Þáttur fyrir áhugafólk um listir og menningu. Ljósi varpað á það sem efst er á baugi hverju sinni, menningin nær og fjær skoðuð frá ólíkum sjónarhornum og skapandi miðlar settir undir smásjána. Umsjón: Eiríkur Guðmundsson og Guðni Tómasson.

Í Víðsjá dagsins rifjum við upp þátt frá því í mars á þessu ári, þar sem við fjölluðum um myndlistarkonuna, rithöfundinn og gagnrýnandann Drífu Viðar. Þá var verið að leggja lokahönd á stóra og veglega bók um Drífu, bók sem nú hefur komið út og sem er tilnefnd til Fjöruverðlauna í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis. Þær Elísabet Gunnarsdóttir, Kristín Guðrún Jónsdóttir og Auður Aðalsteinsdóttir eru ritstjórar bókarinnar og þær eru allar viðmælendur í þættinum, auk þess sem leikin er tónlist og rifjað upp gamalt efni úr safni Ríkisútvarpsins.

Hreiðar Ingi Þorsteinsson er höfundur Jólalags Ríkisútvarpsins árið 2025. Lagið samdi hann við gamla þjóðvísu, Kerling heitir Grýla, sem birtist án tilgreinds höfundar í Stafrófskveri handa börnum, útgefnu á Akureyri, árið 1873. Hreiðar Ingi er jafnframt stjórnandi kammerkórsins Huldar, sem flytur lagið, en Huldur er óvenjulegur kór sem frumflutt hefur fjölda íslenskra kórverka á skammri ævi sinni. Hreiðar Ingi leit við í hljóðstofu fyrir frumflutninginn. Gauti Kristmannsson og Soffía Auður Birgisdóttir rýna síðustu tvær bækurnar fyrir jól, Ósmann Joachims Schmidt og Þyngsta frumefni Jóns Kalmans, en við eigum þó eftir að heyra fleiri umfjallanir um bækur eftir áramót, enda jólabókaflóðið langt í frá uppurið. En við byrjum á því að gera upp leikárið, með Trausta Ólafssyni.

Víðsjá dagsins verður undirlögð af ljóðum og tónlist, en fyrst og fremst ljóðum. Fimm höfundar sem öll hafa gefið út bók á árinu segja frá bókunum og lesa ljóð: Eiríkur Örn, Guðmundur Andri Thorsson, Móheiður Hlín Geirlaugsdóttir, Natasha S. og Sigurlín Bjarney Gísladóttir. Tónlist þáttar er sömuleiðis fengin af hljómplötu sem kom út á árinu, HIK-Translations, úr smiðju þeirra Unu Sveinbjarnardóttur og Arngerðar Maríu Árnadóttur.

Rithöfundurinn Fríða Ísberg segir útgangspunkt skáldsögunnar Huldukonunnar hafa verið klisjan og að fjörðurinn, 20.öldin, sveitarómantíkin og hið eilífa sumar hafi svo komið í eðlilegu framhaldi. En tilfinningin um klisjuna átti þó eftir að umbreytast í sköpunarferlinu og rannsóknin hafi breyst í mikla glímu, ekki síst vegna innbyggðra fordóma Fríðu sjálfrar gagnvart því hvað alvöru bókmenntir eru. Við ræðum við Fríðu í þætti dagsins um Huldukonuna, sem nýverið hreppti verðlaun bóksala sem besta skáldsaga ársins. Einnig heyrum við rýni Rögnu Sigurðardóttur í tvær sýningar í Marshallhúsinu, samsýningu 9 ungra listamanna í Kling og Bang, Frásögnin er dregin í hlé, og sýningu Helgu Páleyjar Friðþjófsdóttur í Gallerí Þulu, Í hringiðu alls. En við hefjum þáttinn á bókarýni, Gréta Sigríður Einarsdóttir rýnir í Lausaletur Þórdísar Helgadóttur.

Í jólabókaflóðinu þetta árið er að finna bók fyrir allra yngstu lesendurna sem er algjör perla. Bók sem kom fyrst út árið 1972 en hefur nú verið endurútgefin, Rauði fiskurinn eftir Rúnu. Á löngum og fjölbreyttum ferli hefur myndsköpun Rúnu fundið sér farveg innan leirlistar, bókskreytinga, málverks og hönnunar. Rúna er fædd í nóvember árið 1926 svo hún verður hundrað ára á næsta ári, en hún flutti nýverið á Hrafnistu í Hafnarfirði þangað sem Víðsjá heimsótti hana. Fyrir hver jól, frá því að hann tók við tónlistarstjórn í Breiðholtskirkju fyrir 14 árum, hefur Örn Magnússon útsett jólalög úr íslenskum tónlistararfi fyrir kór Breiðholtskirkju, hljóðfæraleikara og einsöngvara. Nú eru þessi jólalög komin út á plötu og við báðum Örn um að líta við í hljóðstofu og segja okkur nánar af tilkomu hennar. Soffía Auður Birgisdóttir rýnir í Veg allrar veraldar eftir Sigríði Hagalín

Vegur allrar veraldar, síðara bindi stórvirkis Sigríðar Hagalín um Ólöfu ríku Loftsdóttur, höfðingja og húsfreyju á Skarði, kom út fyrr í haust. Þungamiðja sögunnar er víg Björns Þorleifssonar, hirðstjóra konungs á Íslandi, sem Ólöf kona hans hefndi grimmilega, en sögunum af því ber ekki endilega saman og ekki sama hver segir frá. Af einhverjum sökum er lítið um heimildir um sögulega atburði á á 15. öld, en sú þögn sem lagðist yfir Ísland á ensku öldinni svokölluðu gefur aukið rými fyrir skáldskap. Sigríður segir okkur nánar af því þætti dagsins. Hildigunnur Sverrisdóttir flytur líka síðasta pistil af fjórum þar sem hún fjallar um samband geðheilbrigðis og arkitekurs og Gauti Kristmannsson fjallar um Andrými, kviksagnasafn Eiríks Jónssonar, sem nýverið hlaut tilnefningu til Íslensku Bókmenntaverðlaunanna.

Þórunn Valdimarsdóttir, sagnfræðingur, rithöfundur og skáld, sendi nýverið frá sér bókina Stúlka með fálka, sem hún skilgreinir sem Skáldævisögu - fullorðinsminningar til aðgreiningar frá fyrri ævibók. Þórunn á 40 ára höfundarafmæli á næsta ári en í þessu verki fer hún í gegnum störf sína og ævi en eins og hún segir sjálf í inngangi bókarinnar er „ævisaga afbragð til að skoða kjarna þess að vera maður.” Brynja Sveinsdóttir forstöðumaður Gerðarsafns kemur í þáttinn og segir frá nýbökuðum Gerðarverðlaunahafa: Sólveigu Guðmundsdóttur. Og við heyrum einnig rýni í þætti dagsins. Að þessu sinni rýnir Soffía Auður Birgisdóttir í bók Kristínar Ómarsdóttur, Móðurást: Sólmánuður.

Sigrún Pálsdóttir er gestur Víðsjár í dag og segir frá skáldsögu sinni Bláa pardusinum hljóðbók, sem hefur verið tilnefnd til bæði Fjöruverðlauna og Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Bókin segir frá þremur persónum sem allar eru að hlusta á sömu hljóðbókina, Bláa pardusinn, og sem allar upplifa söguna mjög ólíkt. Líf þessara þriggja einstaklinga fléttast svo saman á óvæntan hátt undir lok sögunnar. Innan sögu Sigrúnar eru margar sögur og einnig margir höfundar og óhætt er að segja að lesturinn opni á skemmtilegar vangaveltur um lestur og hlustun, mörk skáldskapar og sagnfræði, túlkun og stöðu höfundarins. Trausti Ólafsson rýnir í uppfærslu Óðs á La Boheme í Borgarleikhúsinu og Gauti Kristmannsson rýnir í Hlöðu Bergsveins Birgissonar.

Við Vesturós Héraðsvatna um aldamótin 1900 bjó heljarmennið Jón Magnússon sér byrgi, og þar starfaði hann í 40 ár við að ferja menn og skepnur yfir stórfljótið. Ósmann var einstakur karakter, mannvinur, veiðimaður og skáld, og saga hans vakti áhuga rithöfundarins Joachim Schmidt, sem búsettur hefur verið á Íslandi síðustu 20 ár. Joachim segir okkur af skáldsögunni Ósmann í síðari hluta þáttar. Hildigunnur Sverrisdóttir verður einnig með okkur í dag og flytur sinn þriðja pistil af fjórum um samhengi geðheilbrigðis og arkitektúrs, en við hefjum þáttinn á leikhúsinu: Katla Ársælsdóttir fór að sjá Kosmískt skítamix í Tjarnarbíói.

Ófeigur Sigurðarson lítur við í hljóðstofu, en hann þýddi nýverið smásagnasafn chileska rithöfundarins Roberto Bolaño, Putas asesinas, eða morðhórur í íslenskri þýðingu Ófeigs. Smásögurnar í safninu eru álitnar með því besta sem höfundurinn gaf frá sér og í því koma öll hans helstu einkenni og efnistök; kynferðismál, ofbeldi, ljóðlist, glötuð æska og umkomuleysi í framandi heimi. Ó eilífi foss sem rambar á fossvegum guðs er yfirskrift nýútkominnar hljómplötu og tónverks eftir Kolbein Bjarnason. Yfirskriftin er fengin úr ljóði Steinunnar Sigurðardóttur, og raunar er tónverkið allt byggt á skáldskap hennar, því Kolbeinn settist niður með 10 ljóðabækur Steinunnar sem komu út á fimmtíu ára tímabili og ákvað að velja úr þeim jafnmörg ljóð til tónsetningar. Hann segir frá ferlinu í síðari hluta þáttar, en um miðbik þáttar rýnir Gréta Sigríður Einarsdóttir í Útreiðartúrinn, eftir Rögnu Sigurðardóttur.

Við kynnum okkur nýútkomna plötu sellóleikarans og ljóðskáldsins Steinunnar Arnbjargar Stefánsdóttur, sem hún kallar Í ísbúð/Radość życia. Platan er eins konar portrett af Íslandi, sprottin úr tónleikaferð sem hún hélt í, ásamt tveimur öðrum flytjendum sem búsettir eru á Norðurlandi. ,,Einu sinni áttu öll börn á Íslandi sveit. Nú á Ísland mörg tungumál," - segir Steinunn, og útskýrir með því efnisskránna, sem er að tíunda hluta á pólsku, ásamt því að eitt lag er sungið á svahílí, völdum fulltrúa fjölda annarra tungumála. Svo fáum við einnig í heimsókn til okkar tónlistarmennina og vinina Tómas Guðna Eggertsson orgelleikara og Davíð Þór Jónsson píanóleikara. Þeir félagar hafa í mörg ár haldið tónleika í aðdraganda jólanna þar sem þeir túlka jólasálmaforleiki Bachs. Þessi kyrrðarstund fer fram í Hallgrímskirkju í hádeginu á laugardag.

Við hefjum þáttinn á því að líta út úr húsi með Henný Hafsteinsdóttur minjaverði, til að ræða Dugguvog 42, hús sem Gunnar Guðmundsson byggði fyrir G.G. hf. Húsið er hluti af listasögu borgarinnar því Gunnar fór í samstarf við enga aðra en Gerði Helgadóttur sem útfærði vegglistaverk á Dugguvog 42, innblásin af vélum og bílavarahlutum. Hilmar Örn Agnarsson, kórstjóri Söngfjelagsins, lítur við í hljóðstofu, ásamt kórfélaga og höfundi nokkurra jólalaga sem samin hafa verið sérstaklega fyrir kórinn, Hjörleifi Hjartarsyni. Tilefnið er síðstu jólatónleikar Söngfjelagsins sem Hilmar Örn stjórnar, en hann stjórnaði á tímabili 10 kórum og á að baki sérlega farsælan feril sem organisti og kórstjori. Ragna Sigurðardóttir, myndlistarrýnir Víðsjár, fjallar í dag um tvær yfirstandandi sýningar, sýningu Eggerts Péturssonar í Hafnarborg sem ber nafnið Roði og málverkasýningu Huldu Vilhjálmsdóttur í Laboutique.is á Mýrargötu í Reykjavík.

Saga myndlistar og handíðaskólans, sögur inni í sögum og utangarðssaga fólks með geðræna kvilla, - sögur af ýmsum gerðum einkenna viðfangsefni Víðsjár dagsins. Við kynnum okkur líka jóladagatal Árnastofnunar, sem einmitt inniheldur ýmsa sögulega mola, og minnumst stuttlega hins merkilega myndlistarmanns, Kristjáns Guðmundssonar, sem lést nýverið og markaði mikilvæg spor í sögu íslenskrar myndlistar. Hildigunnur Sverrisdóttir, arkitekt, færir okkur í dag sinn annan pistil í nýrri pistlaröð um samhengi geðheilbrigðis og arkitektúrs og Gauti Kristmannsson rýnir nýútkomna skáldsögu Sigrúnar Pálsdóttur, Blái pardusinn: hljóðbók. Í síðari hluta þáttar tökum við á móti sagnfræðingnum Davíð Ólafssyni, sem er annar höfundur nýrrar bókar um 60 ára skólasögu Myndlistar og handíðaskólans.

Í gallerí SÍM við Hafnarstræti 16 stendur nú yfir samsýning myndlistarkonunnar Kristínar Elvu Rögnvaldsdóttur og ljóðskáldsins Guðbjargar Guðmundsdóttur, Hvít hljóð og nokkur Ílát. Þar fá ílát sem alla jafna er hent út á heimilum landsmanna óvænt mikilvægi og teiknaðar tilfinningaveirur stökkva fram úr ljóði sem skrifað var á vökudeildinni. Kvennasagan, og götin í henni, spilar líka stórt hlutverk í nýrri skáldsögu Sifjar Sigmarsdóttur, sem Gauti Kristmannsson rýnir í í þætti dagsins, en við hefjum þáttinn með því að bjóða annan höfund velkominn í hljóðstofu. Einar Már Guðmundsson sendi nýverið frá sér skáldsöguna Allt frá hatti oní skó. Sögusviðið er níundi áratugurinn á meðal Íslendinga í Kaupmannahöfn þar sem ungur maður er að verða að skáldi og rithöfundi í heimi þar sem er ofboðsleg umferð en fá umferðarskilti - svo vísað sé til orða skáldsins.

Nýlega lék jazzgoðsögnin Wadada Leo Smith á stappfullum tónleikum í Iðnó, í lok sinnar síðustu tónleikaferðar um Evrópu eftir 60 ára feril. Wadada hefur sótt Ísland heim í nígang og haft mikil áhrif á íslensku jazzsenuna og Tumi Árnason ætlar að segja okkur af því í þætti dagsins. Við hringjum líka norður í Eyjafjörð, því þar tekur myndlistarkonan Aðalheiður Eysteinsdóttir vel á móti fólki á aðventunni og eitthvað kemur jólakötturinn þar við sögu. Auk þess fjallar Soffía Auður Birgisdóttir um nýútkomna bók Sigrúnar Ölbu Sigurðardóttur, Þegar mamma mín dó, og Sigríður Kristín Þorgrímsdóttir, sagnfræðingur, kemur í hljóðstofu, en hún sendi fyrir skömmu frá sér bókina Piparmeyjar, - Fröken Thora og saga einhleypra kvenna á Íslandi.

„Listamenn eru eins og prestar,” segir Sigurður Ámundason myndlistarmaður, sem fylgir Víðsjá út í Gróttuvita í dag. „Við fjöllum um mannlega breiskleika, samfélagið og tölum um tilfinningar. Munurinn á myndlistarmönnum og prestum er að myndlistarmenn predika ekki. Við felum alltaf það sem við erum að reyna að segja.” Sigurður sýnir um þessar mundir í vitanum og vitavarðahúsinu. Sýningin sem kallast Úthverfavirki er sú fimmta í sýningarröð LIstasafns ASÍ þar sem listamaður er valin til að sýna á tveimur stöðum á landinu. Við ræðum aðferðir hans í myndlistinni og verkin í Gróttu þar sem klassísk viðfangsefni listasögunnar birtast í samspili manns og náttúru. Sigurður hefur mikinn áhuga á þessu samspili segist stöðugt reyna að túlka samtímann í gegnum þetta samspil. Hann vill vera í núinu og forðast nostalgíuþ. Einnig ræðum við samskiptaerfiðleika mannskepnunnar en Sigurður segir mannleg samskipti vera sitt leiðarljós í myndlistinni.

Úlfar Þormóðsson kemur til okkar með nýja bók. Bókina sendi hann frá sér fyrir stuttu en til þess þurfti hann að leita til annars forlags en því sem vanalega hefur verið með hans bækur á sínum snærum. Í bókinni fjallar Úlfar um endurkomu stóra málverkafölsunarmálsins inn í íslenska umræðu; segir frá viðbrögðum sínum og tilfinningum en einnig ýmsu fleiru og sumu átakanlegu. Blaka er nýjasta hugarsmíð Ránar Flygenring, og er mögulega hennar hryllilegasta bók hingað til, þó hún hafi alls ekkert átt að vera hryllingssaga. Rán er auðvitað einn af okkar fremstu höfundum, hefur skrifað og teiknað bækur og verk af ólíkum toga. Síðasta bók hennar, Tjörnin, hlaut fjölmörg verðlaun og fyrir bókina þar á undan, Eldgos, fékk hún Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs. Rán verður gestur okkar í dag. Hildigunnur Sverrisdóttir, arkitekt og fyrrum deildarforseti arkitektúrs við Listaháskólann, var með fasta pistla hér í Víðsjá fyrir 2 árum síðan, og nú er hún mætt aftur til leiks með fjögurra pistla seríu. Nú veltir hún fyrir sér samhengi geðheilbrigðis og arkitektúrs,

Við höldum í Gallerý Þulu á sýninguna Í hringiðu alls, þar sem Helga Páley Friðþjófsdóttir sýnir ný málverk. Málverkið hefur lengi verið kjarninn í hennar listrænu nálgun, þar sem óhlutbundinn veruleiki verður til í gegnum marglaga ferli þar sem spuni, innsæi og endurtekning leika stóran þátt. En líka tíminn og auðvitað efinn. Sunna Gunnlaugsdóttir jazzpíanisti verður einnig gestur okkar í dag en Tríó hennar leikur nýtt efni í Múlanum á miðvikudag. Og Soffía Auður Birgisdóttir rýnir hún í skáldsögu Nínu Ólafsdóttur, Þú sem ert á jörðu.

Minna fer fyrir þýddum bókum en íslenskum í jólabókaflóðinu, en við ætlum að bæta úr því í þætti dagsins og fá til okkar einn af okkar færustu þýðendum í hljóðstofu, Elísu Björgu Þorsteinsdóttur. Hún þýddi nýlega skáldsögu Judith Hermann, Heima, en Hermann er einn fremsti höfundur hins þýska bókmenntaheims og mörgum íslenskum lesendum vel kunn. Katla Ársælsdóttir fór nýverið á Reykjavík Dance Festival og segir okkur af því í þætti dagsins og Ragna Sigurðardóttir, myndlistarrýnir, fjallar um tvær samsýningar: Skúlptúr skúlptúr performans í Gerðarsafni og sýninguna Safakúr í SIND Gallery. En við hefjum þáttinn á því að hringja í nýtt sýningarrými, listamannareknarýmið hafnar.space, sem staðsett er í hafnarhaus við Tryggvagötu.

Guðrún Hannesdóttir fæddist þann 18. júní árið 1944 og fagnaði því áttræðisafmæli sínu í fyrra. Hún nam listasögu í Lundi og síðar bókasafnsfræði við Háskóla Íslands, starfaði lengst af sem bókasafnsfræðingur og hafði meðal annars umsjón með bókasafni Myndlistarskólans í Reykjavík. Fyrsta ljóðabók Guðrúnar, Fléttur, kom út árið 2007, og sama ár hlaut hún Ljóðstaf Jóns úr Vör. Síðan hefur Guðrún gefið út 9 ljóðabækur til viðbótar, og nú í haust kom út hjá Dimmu eigulegt heildarsafn sem hefur að geyma fyrstu tíu ljóðabækur Guðrúnar. Guðrún skipaði sér seint á skáldabekk en segist kannski alltaf hafa hugsað á þá vegu, hún er lítillát en orð hennar vega þungt, skáldskapurinn djúpur og kjarnyrtur, tungutakið meitlað og myndmálið ríkulegt. Í ljóðum hennar birtist undrun og sannfæring um fegurð hins innsta kjarna og heilagleika náttúrunnar. Guðrún Hannesdóttir, skáld, er gestur svipmyndar í dag.

Í Glerhúsinu opnaði nýverið einkasýning Ásmundar Ásmundssonar, sem hann vann í samstarfi við ofurgreindina og myndræn verkfæri hennar. Kveikjan að verkinu er skemmdarverkið á Nord Stream 2 gasleiðslunni í september árið 2022, umfangsmiklu umhverfis og efnahagshryðjuverki sem hefur dvalið í djúpinu og undirvitundinni síðan, en Ásmundur gerir tilraun til að kalla fram með samtali við nútímavölvuna. Andri Snær Magnason er einnig gestur okkar í dag, en hann gaf nýverið út skáldsöguna Jötunstein, hárbeitta ádeilu á hið byggða umhverfi sem fær lesandann til að velta fyrir sér sambandi okkar við arkitektúr. Og meira af bókum því Gréta Sigriður Einarsdóttir rýnir líka í Staðreyndirnar, eftir Hauk Má Helgason, í þætti dagsins.

Um helgina opnaði nýtt innsetningarverk Höllu Steinunnar Stefánsdóttur, Af dularfullum röddum skelja, í Náttúrusafni Kópavogs. Tilefnið er að margrómað skeljasafn Jóns Bogasonar er þar nú aftur til sýnis. Við hlustum eftir röddum skelja í Víðsjá dagsins og heyrum líka þrettánda pistil Óskars Arnórssonar um arkitektúr, sem tileinkar þennan síðasta pistil sinn arkitektúr og fegurðinni. En við byrjum á bókmenntum því fyrir viku síðan hreppti Skáldsagan Flesh eftir bresk-ungverska höfundinn David Szalay Booker verðlaunin 2025. Árni Matthíasson segir okkur aðeins af höfundinum og bókinni, en auk þess rýnir Gauti Kristmannsson í nýútkomna skáldsögu Dags Hjartarsonar, Frumbyrjur.

Reykjavík Dance Festival hófst í gær og stendur yfir fram á sunnudag, með fjölda viðburða. Í kvöld stígur dansdúettinn Beauty and the beast, uppskálduð hljómsveit og lífstíðarsamstarf danshöfundanna Amöndu Apetrea og Höllu Ólafsdóttur, á svið Iðnó með sýningu sem þær nefna The Selkie Poetry Reading, og við tökum á þeim stöllum púlsinn. Við heyrum einnig rýni í dans í þætti dagsins, Trausti Ólafsson segir frá sinni upplifun af verkinu Flóðreka, sem ÍDF, Aðalheiður Halldórsdóttir og Jónsi úr Sigurrós frumsýndu um liðna helgi. Víðsjá hefur undanfarnar vikur ferðast með Henný Hafsteinsdóttur, minjaverði Reykjavíkur, um borgarlandslagið til að skoða áhugaverð hús sem ætti mögulega að vernda, og í dag ræða þær Halla um Ora verksmiðjuna í Kársnesi.

Ingi Garðar Erlendsson básúnuleikari, tónskáld, kennari og Reykvíkingur ársins, brennur fyrir tónlistarkennslu. Sjálfum var honum rétt básúna í tónlistarskóla Keflavíkur þegar hann var tíu ára, hljóðfæri sem hefur fylgt honum síðan. Hann lærði kennslu, tónsmíðar og hljóðfræði í Reykjavík og Den Haag, og hljóðfæraviðgerðir í Wales. Ingi Garðar stofnaði ásamt félögum sínum Slátur, samtök listrænt ágengra tónsmiða umhverfis Reykjavík, og hefur alla tíð verið hluti af hinni tilraunakenndu jaðarsenu þó hann hafi komið mjög víða við í íslensku tónlistarlífi, bæði sem höfundur og útsetjari. Nýverið hlaut hann íslensku menntaverðlaunin, fyrir afar árangursríkt starf með skólahljómsveit Vesturbæjar og Miðbæjar, en sem stjórnandi hljómsveitarinnar hefur hann komið nemendum sínum í allskyns ólík verkefni tengd hljómsveitum og leikhúsum. Í Víðsjá dagsins segir Ingi Garðar frá sinni eigin leið í tónlistinni og óbifandi trú á skapandi mætti og samfélagslegu afli hennar.

Við hefjum þáttinn á því að hringja til Danmerkur og kynna okkur bók sem var að koma út hjá Angústúru, skáldsöguna Maðurinn í skiltinu eftir chileska rithöfundinn María Jose Ferrada. Jón Hallur Stefánsson þýddi og segir frá höfundi og verki. Einnig fjallar Óskar Arnórsson fjallar um tengsl arkitektúrs og kapítalisma og Ásgeir Ásgeirsson segir frá heimi tyrkneskrar ottóman tónlistar.

Frá ómi til hljóms kallast heimildamynd eftir Ásdísi Thoroddsen sem nú er í sýningu í Bíó Paradís. Tónlistin á dögum Sveins Þórarinssonar amtskrifara er undirtitill kvikmyndarinnar en hún fjallar um þá miklu byltingu sem átti sér stað í tónlistarlífi landsins á 19.öldinni. Katla Ársælsdóttir rýnir í leikgerð Kolfinnu Nikulásdóttur á Hamlet Shakespears, sem frumsýnd var nýverið á litla sviði Borgarleikhússins. En við byrjum á myndlist, því um liðna helgi opnaði í Gallery Porti einkasýning Þórðar Hans Baldurssonar, Land til sölu, sem samanstendur af flosmyndum af íslensku landslagi. Fyrirmyndir verkanna eru fundnar ljósmyndir ferðamanna sem Þórður Hans sótti á internetinu. Við litum við í galleríinu fyrir helgi.

Á laugardag frumsýnir Íslenski dansflokkurinn glænýtt verk, Flóðreka, á Nýja sviði Borgarleikhússins. Flóðreka sprettur upp úr samstarfi danshöfundarins Aðalheiðar Halldórsdóttur, Jónsa úr Sigur Rós og ÍD, en verkið er innblásið af rómaðri sýningu Jónsa, Flóði, sem sýnd var í Listasafni Reykjavíkur á síðasta ári. Við stígum inn í heim náttúruaflanna með danshöfundinum, Aðalheiði Halldórsdóttur, í þætti dagsins. Myndlistarpistill Rögnu Sigurðardóttur tengist líka náttúruöflunum, en að þessu sinni fjallar hún um tvær sýningar á Sequences, samsýningu í Norræna húsinu og sýningu Írisar Maríu Leifsdóttur í Listasal Mosfellsbæjar, Veðruð verk, Við kynnum okkur líka nýtt útilistaverk við Gömlu höfnina í Reykjavík, sem valið var úr fjölda innsendra tillaga í samkeppni á vegum Faxaflóahafna. Verkið heitir Tíðir og er eftir myndlistarmanninn Huldu Rós Guðnadóttur, fornleifafræðinginn Gísla Pálsson og arkitektinn Hildigunni Sverrisdóttur.

Þegar Sóley Stefánsdóttir þreytist á því að semja á píanóið, með sína jöfnu stillingu og fyrirframgefnu ramma, tekur hún upp harmónikkuna, sem andar inn og út og krefst þess að hugsað sé í hendingum. Hún hefur á eftirtektarverðum ferli flysjað af sér íhaldsamari hluta tónlistaruppeldisins en nýtt sér þá gagnlegri til að draga fram einstaka rödd, sitt eigið djúphugsaða tónlistartungumál sem segir heildstæðar sögur. Árið 2021 var Sóley tilnefnd til tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs fyrir fjórðu breiðskífu sína, Mother melancholia. Platan er sveipuð feminískri ádeilu á feðraveldið, og Sóley hefur í verkum sínum verið óhrædd við að nálgast slík og skyld málefni. Hún var lengi vel formaður Kíton, félags kvenna í tónlist, og hefur unnið að fjölbreyttum verkefnum á sviði tónlistar, allt frá klassískum verkum til popptónlistar, tónlist fyrir kvikmyndir og leikhús og við gerð glænýrrar hljóðfæralínu fyrir börn í samstarfi við hönnunarteymið ÞYKJÓ. Sóley Stefánsdóttir er nýskipaður staðarlistamaður Salarins í Kópavogi og gestur svipmyndar í Víðsjá dagsins.

Tónlistarfræðingurinn Árni Heimir Ingólfsson lítur við í hljóðstofu til að segja okkur af nýútkominni bók, Syng mín sál, sem inniheldur 40 lög úr íslenskum handritunum. Lögin hafa mörg hver aldrei verið gefin út áður og önnur eru í nýjum útsetningum eða raddsetningum sem byggja á áratuga rannsóknarvinnu Árna Heimis. Dansverkstæðið við Hjarðarhaga er heimili dansins á Íslandi og hjarta sjálfstæðu danssenunnar. Í vetur verður þar boðið upp á danssýningar í hverjum mánuði með því markmiði að efla danslistina og setja samtímadans á kortið í menningarlífi borgarinnar. Við hittum Valgerði Rúnarsdóttur á Dansverkstæðinu, en hún frumsýnir Dansgenið, fyrstu sýningu vetrarins, annað kvöld. Gréta Sigríður Einarsdóttir verður einnig með okkur í dag, og rýnir í nýjustu skáldsögu Nönnu Rögnvaldsdóttur, Mín er hefndin.

Á dögunum kom út skáldsagan Allt sem við hefðum getað orðið, eftir rithöfundinn og blaðakonuna Sif Sigmarsdóttur. Aðalpersónur sögunnar eru þrjár konur af ólíkri kynslóð sem hver um sig horfist í augu við eigið val og drauma í lífinu. Sagan er að nokkru byggð á ævi Annie Leifs, fyrstu eiginkonu Jóns Leifs, en Sif kemur í hljóðstofu og segir okkur nánar af bókinni. Þess utan verðum við með hugann við arkitektúr í þætti dagsins. Við heimsækjum nýja félagsbústaði við Háteigsveg og ræðum þar við Arnhildi Pálmadóttur, arkitekt, en húsið er tilnefnt til hönnunarverðlauna Íslands sem verða afhent á fimmtudag. Óskar Arnórsson flytur auk þess sinn ellefta pistil um arkitektúr og fjallar að þessu sinni um arkitektúr og heilsu.

Í tilefni af degi hinna dauðu og hrekkjavöku framundan opnar Víðsjá glugga inn í fortíðina og hugarheim konu sem steig árið 1898 inn í nýstofnaðan holdsveikraspítala í Laugarnesi og orti þar dýrmætan kveðskap við lok langrar sjúkdómsgöngu. Kvæðasafn Kristínar Guðmundsdóttur, píslarskálds, er eins og smámynd af Holdsveikraspítalanum, en gefur líka ómetanlega sýn inn í hugðarefni og lífssýn Kristínar. Guðrún Ingólfsdóttir, bókmenntafræðingur, segir okkur frá henni í þætti dagsins. Tumi Árnason rýnir í sínum hálfsmánaðarlega tónlistarpistli í nýja plötu Ómars Guðjónssonar, en við hefjum þáttinn á því að kynna okkur bók sem var að hreppa bókmenntaverðlaun Færeyja, skáldsöguna Marta, Marta, eftir Marjun Syderbø Kjelnæs. Bókin kom nýverið út hjá Uglu forlagi í þýðingu Hjálmars Waag Árnasonar, sem lítur við í hljóðstofu.

„Fyrir mér er kóreógrafía allt sem hefur að gera með tíma og rými. Að setja hluti saman í tíma og rými, og hvernig þeir hreyfast og flæða,“ segir Rósa Ómarsdóttir danshöfundur, sem hefur teygt hugtakið kóreógrafíu yfir á meira en mannslíkamann í sínum verkum. Rósa lærði dans í Listaháskólanum en fór í framhaldsnám til Brussel þar sem hún lærði hversu teygjanlegt danshugtakið er. Eitt ár varð að tíu enda gott að vera dansari í Belgíu. Rósa er höfundur sem vinnur á mörkunum. Verk hennar afmá línurnar á milli dans, leikhúss og myndlistar. Hún hefur kannað samband manns og náttúru í verkum sínum og leitast við að skapa ómannhverfar frásagnir, oft með femínískri dramatúrgíu. Hún hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir dansinn, en líka tónlist og sviðsmynd, nú síðast í fyrra sem danshöfundur ársins fyrir Moltu sem sýnt var í Gerðarsafni. Hún frumsýnir nýtt verk á Reykjavík Dance Festival sem kallast Sérstæðan, en í því hefur hún tekið mannslíkamann alveg úr verkinu. Rósa Ómarsdóttir er gestur Svipmyndar í Víðsjá dagsins.

„Ef við ætlum að reyna að skilja byggingarlistina hérna þá verðum við að horfa á húsið með blöndu af röntgen gleraugum og ímyndunarafli og reyna að skræla okkur inn að kjarnanum,” segir Henný Hafsteinsdóttir minjavörður Reykjavíkur, um bensínstöðina sem enn stendur við Ægissíðu 102. Þeir Guðmundur Kr. Kristinsson og Ferdinand Alfreðsson teiknuðu bygginguna sem var tekin í notkun 1978 og sem þykir vera ein af gersemum síðmódernismans. Lengi vel var á dagskrá að rífa bygginguna en í dag er óvíst hvort og þá hvernig hún muni standa áfram. Við hittum Henný við bygginguna í þætti dagsins. Birgitta Björg Guðmarsdóttir lítur við og segir frá nýrri ljóðabók sem hún er að senda frá sér og nefnist Draugamandarínur og Trausti Ólafsson rýnir í Íbúð 10B

Gerla tekur á móti Víðsjá í Glerhúsinu í þætti dagsins. Á sýningunni Þær sækir listakonan innblástur í menningararf kvenna frá upphafi síðustu aldar þar sem persónuleg og pólitísk reynsla fléttast saman í textíl, minni og efni. Tímasetning sýningarinnar er ekki háð tilviljun, heldur talar hún við hálfrar aldar afmæli kvennaverfallsins. Gerla segir okkur frá sinni leið í textílinn sem er samofin kvennabaráttunni, tilurð verkanna og mikilvægi listaverka sem voru lengi vel ekki metin sem slík. Að gefnu tilefni rýnir Tómas Ævar einnig í kafla úr ævisögu Bruce Springsteen, en kvikmynd byggð á ævi kappans er væntanleg og Gauti Kristmannsson fjallar um Goethe og formtilraunir hans í Nóvellu og Ævintýri.

Við lítum inn á sýningu í Duus safnahúsunum í Reykjanesbæ sem tileinkuð er lífi og störfum Ástu Árnadóttur, eða Ástu málara. Ásta vildi ekki verða vinnukona heldur vera sjálfstæð og fá atvinnu sem væri arðbær til jafns við það sem þekktist hjá körlum. Hún lauk prófi í málaraiðn árið 1907 og var þar með fyrsta íslenska konan til að taka próf í iðngrein. Þremur árum síðar hlaut hún meistarabréf í iðninni, fyrst kvenna og fyrst Íslendinga. Við hittum líka Völu Gestsdóttur, sem á opnunarverk raftónlistarhátíðarinnar Erkitíðar. Vala er í grunninn víóluleikari en hefur í seinni tíð snúið sér að tónheilun og sköpun tónlistar með hljóðfærum hugleiðslutónlistarinnar. Um miðbik þáttar fjallar Ragna Sigurðdardóttir um yfirstandandi yfirlitssýningu á verkum Steinu Vasulka, Tímaflakk.

Þegar Sverrir Guðjónsson fékk ungur hlutverk í söngleik í Þjóðleikhúsinu sem krafðist þess að hann syngi á óvenju háu raddsviði fann hann að hann varð að elta þann tón. Í kjölfarið fór hann til Bretlands til að tileinka sér tæknina og er í dag eini menntaði kontratenórsöngvari landsins. Sverrir hóf ferilinn sem barnastjarna í hljómsveit föður síns og söng í danshljómsveitum, kórum, þjóðlagasveitum og leiksýningum, áður en hann lagði fyrir sig kontratenórsöng og sérhæfði sig bæði í gamalli tónlist og nýrri. Fyrir hans tilstilli hefur orðið til fjöldi nýrra tónverka, oftar en ekki samin sérstaklega fyrir Sverri og hans einstaka raddsvið. Sjálfur hefur hann líka átt við tónsmíðar og unnið tónlist með fjölbreyttri flóru listamanna um heim allan. Sverrir Guðjónsson er gestur svipmyndar í Víðsjá dagsins.

Selma Guðmundsdóttir, píanóleikari og formaður Wagnerfélagsins í 30 ár er gestur Víðsjár í dag. Tilefnið er ærið því framundan eru tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands þar sem Wagner verður fluttur, frumsýning á Niflungahring Hunds í óskilum í Borgarleikhúsinu og tónleikar Wagner félagsins, Wagnerraddir, í samstarfi við Óperudaga. Við ræðum við Selmu um margfræga uppfærslu á Hringnum á Listahátíð 1995 og tengsl Wagners við Ísland. En einnig félagið, Bayreuth-hátíðina og flókið samband Wagner aðdáenda við tónskáldið vegna tengsla Wagner fjölskyldunnar við nasista. Atli Ingólfsson og Hanna Dóra Sturludóttir heimsækja einnig þáttinn og segja frá tónleikhúsverki um íslensk þjóðlög sem sýnt verður í Duus safnahúsi Reykjanesbæjar næstkomandi sunnudag.

Bókmenntafræðingurinn Aðalheiður Guðmundsdóttir hefur rannsakað sérstaklega hlutverk vetrarins og myrkursins í íslenskum ævintýrum. Í grein í nýjasta tölublaði Ritsins setur hún ævintýrin í samhengi við líf og lífsskilyrði Íslendinga áður fyrr og skoðar myrkrið og birtingarmyndir þess, sem gegnir að hennar sögn lykilhlutverki, ekki síst vegna þess að myrkrið kallar á andstæðu sína, ljósið, eða vonina. Ný íslensk ópera verður frumflutt í Hörpu um næstu helgi, Ragnarök eftir Helga R. Ingvarsson. Uppfærslan er hluti af Óperudögum og er flutt í samstarfi við Kammeróperuna. Í verkinu kynnumst við ásunum og sjáum hvernig hroki þeirra, lygar og hégómi leiðir til dauða þeirra í loka bardaganum, Ragnarökum. Helgi lítur við í hljóðstofu í þætti dagsins Gauti Kristmannsson verður líka með okkur og rýnir að þessu sinni í þýðingu Móheiðar Geirlaugsdóttur á ljóðabókinni Ariel, eftir Sylvíu Plath.

Við kynnum okkur einn af fjölmörgum viðburðum Sequences hátíðarinnar í þætti dagsins, þátttökugjörninginn Ég er hjarta sem slær í heiminum, sem fer fram í náttúrulaugunum í Hvammsvík á laugardagskvöld. Gjörningurinn sameinar, að sögn aðstandenda, tónleika, dans, flot og snertingu þar sem áhorfendur eru virkir þátttakendur. Tumi Árnason verður einnig með okkur í dag, og segir frá sinni upplifun af State of the Art tónlistarhátíðinni, sem fór fram dagana 7-11 október, og Gréta Sigríður Einarsdóttir rýnir í nýútkomna ljóðabók Sunnu Dísar Másdóttur, Postulín. En við hefjum þáttinn á að kynna okkur viðburð sem hverfist um stutta bókmenntatexta, hvort sem það eru örsögur, smáprósar, prósaljóð eða hvað annað. Viðburðurinn kallast Kvöldstund með smávinum og er haldinn á vegum Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur og STUTT, rannsóknastofu í smásögum og styttri textum. Kristín Guðrún Jónsdóttir, prófessor í spænsku er önnur þeirra sem heldur utan um verkefnið, og hún heimsækir okkur í hljóðstofu í upphafi þáttar.

Matthías Rúnar Sigurðsson myndhöggvari er fæddur í Reykjavík 1988. Sem barn sat hann mikið við eldhúsborðið og teiknaði en það var eftir að hann hóf nám í Listaháskólanum sem hann fór að höggva í stein. Þrívíddinn kallaði og sökum peningaleysis ákvað hann að höggva í alveg ókeypis stein. Úr grjótinu sem hann vinnur spretta sögur og líf sem taka á sig alls kyns form en Matthías sækir fyrst og fremst innblástur í íslenskan bókmenntaarf. Frá útskrift hefur hann sýnt víða og höggmyndir hans má finna í helstu söfnum landsins. Þessa dagana vinnur hann að nýju útilistaverki fyrir Listasafn Reykjavíkur, verk sem prýða mun Urðartorg í Úlfarsárdal. Víðsjá heimsækir Matthías á vinnustofuna í þætti dagsins.

Ertu búinn að vera að reyna að ná í mig kallast ný ópera eftir Guðmund Stein Gunnarsson sem verður sýnd á Óperudögum. Leikstjóri er Sigríður Ásta Olgeirsdóttir en Heiða Árnadóttir fer með aðal og eina hlutverkið, en hún leikur margar persónur. Allar persónur verksins eru einar og einmana og segist Guðmundur reyna að kanna í verkinu hvort að samskipti séu yfir höfuð möguleg. Guðmundur Steinn og Heiða verða gestir okkar í dag. Katla Ársælsdóttir segir frá Dublin Finge leiklistarhátíðinni og Dalrún Kaldakvísl flytur pistil um ráðskonur fyrri alda.

Ólöf Arnalds verður gestur okkar í dag. Tilefnið er væntanleg plata, hennar fimmta breiðskífa, sem hefur fengið titilinn Spíra. Það er rúmur áratugur frá því að ólöf gaf síðast út plötu, en fyrir því eru ýmsar ástæður. Katla Ársælsdóttir rýnir í Skammarþríhyrninginn, verk sem leikhópurinn Stertabenda frumsýndi í Borgarleikhúsinu í síðustu viku. En við hefjum þáttinn á því að líta til veðurs og heyra af sýningunni Vendipunktur sem stendur nú yfir í Vatnasafninu á Stykkishólmi.