmasonar, Ástin sem eftir er, verður framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna 2026. Kolbeinn Rastrick kvikmyndagagnrýnanadi, rýnir í myndina. Er hver sinnar gæfu smiður? Við ræðum sjálfsrækt á samfélagsmiðlum við Sigvalda Sigurðarson, sem skrifaði meistararitgerð sína í félagssálfræði um skilaboð um sjálfsrækt á samfélagsmiðlum.

Hvað er þetta Labubu sem allir eru að tala um? Krúttlegur bangsi eða fáránlegt tískufyrirbæri. Lóa ræðir Labubu og Lafufu við Sólrúnu Dögg Jósefsdóttur, blaðakonu á Vísi. X-kynslóðin mun troðfylla Laugardalshöll í kvöld þegar Smashing Pumpkins koma fram á risatónleikum. Róbert Jóhannsson, fréttamaður, er forfallinn aðdáandi hljómsveitarinnar. Hann segir frá sjarmanum við Billy Corgan og co. Hópur fólks er lokaður í kastala í skosku hálöndunum, en meðal þeirra eru morðingjar. Raunveruleikaþættirnir The Traitors eða svikararnir njóta nokkurra vinsælda um þessar mundir beggja vegna Atlantshafsins. Þeir byggja á klassískum félagsmiðstöðvaleikjum eins og Varúlfur. Brynja Hjálmsdóttir sjónvarpsgagnrýnandi segir frá.

Í Lestinni í dag ætlum við að velta fyrir okkur gervigreindarmyndböndum, hvaða áhrif hefur það á notendur samfélagsmiðla þegar það verður sífellt flóknara að greina hvað er sannleikur og hvað er uppspuni, Hvaða áhrif hefur það á kvikmyndalistina ef hver sem er getur búið til heila bíómynd með tæknibrellum sem jafnast á við Hollywood-ofurhetjumyndi? Gestir okkar í Lestinni í dag eru Hafsteinn Einarsson, lektor í tölvunarfræði við Háskóla Íslands og Margrét Hugrún Gústavsdóttir, mannfræðingur og blaðakona. Og síðar í þættinum heyrum við í Ásgrími Sverrissyni, kvikmyndagerðarmanni og ritstjóra kvikmyndavefritsins Klapptré.

Í byrjun sumars tilkynnti poppprinsinn og vandræðagemsinn Justin Bieber um útgáfu nýrrar plötu með instagram-mynd af auglýsingaskilti í Fellsmúla. Platan nefnist Swag og þykir marka kaflaskil á ferli Biebersins, en hún er tekin upp að hluta til í þykkri grasþoku í glæsivillunni Deplum í Skagafirði. Við kryfjum plötuna með Friðriki Margrétar- Guðmundssyni, tónskáldi og tónlistarmanni, og ræðum við heitan Bieber aðdáanda á eftirlaunum, Birnu Rún Kolbeinsdóttur, um feril þessarar kanadísku poppstjörnu.

Hvers vegna er Spotify enn á ný til umræðu? Hvað gerði þessi streymisrisi af sér að þessu sinni? Nýverið voru sagðar fréttir af því að tónlistarfólk hygðist fjarlægja efni sitt af Spotify í mótmælaskyni við fjárfestingar stofnandans Daniel Ek. Við veltum fyrir okkur kostunum og göllum Spotify í samtali við tónlistarfólk, útvarpsfólk og framkvæmdastjóra STEF. Rætt er við Sigurlaugu Thorarensen í BSÍ, Árna Húma Aðalsteinsson tónskáld, Þorstein Hreggviðsson útvarpsmann á Rás 2 og Guðrúnu Björk Bjarnadóttur, framkvæmdastjóra STEF.