Þáttur fyrir áhugafólk um listir og menningu. Ljósi varpað á það sem efst er á baugi hverju sinni, menningin nær og fjær skoðuð frá ólíkum sjónarhornum og skapandi miðlar settir undir smásjána. Umsjón: Eiríkur Guðmundsson og Guðni Tómasson.
Við lítum inn í tvö gallerí í þætti dagsins, fyrst í Gallerý Port, þar sem sýningin Augnlokin þyngjast stendur yfir en á henni má sjá ný verk úr smiðju Baldvins Einarssonar, og svo í Gallerí Hakk við Óðinsgötu, nýtt gallerí sem sérhæfir sig í hönnun. Við ræðum við forsprakka þess, Brynhildi Pálsdóttur og Gunnar Pétursson, um galleríið og sýninguna sem opnar á morgun, þar sem hönnuðurinn Johanna Seelemann sýnir muni sem hún býr til úr afgangs gleri. Tumi Árnason fer yfir það sem helst vekur athygli hans í íslensku tónlistarsenunni í sínum hálfsmánaðarlega pistli. En við byrjum á að kynna okkur málþing sem fer fram í samkomuhúsinu í Sandgerði á sunnudag, um metsöluhöfundinn Ingibjörgu Sigurðardóttur. Ingibjörg fæddist árið 1925 og var einn vinsælasti ástarsöguhöfundur á Íslandi á sjötta og sjöunda áratugnum. Við ræðum um Ingibjörgu við bókmenntafræðinginn Vilborgu Rós Eckard, og grípum örstutt niður í viðtal frá árinu 1987, við Ingibjörgu sjálfa.
Hróðmar Sigurðsson og Ingibjörg Elsa Turchi eru tónlistarmenn og tónskáld sem eiga áralangt samstarf að baki og hafa spilað inn á fjöldann allan af plötum og staðið í miklu tónleikahaldi. Bassaleikarinn Ingibjörg Turchi hefur komið fram með mörgum af ástsælustu listamönnum þjóðarinnar, svo sem Emilíönu Torrini, Bubba Morthens, Stuðmönnum og Teiti Magnússyni. Hún hefur einnig samið verk fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands og Stórsveit Reykjavíkur og tekið þátt í verki Ragnars Kjartanssonar, Kona í e-moll, í Listasafni Reykjavíkur. Gítarleikarinn Hróðmar Sigurðsson lauk burtfararprófi frá Tónlistarskóla FÍH 2017 og fjórum árum síðar gaf hann út plötuna ,,Hróðmar Sigurðsson” og hlaut mikið lof fyrir. Hann skrifaði tónverkið Vík fyrir Stórsveit Reykjavíkur og var það frumflutt af sveitinni nú í vor í Hörpu. Tvíeykið hefur undanfarin 2 ár unnið saman að plötu sem kom út á vegum Reykjavík Record Shop þann 23. júlí síðastliðinn og nefnist hún plús 1 og einkennist af afar lífrænni blöndu djass, rokk, spuna og ambient tónlistar þar sem nokkuð hreinn og einfaldur hljómur rafgítars og rafbassa fær að njóta sín.
Í dag er dagur íslenskrar náttúru, og við hefjum þáttinn á því að ræða við líffræðinginn og rithöfundinn Nínu Ólafsdóttur, um fyrstu skáldsögu hennar, Þú sem ert á jörðu, sem kom út hjá Forlaginu í liðinni viku. Óskar Arnórsson fjallar í pistli vikunnar um arkitektúr og fisk og við lítum við í Hólavallakirkjugarði, sem er ekki bara meðal fegurstu garða landsins, heldur einnig stærsta og elsta minjasafn Reykjavíkur, eins og listfræðingurinn Björn Th Björnson kallaði hann í bókinni Minningamörk í Hólavallagarði. Þar er til að mynda að finna mósaíkverk hins danska Elof Risebye, á legsteini Guðmundar Thorsteinssonar, eða Muggs, sem nýverið var gert upp af ítölskum forverði. Við hittum Heimir Janusarson, forstöðumann Hólavallakirkjugarðs við leiði Muggs í þætti dagsins.
Við heyrum í dag raddir úr ólíkum áttum, áttum sem oftar en ekki er stillt upp sem andstæðum, röddum sem þó kalla eftir því sama; friði. Við heyrum pistil frá barnaskólakennara á Gaza, hinni 28 ára gömlu Reham Khaled. Khaled er líka skáld og næmur penni og um miðbik þáttar heyrum við þýðingu Guðrúnar Hannesdóttur á ákalli Reham Khaled, Örvæntingarópið sem enginn heyrir. Við hringjum líka til Ísrael til að ræða við Ilan Volkov, fyrrum aðalhljómsveitarstjóri SÍ, sem vakti mikla athygli síðasta fimmtudagskvöld, þegar hann hélt ræðu að loknum Proms tónleikum í Royal Albert Hall og kallaði eftir aðgerðum alþjóðasamfélagsins til að stöðva hörmungarnar á Gaza. Guðmundur Steinn Gunnarsson sendi nýverið frá sér plötu með Ensamble Adapter sem gerir hrynjandi kvæða eða sérstakra braghátta að rannsóknarefni sínu og nefnist hún Clavis Metrica eða Háttatal. Við ræðum við Guðmund Stein um háttatalið í þessum þætti sem er einmitt sendur út á degi rímnalagsins. Við hugum líka að sterkustu stelpu í heimi. Trausti Ólafsson fjallar um Línu langsokkur var frumsýnd um helgina í Þjóðleikhúsinu.
Bandaríska sjónlistakonan Joan Jonas hefur verið á Íslandi undanfarna viku að vinna að nýju verki ásamt Ragnari Kjartanssyni. Þau koma fram í dag á samræðuviðburði Listasafns Reykjavíkur í tilefni af 70 ára nóbelsafmæli Halldórs Kiljan Laxness og ræða þar um verk sín sem byggja á skáldsögum eftir skáldið; Reanimation úr smiðju Joan Jonas og Heimsljós; líf og dauði listamanns eftir Ragnar. Við tökum þau tali í þætti dagsins. Myndlistarrýnirinn Ragna Sigurðardóttir flytur pistil sem hún kallar Ferðalag um liti og minningar. Þar fjallar hún um sýningu Rúríar, Tímamát í SIND galleríi, sýningu Kristjáns Steingríms, Fyrir handan liti og form í Berg contemporary, sem og samsýningu norræna listamanna Time After Time í Norræna húsinu. Arvo Pärt er eitt dáðasta tónskáld samtímans. Vinsældir hinna guðdómlegu og tæru tónsmíða hans þykja endurspegla þrá sem margir finna fyrir, þörf fyrir skjól frá hávaða og áreiti og rými fyrir íhugun, einfaldleika og hvíld. Við hugum að tónlist Arvo Part í þættinum.
Tryggvi M. Baldvinsson lærði ungur á píanó en fannst píanónámið einmanalegt og lét sig dreyma um að spila frekar á saxófón. Það þótti foreldrum hans líkleg leið í sukk og svínarí en honum bauðst hins vegar að spila á túbu og það opnaði fyrir honum heim lúðrasveitarinnar. Áður en Tryggvi hélt sem ungur maður í tónsmíðanám til Vínar lýsti hann því yfir í blaðaviðtali að útskrifaður úr framhaldsnámi vildi hann geta gert allt í tónlist. Hann hefur sannarlega fylgt því markmiði eftir með breiðum og fjölbreyttum ferli, því auk þess að vera afkastamikið tónskáld hefur hann verið atkvæðamikill í ýmsum félagsmálum og sinnt bæði kennslu og stjórnunarstörfum. Hann var deildarforseti í tónlistardeild Listaháskólans í áratug en tók í fyrra við stöðu listræns ráðgjafa hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands. Tryggvi M Baldvinsson er gestur svipmyndar í Víðsjá dagsins.
Við heimsækjum listhóp Reykjavíkur, sem árið 2025 er listamannarekna sýningarrýmið Open. Open hefur verið hreyfiafl í myndlistarsenunni frá opnun á Grandanum fyrir nokkrum árum og staðið fyrir myndlistarsýningum, uppákomum og þverfaglegu samstarfi. Að baki Open standa fjórir myndlistarmenn, þau Arnar Ásgeirsson, Hildigunnur Birgisdóttir, Una margrét Árnadóttir og Örn Alexander Ámundason, en hópurinn leggur sig fram við að vekja athygli á áhugaverðum listamönnum af jaðrinum. Óskar Arnórsson heldur áfram umfjöllun sinni um landnám, að þessu sinni landnám Íslendinga í Kanada. Við hugum einnig að menningarpólitík. Í fjárlagafrumvarpi er gert ráð fyrir umtalsverðri skerðing á bókasafnssjóði. Arndís Þórarinsdóttir, rithöfundur ritaði pistil á Facebook um málið og segir frá í þætti dagisns.
Á laugardag fór fram samstöðufundurinn Þjóð gegn þjóðarmorði um allt land. Meðal atriða á fjölsóttum fundi á Austurvelli var flutningur á nýju tónverki Sigurðar Sævarssonar við ljóð Dags Hjartarsonar, Hvers vegna þessi þögn? Við heyrum af tilurð verksins í síðari hluta þáttar. Við hugum einnig að kvikmynd um þjóðarmorðið sem hefur verið að fá mjög sterkar viðtökur eftir frumsýningu á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum. The Voice of Hind Rajab segir frá örlögum Hind Rajab í bifreið sem Ísraelsher réðst á, en kvikmyndin er unnin upp úr símtali hennar við starfsmenn Rauða hálfmánans - símtali sem gekk fram af heimsbyggðinni. En við byrjum á því að hringja austur í Öræfi, til að taka ljósmyndarann Spessa tali um nýútkomna bók sem hann kallar TÓM.
Í kvöld verður dansverkið Flækt frumsýnt í Tjarnarbíói. Höfundur er hin franska Juliette Louste en leikstjóri er Kara Hergils. Verkið byggir á persónulegri reynslu Juliette, sem þróaði með sér áráttu- og þráhyggjuröskun eftir að hafa upplifað áföll í æsku og langa vist á barnageðspítala. Saxófónleikarinn Tumi Árnason ætlar að kortleggja tónlistarheiminn með sínu eigin lagi með hálfsmánaðlegum hugleiðingum í haust og leggur upphafslínurnar í þætti dagsins. Í nýjum höfuðstöðvum Marvöðu við Grandagarð verður á laugardag blásið til viðburðar undir yfirskriftinni MAGIC. Þar verða sýnd performatív vídjóverk eftir feminíska frumkvöðla í myndlistarheiminum, þær Joan Jonas og Judy Chicago, ásamt stuttmynd Katrínar Helgu Andrésdóttur, HEX. Við hittum þær Katrínu Helgu, Sóleyju Stefánsdóttur og Arnbjörgu Maríu í Marvöðu í síðari hluta þáttar.
Jón Baldur Hlíðberg teiknari hefur alla tíð verið hugfanginn af fuglum. Hann fékk sinn fyrsta kíki átta ára gamall og byrjaði um svipað leyti að færa náttúruna á blað. Það tók hann samt langan tíma að átta sig á því að teikningu gæti hann lagt fyrir sig. Hann sótti námskeið við Myndlistaskólann í Reykjavík og við Myndlista- og handíðaskólann en fann svo sína tækni sjálfur og hefur verið að þróa hana síðan. Í dag er Jón Baldur okkar fremsti náttúrulífsteiknari og eftir hann liggja bækur um fugla, hvali, fiska, spendýr, kynjaverur og flóru Íslands, verk sem hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin 2018. Jón Baldur segist hafa grátið eins og barn þegar hann fékk bókina fyrst í hendur en hún var mörg ár í vinnslu. Í dag kallar hann sig fagmann en roðnar ef hann er kallaður listamaður. Meira um það í Víðsjá dagsins, en einnig leit að grasi í Pétursey, áhrif gervigreindar, innsæi, kulnun, tískusveiflur, þrautseigja og þolinmæði.
Á fimmtudag verður Íslandsfrumflutningur á sellókonsertinum Before we fall eftir Önnu Þorvaldsdóttur á upphafstónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Konsertinn er skrifaður fyrir sellóstjörnuna Johannes Moser en innblásturinn að verkinu er að sögn Önnu sú tilfinning að standa á brúninni, að vera við það að bresta en finna að lokum jafnvægi undir fótunum. Birta Ósmann Þórhallsdóttir er einn af tveimur starfsmönnum bókaútgáfunnar Skriðu, en auk þess að gefa út og prenta er hún líka ötull þýðandi úr spænsku. Við ræðum við hana um þýðingu hennar á skáldsögunni Nautnir eftir Mario Bellatin. Óskar Arnórsson fjallar um þróun Kópavogsbæjar, og hlut Benjamíns Magnússonar í þeirri þróun, en Benjamín fékk það hlutverk, þá nýkominn úr námi, að hanna fyrsta miðbæ Íslands sem var skipulagður sem slíkur: Hamraborgina.
Rithöfundurinn Karítas Hrundar Pálsdóttir hefur gert árstíðir, dagatöl og vikudaga að útgangspunktum í örsagnassöfnum sínum, sem nú eru orðin þrjú. Það nýjasta ber titilinn Vikuspá, og geymir áttatíu og sex sögur á einföldu máli, sem líka eru aðgengilegar þeim sem eru að læra íslensku sem annað eða þriðja mál. Á vordögum kom út úrval úr ljóðum norksa ljóðskáldsins Knuts Ødegård, í þýðingu Gerðar Kristnýar, sem ber yfirskriftina Áður en hrafnarnir sækja okkur. Soffía Auður Birgisdóttir rýnir í verkið í þætti dagsins. Sýningin Algjörar skvísur er sú fimmtánda í haustsýningarröð Hafnarborgar en að þessu sinni var tillaga þeirra Jösu Baka og Petru Hjartardóttur valin úr fjölda umsagna. Með sýningunni vilja þær kanna þemu sem tengjast mýkt, krafti og kvenlegri orku í samtímalist og við lítum við í Hafnarborg til að taka á þeim púlsinn.
„Ég geri mér alveg grein fyrir því að það er erfitt að vera tré á Íslandi,“ segir Bergrún Anna Hallsteinsdóttir, en hún vinnur nú að verkinu Gróðursetningu í móanum við Ásbraut í Kópavogi. Verkið er lifandi skúlptúr sem mótast af rótarskotum íslenskra plantna. Hugmyndin á að hluta til rætur að rekja til flugviskubits, en Bergrún Anna er alin upp á milli Nýja - Sjálands og Þórshafnar. Meira um það í Víðsjá dagsins. Einnig kynnum við okkur pólsku jazz sveitina O.N.E. og heyrum fyrstu myndlistarrýni vetrarins, en Ragna Sigurðardóttir rithöfundur og myndlistarkona, mun vera með regluleg innlegg í þættinum, með pælingum og rýni í myndlistarsýningar og senuna í víðara samhengi.
Matthías Hemstock fór að tromma 9 ára gamall og hefur starfað við tónlistarflutning í fjóra áratugi. Hann fór fljótt að spá í áferð og segist ekki bara hafa áhuga á trommunum, heldur fyrst og fremst á hljóði. Verkefnavalið hefur endurspeglað þessa hugsun og spannar gífurlega vítt svið, allt frá rokki og poppi til klassískrar tónlistar, þó jazz- og spunatónlist hafi verið rauður þráður frá námsárunum við tónlistarskóla FÍH og í Berklee háskóla í Bandaríkjunum. Nú er Jazzhátíð í Reykjavík komin á fullt flug og Víðsjá flýgur með, þessi auðmjúki og fjölhæfi trommuleikari er gestur svipmyndar í dag.
Ljóðabókin Sjáðu, sjáðu mig. Það er eina leiðin til að elska mig, kom út á Þorláksmessu árið 1995 en hefur verið nær ófáanleg síðan. Nú hefur þessi 30 ára gamla ljóðabók Elísabetar Jökulsdóttur verið endurútgefin og við setjumst niður með henni til að rifja upp gömul stef og ný. Óskar Arnórsson, arkitekt, fjallar um samband arkitektúrs og ofbeldis, og það hvernig arkitektúr er enn beitt til þess að sjálfstætt ríki Palestínu verði ekki að veruleika. En við hefjum þáttinn á að þvi að velta fyrir okkur fagurferðilegri upplifun okkar af landslagi. Á föstudag verður haldið málþing í Norræna húsinu um menningarlegt og fagurferðilegt gildi birkis. Guðbjörg R Jóhannesdóttir er meðal fyrirlesara og mætir í hljóðstofu Víðsjár.
Atli Freyr Hjaltason, þjóðfræðingur, segir frá útgáfu á Danslögum Jónasar, handriti frá árinu 1864 sem inniheldur 50 danslög skrifuð fyrir fiðlu af Jónasi Helgasyni. Jónas var vinsæll dansundirleikari í Reykjavík á síðari helming 19. aldar og lék víða fyrir dansi. Mögulega hafa einhver danslaga Jónasar lifað nógu lengi til að hafa verið leikin í félagsheimilum landsins. Svo ótal margt fer fram í þessum byggingum sem oft á tíðum eru kjarninn í samfélögum landsbyggðarinnar. Þessi félagsheimili eru einmitt rauði þráðurinn í ljóðabók sem kom út í vor, Félagslandi eftir Völu Hauks. Þetta er fyrsta ljóðbók Völu en hún hlaut Ljóðstaf Jóns úr vör í fyrra. Vala mætir í hljóðstofu, en auk þess rýnir Trausti Ólafsson í leikverkið 40.000 fet, sem frumsýnt var í Tjarnarbíói fyrir helgi.
Þær Björk Guðmundsdóttir og Diljá Nanna Guðmundsdóttir koma í hljóðstofu og segja okkur frá 10 ára starfsemi Improv Íslands, spunatækni og aðferðum, og henda jafnvel í stuttan útvarpsleikhússpuna. Eftir átta ár á flakki ákvað Eydís Evensen, tónlistarkona, að flytja heim og snúa sér alfarið að tónlistinni. Von er á hennar þriðju plötu, Oceanic Mirror, sem dregur innblástur frá náttúrunni og fjallar um hringrás lífsins. Anna María Björnsdóttir ræðir við Eydísi í þætti dagsins. En við hefjum þáttinn á því að fara niður í bæ og hitta leikkonurnar Birtu Sól Guðbrandsdóttur og Aldís Ósk Davíðsdóttur sem frumsýna annað kvöld leikverkið 40.000 fet í Tjarnarbíói.
Rúrí kom með skelli inn í íslenskt listalíf á Listahátíð árið 1974 þegar hún rústaði gylltri Bensbifreið með sleggju. Með gjörningnum vildi hún vekja fólk til umhugsunar um efnishyggjusamfélagið og hið eilífa lífsgæðakapphlaup. Hún er algjör frumkvöðull á sviði gjörningalistar hér á landi, og þó víðar væri leitað, en hefur alla tíð unnið sín verk í ólíka miðla þar sem hugmyndin er ávallt grunnforsendan. Að hennar mati dýpkar það listina að hún hafi hugmyndafræðilegt inntak. Rúrí er gestur Víðsjár í dag þar sem hún ræðir ferilinn, inntak verka sinna, fossa, förur og regnboga, fasisma, einelti og ranglæti svo sitthvað sé nefnt. Og auðvitað verkefnin framundan en Rúrí sýnir um þessar mundir í SIND galleríi og undirbýr sýningar í Vilnius og Sao Paolo.
Um liðna helgi var framinn sólarhrings langur gjörningur undir Skeiðarárbrú þar sem 17 eldar voru kveiktir og tugir kílómetra voru gengnir. Listamaðurinn á bak við verkið, Jakob Veigar Sigurðsson, hefur verið búsettur í Vínarborg síðastliðinn áratug en á ættir að rekja til Öræfa og mætir í hljóðstofu. Á morgun opnar í Gerðarsafni umfangsmikil samsýning sem ber titilinn Corpus. Þar rannsakar hópur listamanna samband okkar við líkamann út frá ólíkum sjónarhornum, þá sérstaklega í samhengi við kynþætti, kyngervi og umhverfi. Daría Sól Andrews er sýningarstjóri Corpus og segir okkur frá sýningunni. Og við tökum upp þráðinn frá því í vor og heyrum í dag pistil úr pistlaröð arkitektsins Óskars Arnórssonar. Pistill dagsins hefur yfirskriftina Arkitektúr og manneskjan.
Fyrr í sumar uppgötvaðist á bókasafni Columbia háskóla í New York áður óþekkt píanóverk eftir eitt af höfuðtónskáldum Íslendinga, Leif Þórarinsson. Um er að ræða tilbrigði við þjóðlegt en frumsamið stef, sem taka um 4 mín í flutningi. Á hljóðrituninni fannst líka viðtal við Leif sem er um margt forvitnilegt. Tónlistarfræðingurinn Árni Heimir Ingólfsson segir frá þessum merkisfundi í fyrstu Víðsjá vetrarins. Jón Hallur Stefánsson gaf nýverið út Mansöngva, tvöfalda hljómplötu þar sem hann leikur á píanó og syngur sína eigin texta, sem fjalla um ástina í öllu sínu veldi. Jón Hallur hefur verið ötull þýðandi undanfarin ár, auk þess að skrifa glæpasögur og ljóð. Hann lýsir sköpunarferli lagasmíðanna við það að vera í hálfgerðu vímuástandi, þar sem textarnir flæða inn í ómótaða melódíuna.
Í dag er síðasti þátturinn fyrir sumarfrí og þáttastjórnendur Víðsjár eru með hugann við stóru málin; harm kynslóðanna, stríð í heiminum, hlutverk listarinnar gagnvart því öllu, auða blaðið og ógnina. Við skoðum brot úr þætti frá 1988 þar sem ungt fólk og samfélagsrýnarnir Svava Jakobsdóttir, rithöfundur, og Gunnar Kristjánsson, prófastur emeritus, tjá sig um heimsmál, tíðaranda, stríð og frið. Á þeim tíma var stutt í endalok kalda stríðsins en í ljósi frétta samtímans fáum við Gunnar til að hlusta aftur á hinn tæplega 40 ára þátt, líta til baka og skoða upp á nýtt enda er nú aftur talað um kjarnorkuvopn, stríð geisa og uggur er í fólki víðs vegar um heim. Bakgrunnur myndlistarkonunnar Larissu Sansour er í heimildamyndagerð og fyrstu myndir hennar voru tilraunir til að draga fram það sem raunverulega var að gerast í Palestínu. En þegar hún upplifði sífellt meira ósamræmi milli þess sem birtist henni í fréttum og þess sem hún heyrði frá fjölskyldu sinni færðust verk hennar yfir í vísindaskáldskap, þar sem hún fann skjól frá ríkjandi orðræðuhefðum. Í kjölfarið fylgdu vangaveltur um mörk raunveruleika og skáldskapar, fortíðar og framtíðar. Við heimsækjum Listasafn Reykjanesbæjar þar sem einkasýning þessarar alþjóðlegu stórstjörnu í myndlistarheiminum stendur yfir. Umsjón: Anna Gyða Sigurgísladóttir og Melkorka Ólafsdóttir
Fyrir 50 árum síðan stofnaði semballeikarinn Helga Ingólfsdóttir tónlistarhátíð sem í dag er sú elsta og jafnframt stærsta sinnar tegundar á landinu. Fjölmörg ný íslensk tónverk hafa orðið til fyrir Sumartónleika í Skálholti, en hátíðin hefur líka skapað sér sess sem mikilvæg tónlistarhátíð langt út fyrir landsteinana. Við rifjum upp umfjöllun um upphafskonu Sumartónleikanna og ræðum við núverandi listrænan stjórnanda hátíðarinnar, Benedikt Kristjánsson. Við heyrum líka síðasta heimspekipistil í bili frá Freyju Þórsdóttur, sem að þessu sinni fjallar um athygli og einmanaleika í samhengi við róttæka tæknivæðingu nútímans. Og Gréta Sigríður Einarsdóttir rýnir í nýútkomna skáldsögu Soffíu Bjarnadóttur, Áður en ég brjálast. En við byrjum á því að kynna okkur hátíð sem fer fram á Raufarhöfn um helgina. Berglind María Tómasdóttir, flautuleikari og listrænn stjórnandi hátíðarinnar leit við í hljóðstofu.
Í dag er Jónsmessa og er Víðsjá tileinkuð henni og sömuleiðis bændum. Lengi vel var útvarpað sérstökum Jónsmessuþætti bænda enda var ákveðið á Búnaðarþingi árið 1959 að Jónsmessa yrði gerð að hátíðardegi bænda. Siðurinn var lagður af rúmum tveimur áratugum síðar en í safni RÚV eru fjölmargir Jónsmessuþættir bænda frá 7. og 8. áratug síðustu aldar. Að gefnu tilefni fögnum við Jónsmessunni með bændum fortíðar og nútíðar. Heyrum brot úr viðtölum eldri þátta, heyrum í ungum bónda á Reyðarfirði og rifjum upp dulrænar hefðir Jónsmessunætur með þjóðháttafræðingum.
Við lítum inn á yfirlitssýningu huldumálarans Kristjáns H Magnússonar, sem nú stendur yfir í Listasafni Íslands. Ferill Kristjáns var um margt óvenjulegur, en hann lærði málarlist í Bandaríkjunum í upphafi 20. aldar og var fyrstur Íslendinga til að halda markvisst sýningar á verkum sínum í erlendum stórborgum. Samhliða sýningum í Listasafni Íslands og Safnasafninu kemur út yfirgripsmikil bók um ævi Kristjáns og verk í ritstjórn Einars Fals Ingólfssonar, og við fáum hann til að segja okkur nánari deili af Kristjáni. Fyrirtækið Genki Instruments fagnar nú 10 ára afmæli, og setti nýverið á markað hljóðgervilinn Kötlu, einn allra fyrsta hljóðgervil sem þróaður hefur verið á Íslandi. Ólafur Bjarki Bogason, einn af stofnendum fyrirtækisins heimsækir hljóðstofu og segir okkur frá Genki og gervlinum. Við heyrum líka af nýútgefinu lagi eftir Eirík Stephensen, lagið nefnist Eirrek og er titillag væntanlegrar plötu.
Vinkonurnar Hildigunnur Einarsdóttir og Sigríður Thorlacius völdu ólíkar leiðir í söngnum en hefur lengið dreymt um að syngja saman. Nú verður sá draumur að veruleika, því á tónlistarhátíðinni Við Djúpið á Ísafirði býðst gestum að hlýða á sérsniðna tónleika með tónlist Kurt Weill í útsetningum Þórðar Magnússonar, þar sem þær stöllur syngja saman og sín uppáhalds númer. Við heyrum af vináttu og verkefni söngvinkvennanna í þætti dagsins. Óskar Arnórsson flytur okkur líka sinn fjórða pistil í nýrri pistlaröð og fjallar um arkitektúr og umhverfi. Þá kynnum við okkur viðburð sem vafalaust verður meðal leikhúsviðburða sumarsins, en í kvöld og annað kvöld verður dansleikhúsverkið Life in this house is over sýnt í Tjarnarbíói. Leikstjóri er hin bandaríska Samantha Shay en verkið er samstarf Grotowski Institute, Pina Bausch Zentrum og Teatr Zar, með miklum fjölda dansara og leikara. Í lok þáttar rifjum við svo upp aðdragandann að kosningarétti kvenna og kjörgengi til Alþingis með kistubroti úr þætti Helgu Birgisdóttur og Brynhildar Heiðar og Ómarsdóttur um sögu íslenskrar kvennabaráttu á 20. og 21. öldinni.
Við leggjum land undir fót í þætti dagsins og rifjum upp heimsókn á Safnasafnið á Svalbarðseyri. Þetta stórmerkilega safn fagnar í ár 30 ára afmæli og af því tilefni hefur verið efnt til sýningar úr safnkosti þess í Reykjavík. Sýningin, Sending frá Svalbarðseyri, opnaði í Nýlistasafninu þann 7. júní og stendur fram yfir verslunarmannahelgi, en þar má sjá verk vel á þriðja tugs listamanna sem Safnasafnið hefur hlúð að síðustu áratugi. Safnasafnið á Svalbarðseyri er höfuðsafn myndlistar sjálflærðra listamanna, myndlistar sem oft er kölluð alþýðulist eða utangarðslist. Það var stofnað árið 1995, af hjónunum Níelsi Hafstein, myndlistarmanni og Magnhildi Sigurðardóttur, geðhjúkrunarfræðingi, sem unnið hafa ótrúlegt starf við að byggja safnið upp og varðveita um leið menningararf sem hefði annars glatast. Halla Harðardóttir brunaði norður í lok síðasta sumars og ræddi við þau Níels og Magnhildi um allt milli himins og jarðar, þar á meðal upphaf safnsins, söfnunaráráttu, skilgreiningar á hugtökum, tengsl alþýðulistar og nútímalistar, blóm og dúkkur og margt, margt fleira.
Íslenski þjóðbúningurinn á sér langa sögu og ýmsar myndir. Umræðan um hefðir og reglur í kringum notkun þjóðbúninga hefur verið fjölbreytt og raddirnar ólíkar, sumir vilja halda fast í menningararf og hefðir en öðrum finnst mikilvægara að halda menningunni lifandi þannig að hún endurspegli samtímann. Í þættinum veltum við fyrir okkur íslenska þjóðbúningnum og ræðum við þjóðfræðinginn Önnu Kareni Unnsteins, en hán hefur rannsakað hvernig kynbundnar hugmyndir hafa mótað gerð og notkun búninganna og velt fyrir sér hvernig þjóðbúningur framtíðarinnar gæti litið út ef hann endurspeglar fjölbreytileika kynjanna og hinsegin veruleika. Við heyrum af verðlaunabók þar sem fólk getur valið sér tímabil til að dvelja í og umhverfi þar sem því líður best. Nýverið kom út hjá Dimmu íslensk þýðing Vesku A. Jónsdóttur og Zophoníasar O. Jónssonar á skáldsögu búlgarska höfundarins Georgi Gospodinov, Tímaskjóli. Gauti Kristmannsson rýnir í bókina í þætti dagsins. Einnig rifjum við upp innslag frá árinu 2020 þar sem tíðni rigningar á þjóðhátíðardaginn er rannsökuð sem og möguleg lausn við henni; veðurvélin.
Við erum með hugann við dagdrauma og dulspeki í þætti dagsins og rifjum upp viðtal Svövu Jakobsdóttur, rithöfundar, við unga íslenska stúlku sem er í þann mund að flytja til Parísar til að hefja nám í dulvísindum við Sorbonne háskóla. Við heyrum líka af dulspekilegum og trúarlegum vísunum og táknmyndum í verkum Jóhannesar Sveinssonar Kjarval, og hittum fyrir sýningarstjóra Draumalands á Kjarvalsstöðum, Eddu Halldórsdóttur. Óskar Örn Arnórsson, arkítekt og doktor í arkitektúr, flytur okkur svo þriðja pistilinn í pistlaröðinni Arkitektúr og... og veltir að þessu sinni fyrir sér arkitektúr og kynþætti.
Þáttur dagsins er flétta heimspekilegra hugmynda, tónlistar og dans. Við heyrum djúphugsaða hugleiðingu úr brunni Freyju Þórsdóttur, sem í dag veltir fyrir sér samspili ljóss og skugga og gildi þess að horfast í augu við myrkrið. Í beinu framhaldi heyrum við brot úr viðtali við Pál Skúlason heitinn, þar sem hann veltir fyrir sér hlutverki heimspekingsins í samfélaginu, en nýverið stóð Háskóli íslands að málþingi Páli til heiðurs. Í síðari hluta þáttar lítur tónskáldið og píanóleikarinn Kári Egilsson við í hljóðstofu, en hann hefur vakið mikla athygli síðustu misseri fyrir tónlist sína, bæði á sviði jazz og popptónlistar, og vinnur um þessar mundir að sínum fjórðu og fimmtu plötum, aðeins 23 ára gamall. Við hugum líka að Grímuverðlaununum, sem veitt voru við hátíðlega athöfn í Borgarleikhúsinu í gær. Hringir Orfeusar og annað slúður, sýning Ernu Ómarsdóttur og Íslenska dansflokksins, var þar valin sýning ársins. En fyrst gröfum við upp 65 ára hljóðritanir Göggu Lund, og heyrum brot úr þætti Sigrúnar Björnsdóttur, Söngkonan á svarta kjólnum, frá árinu 1997.
Þáttur dagsins er að mestu tileinkaður tveimur nýafstöðnum hátíðum sem marka upphaf sumars; Reykjavík Fringe Festival og Skjaldborgarhátíðinni. Svo mætir í hljóðstofu eitt höfuðskáld bókmenntasenunnar, Steinunn Sigurðardóttir, og rifjar upp tilurð Skálds sögu, í tilefni af viðburði Forlagsins á Fiskislóð á fimmtudag. Leiksýningin Skot, eftir Júlíu Gunnarsdóttur var sýnd í tvígang á Reykjavík Fringe Festival. Trausti Ólafsson, leikhúsrýnir, fór á sýninguna og segir okkur af sinni upplifun. Skjaldborg - hátíð íslenskra heimildamynda var haldin í átjánda sinn um helgina. Dómnefndarverðlaun Skjaldborgar hlaut myndin Paradís amatörsins eftir Janus Braga Jakobsson og við rifjum upp viðtal við Janus í upphafi þáttar.
Af einhverjum ástæðum hefur Búðakirkja orðið gríðarvinsæll áfangastaður erlendra ferðamanna undanfarin ár. Kirkjan er ein af mest mynduðu kirkjum á Íslandi og ferðast fólk oft langar leiðir til þess að gefa sig saman í henni. Við kynnum okkur málið nánar í þætti dagsins og skoðum sömuleiðis sögu kirkjunnar en í henni kemur fyrir sterk kvenpersóna, Steinunn Sveinsdóttir, sem fer sínar eigin leiðir og sendir kirkjuyfirvöldum 19. aldar fingurinn með einum mjög svo táknrænum dyrahring. Sinfónía og hip hop dans mætast í fyrsta sinn á Íslandi í Eldborgarsal Hörpu þann 14. júní þegar hljómsveitin Geneva Camerata og krömpdansarar sameinast í einu meistaraverki tónlistarsögunnar, fimmtu sinfóníu Dmitris Shostakovítsj. Brynja Pétursdóttir danshöfundur og Þorbjörg Daphne Hall lektor litu við í hljóðstofu og segja okkur betur frá þessum merkilega viðburði. Viðmælendur: Dagbjört Dúna Rúnarsdóttir, kirkjuvörður Búðakirkju, Brynja Pétursdóttir, danshöfundur, Þorbjörg Daphne Hall, lektor. Umsjón: Anna Gyða Sigurgísladóttir
Hildur ólst upp á Þórshöfn á Langanesi, hefur frá útskrift úr Listaháskóla Íslands unnið málverk, skúlptúra og gjörninga en listsköpun hennar gefur einlæga sýn inn í mannlegan reynsluheim. Hún afbyggir aktíft hugmyndir um fullkomnun og rannsakar persónuleg tengsl sem fólk skapar sín á milli, líkamlega og tilfinningalega. Hún hefur sýnt víða, meðal annars í Hafnarborg, Gerðarsafni, Listasafni Akureyrar og á sýningum í Berlín, London og Antwerpen. Nýverið opnað hún sýningu í Gallerí undirgöngum á Hverfisgötunni. Við mælum okkur mót við listakonuna og fáum að skyggnast inn í líf hennar og list. Umsjón: Anna Gyða Sigurgísladóttir
Sigtryggur Baldursson á sér langan og skrautlegan feril en hann er kannski einna helst þekktur sem Bogomil Font, hans auka sjálf í söngnum sem varð til í Júgóslavíu árið 1989. Bogomil Font hefur lítið veri að koma fram upp á síðkastið en nú er hins vegar komin út ný tónlist og stutt tónleikaferðalag í vændum. Sigtryggur leit við í hljóðstofu og ræðir ferilinn og nýja tónlist. Við rifjum einnig upp viðtal við afmælisbarn dagsins, Guðrúnu frá Lundi og Tómas Ævar Ólafsson kynnir sér írsku tónlistarkonuna Lisu O'Neill. Umsjón: Anna Gyða Sigurgísladóttir og Anna María Björnsdóttir.
Soffía Bjarnadóttir, rithöfundur, ljóð- og leikskáld, heimsækir okkur í dag og segir frá nýútgefnu skáldverki sínu sem nefnist Áður en ég brjálast. Um er að ræða feminískt skáldverk um ástir, ólík breytingarferli og lífsreynslu róttækrar móður sem leitar heim í skáldskapinn þar sem goðsagnaverur vappa um. Við hugum einnig að tónlist því listahátíðin Reykjavík Fringe hóf göngu sína í gær og stendur út vikuna. Tónlistarkonan Heather Ragnars verður með tvenna tónleika á hátíðinni og leit við hjá okkur í hljóðstofu. Við rifjum einnig upp lestur Bríetar Héðinsdóttur úr rúmlega þúsund ára gamalli dagbók Sei Shónagon. Umsjón: Anna Gyða Sigurgísladóttir og Anna María Björnsdóttir.
Svipmynd Víðsjár er af bókinni Götuhorni; Skáldtextar innblásnir af íslenskri myndlist, sem var gefin var út af Listasafni Íslands og Reykjavík bókmenntaborg UNESCO. Á blaðsíðum birta 15 rithöfundar texta sem þeir skrifa út frá listaverkum í safneign Listasafns Íslands. Textarnir eru í mörgum mismunandi stílum og túlka, prjóna við, líkja eftir og/eða greina listaverkin. Götuhorn er því skemmtilegt bland í poka af listaverkum og textum sem fara sínar eigin leiðir í samskiptum við verkin. Í svipmyndinni heyrum við frá fjórum rithöfundum sem skrifuðu í bókina, þeim Maríu Elísabetu Bragadóttur, Karólínu Rós Ólafsdóttur, Jóni Kalmani Stefánssyni og Margréti Bjarnadóttur.
Við hugum að rússneska rithöfundinum Leo Tolstoj en bók hans Anna Karenína kom út árið 1878 og hefur svo að segja verið í deiglunni allar götur síðan. Þessi heimsbókmennt verður til umræðu hjá okkur í sjomlahorni dagsins. Rebekka Þráinsdóttir kemur við í hljóðstofu og greinir frá verkinu. Þorvarður Árnason heimsækir þáttinn einnig. Hann er líffræðingur, ljósmyndari, kvikmyndagerðarmaður og umhverfishugvísindamaður sem hefur undanfarna áratugi kannað samband manns og náttúru frá ýmsum sjónarhornum. Hann er meðal listamanna á samsýningunni Jöklablámi, sem opnaði í Verksmiðjunni á Hjalteyri nýverið og í vor kom út eftir hann bókin Víðerni, þar sem hann veltir fyrir sér hinu villta í náttúru Íslands og gerir íslenskum víðernum skil á þverfaglegan hátt.
Kolkrabbinn er ný viðburðaröð Ensemble Adapter í samvinnu við Tjarnarbíó. Á Kolkrabbanum má sjá verk sem dansa á mörkum tónlistar, gjörningalistar, dans og leikhúss, einhverskonar tilrauna-tón-leikhús sem er samt ekki ópera. Kolkrabbinn er með alla anga úti og allt í öllu og annað kvöld verður hann í fyrsta sinn á sviði Tjarnarbíós með verk sem heitir Everything Everywhere. Hörpuleikarinn Gunnhildur Einarsdóttir og slagverksleikarinn Matthias Engler eru forsprakkar Kolkrabbans og þau segja okkur nánar af uppátækjum hans í þætti dagsins. Gauti Kristmannsson fjallar um nýútkomna bók í glænýrri ritröð Tunglsins, Svartholi, sú er þýðing Ragnars Helga Ólafssonar á verki Anne Carson og heitir Albertine æfingarnar. Við hugum líka að sígildri nútímatónlist og veltum fyrir okkur hvaða dægurlög lifi af umrót tímans og einnig skoðum við tappa og skrúfur í vegg.
Ásgerður Búadóttir var frumkvöðull í listvefnaði á Íslandi og telst meðal fremstu myndlistarmanna þjóðarinnar. Í síðustu viku opnaði glænýtt safn tileinkað Ásgerði og ævistarfi hennar á veraldarvefnum, á slóðinni asgerdarsafn.is. Umsjónarmaður safnsins og sonur Ásgerðar, Björn Þrándur Björnsson, segir okkur nánar af safninu og vinnunni að baki í þætti dagsins. Samúel Jón Samúelsson segir okkur líka frá tónleikum sem Stórsveit Reykjavíkur stendur fyrir í Hörpu nú á sunnudag undir yfirskriftinni Ný íslensk tónlist, en þar verða flutt glæný tónverk eftir ólíka íslenska höfunda. Og arkitektinn og arkitektúrsagnfræðingurinn Óskar Arnórsson flytur okkur pistil númer tvö í nýrri pistlaröð sem hann kallar Arkitektúr og...
Barbara Hannigan er margverðlaunuð sópransöngkona og hljómsveitarstjóri, tónlistarkona í framlínu þess áhugaverðasta og vandaðasta sem gerist í klassíska tónlistarheiminum í dag. Hún er þekkt fyrir hugrekki og frumlegheit í efnisvali og sérlega vandaðar tónleikaefnisskrár, þar sem hún blandar saman gömlu og nýju á músíkalskan og áhrifaríkan hátt. Hannigan er án efa meðal hæfileikaríkustu og eftirsóttustu tónlistarmanna í heiminum og það því sannarlega stórfrétt þegar tilkynnt var að Hannigan myndi taka við stöðu aðalhljómsveitarstjóra og listræns stjórnanda Sinfóníuhljómsveitar Íslands frá haustinu 2026. Og nú styttist í að Barbara Hannigan stígi á Eldborgarsviðið næst, því hún mun stýra og syngja með Sinfóníuhljómsveit Íslands á lokatónleikum tónleikaársins, þann 5. júní næstkomandi. Svipmynd dagsins er tileinkuð Barböru Hannigan. Í útsendingu ljáði Gígja Hólmgeirsdóttir Barböru rödd sína en einnig má finna ódöbbaða útgáfu viðtalsins með enskum svörum Hannigan hér í spilara RÚV, með því að leita að "Svipmynd - Barbara Hannigan - ensk útgáfa"
Danski gítarleikarinn Jakob Bro hefur boðað komu sína til landsins. Hann ásamt saxófónleikaranum Óskari Guðjónssyni og bassaleikaranum Skúla Sverrissyni stefnir á tónleikaferð um landið sem mun hefjast á laugardag. En samferða tónleikahaldi munu þeir stunda lagasmíðar. Við mælum okkur mót við Óskar Guðjónsson í þætti dagsins og ræðum Jakob Bro og ferðalagið. Freyja Þórsdóttir flytur pistil þar sem hún veltir meðal annars fyrir sér hvort merkingarleit sé manneskjunni lífsnauðsynleg. Og hvort tenging við náttúruna sé mikilvægur liður í slíkri leit. Við rifjum einnig upp stuttan pistil frá árinu 2023 þar sem Halla Harðardóttir ræðir hina alræmdu pissuskál Duchamp og rannsakar hvort þessi frumkvöðull dadaismans hafi stolið verkinu frá listakonunni Elsu von Freytag-Loringhoven.
Dansdagar hefjast í dag og standa yfir fram á laugardagskvöld. Hátíðin er samstarfsverkefni Íslenska dansflokksins og Dansverkstæðisins og markmið hennar er að sögn aðstandenda að bjóða bæði atvinnudönsurum og áhugafólki upp á þjálfun og innsýn inn í ýmsa kima danslistarinnar og vekja þannig athygli á dansinum sem sameiningarafli. Danshöfundurinn og verkefnastjórinn Kara Hergils Valdimarsdóttir lítur við í hljóðstofu og segir okkur frá hátíðinni. Annars erum við að mestu með hugann við bókmenntir í þætti dagsins. Soffía Auður Birgisdóttir fjallar um skrif á mörkum bókmenntagreina, og tekur þar sérstaklega fyrir verk sagnfræðingsins Vals Gunnarssonar og Anna María Björnsdóttir hugar að sjö binda skáldsögu Solvej Balle, Rúmmálsreikningi, með bókmenntafræðingnum Snædísi Björnsdóttur.
Þórdís Gísladóttir hlaut í gær ljóðaverðlaunin Maístjörnuna fyrir ljóðabókina Aðlögun. Í umsögn dómnefndar segir meðal annars; Í Aðlögun er atferli nútímamannsins skoðað frá ýmsum sjónarhornum, bæði af kímni og alvöru, í fortíð og framtíð, en þó mest í þessari fremur hversdagslegu nútíð sem flest okkar kalla daglegt líf. Vinningshafinn mætir í hljóðstofu og segir okkur frá bókinni. Doktor Óskar Örn Arnórsson flytur okkur sinn fyrsta pistil í nýrri pistlaröð um arkitektúr sem hann kallar einfaldlega Arkitektúr og... og Finnur Karlsson og Björn Steinar Sólbergsson segja okkur frá frumflutningi á tónverki Finns, Sköpun, og tónleikum Kammersveitar Reykjavíkur og Kórs Hallgrímskirkju sem fara fram á sunnudag.