Um litróf mannlífsins. Umsjón: Guðrún Gunnarsdóttir og Gunnar Hansson.

Á fyrsta degi ársins 2026 munu þrjátíu íslensk skáld standa fyrir óslitinni ljóðadagskrá, Árljóðum, frá sólarupprás til sólarlags. Þetta verður níunda árið sem dagskráin fer fram, og í þetta sinn í Hljómskálanum. Þar munu skáldin lesa, kveða og þylja meðan lesbjart er frá kl.10 að morgni 1. janúar. Tveir fulltrúar skáldanna og sýningarstjórar viðburðarins, Ragnar Helgi Ólafsson og Kristín Ómarsdóttir, komu í þáttinn og sögðu okkur betur frá. Við heyrðum svo seinni hluta örsagna Blekfjelagsins, félags meistaranema í ritlist en árlega kemur út bók fyrir jólin sem heitir einfaldlega jólabókin. Þetta er í fjórtanda sinn sem jólabókin kemur út, sú fyrsta kom árið 2012 og þá máttu sögurnar einungis innihalda 100 orð. Á hverju ári fækkar orðunum um eitt og fyrir vikið mega sögurnar einungis innihalda 87 orð. Í ár er þemað „kyngja“, og samanstendur bókin af smásögum og ljóðum eftir 17 höfunda. Við heyrðum fyrri hluta örsagnanna í gær og í dag var seinni hlutinn fluttur. Höfundar sagnanna í dag voru Katrín Mixa, Ágúst Elí Ásgeirsson, Elías Knörr, Arnhildur Hálfdánardóttir, Birta Svavarsdóttir, Margrét Seema Takyar, Sólveig Hauksdóttir og Sunna Kristín Hilmarsdóttir. Svo fengum við í dag síðustu Heilsuvakt ársins með Helgu Arnardóttur. Júlía Þorvaldsdóttir gaf sjálfri sér í fimmtugsafmælisgjöf að klára hálfan járnkarl í október síðastliðnum. Keppnin fór fram í Portúgal og fól í sér ótrúlegan fjölda kílómetra í þremur greinum, þ.e. hlaupi, sundi og á hjóli. Júlía hafði ekki keppt í íþrótt síðan hún var 12 ára eða hlaupið í 35 ár. Júlíu tókst hins vegar að klára þetta mikla afrek. Við heyrðum fyrri hlutann af þeirra spjalli í dag en seinni hlutinn verður fluttur í næstu Heilsuvakt 13.janúar. Tónlist í þættinum: Ferðalangur til framtíðar / Stefán Hilmarsson (Stefán Örn Gunnlaugsson, texti Friðrik G. Sturluson) June in January / Dean Martin (Leo Robin & Ralph Rainger) UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

Saxófón- og klarínettleikarinn, tónskáldið og útsetjarinn Haukur Gröndal fagnar 50 ára afmæli með stórtónleikum í Norðurljósasal Hörpu annað kvöld. Haukur á að baki yfir þrjátíu ára feril í íslensku og alþjóðlegu tónlistarlífi, þar sem hann hefur skapað sér einstakan sess fyrir frumlega rödd. Við fórum aðeins með honum yfir ferilinn í dag og hann sagði okkur frá tónleikunum. Blekfjelagið er félag meistaranema í ritlist og árlega kemur út bók fyrir jólin sem heitir einfaldlega jólabókin. Þetta er í fjórtanda sinn sem jólabókin kemur út, sú fyrsta kom árið 2012 og þá máttu sögurnar einungis innihalda 100 orð auk titils. Á hverju ári fækkar orðunum um eitt og fyrir vikið mega sögurnar í ár einungis innihalda 87 orð. Í ár er þemað "Kyngja", og samanstendur bókin af örsögum og ljóðum eftir 17 höfunda. Undanfarin ár hafa þau komið í Mannlega þáttinn og lesið upp verkin sín og svo er einnig í ár. Við heyrðum fyrri hluta örsagnanna í dag og svo verður seinni hlutinn á dagskrá í þættinum á morgun. Höfundar í fyrri hluta: Móeiður Helgadóttir, Sigurlína Hermannsdóttir, Sturla Óskarsson, Ásta H. Ólafsdóttir, Jóhannes Árnason, Áslaug Ýr Hjartardóttir, Inga Maren Rúnarsdóttir, Lovísa Rut Kristjánsdóttir og Vala Hauks. Svo fengum við Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafa, sem hefur leitt okkur í gegnum mannlegu samskiptin á fimmtudögum í þættinum, enda geta samskipti verið afar flókin. Nú eru að koma áramót og því skoðaði Valdimar ýmislegt sem kemur upp á slíkum tímamótum og hvernig getur verið gott að snúa sér. Tónlist í þættinum: Þá komu jólin / Sigurður Guðmundsson og Memfismafían (Roy Orbison og Joe Melson, texti Bragi Valdimar Skúlason) A Trip to Florina / Byzantine Silhouette (Byzantine Silhouette) Better Than Snow / Laufey og Norah Jones (Laufey & Norah Jones) Fairytale of New York / The Pogues & Kirsty McColl (Jem Finer & Shane MacGowan) UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra og formaður Viðreisnar var gestur okkar þennan aðfangadagsmorgun. Við töluðum þó ekki við hana um stjórnmál í dag, þess í stað töluðum við um jólin og hátíðirnar. Við rifjuðum upp jólahald á hennar æskuheimili, jólahefðirnar og jólamatinn og hvað af því hún tók með sér í jólahaldið með eiginmanni og börnum. Þorgerður og fjölskylda bjuggu til dæmis erlendis í mörg ár og héldu jólin nokkrum sinnum erlendis. Svo var ekki hægt að komast hjá því að ræða um handbolta, enda er hann fyrirferðamikill á heimili þeirra og framundan er evrópumeistaramót landsliða þar sem sonur hennar Gísli Þorgeir verður í eldlínunni. Jól, matur og handbolti með Þorgerði Katrínu í dag. Og svo ákváðum við að hafa matarspjallið í dag þar sem það verður ekki þáttur á föstudaginn og maturinn er auðvitað ómissandi hluti af jólunum og þá ekki síst sósurnar. Í dag voru það sem sagt aðallega sósur sem áttu sviðið í matarspjallinu með Sigurlaugu Margréti. Tónlist í þættinum í dag: Yfir fannhvíta jörð / Pálmi Gunnars (Miller & Wells, texti Ólafur Gaukur Þórhallsson) Notalegt / Sigurður Guðmundsson og Sigríður Thorlacius (Sigurður Guðmundsson) UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

Máni Svavarsson er höfundur tónlistarinnar í Latabæ og nú loks eru öll 100 lögin sem hann samdi fyrir hin ýmsu Latabæjarverkefni komin á tónlistarveitur. Við fórum aðeins með Mána yfir þessa sögu ásamt því að heyra af öðrum verkefnum eins og leiksýningu um Gurru Grís (Peppa Pig) sem sýnd hefur verið til dæmis á West End í átta ár fyrir jólin en Máni samdi tónlistina við þessa sýninguna. Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur kom svo í veðurspjall til okkar í dag. Í þetta sinn var það jólaspáin og jólaveður í löndunum í kring um okkur. Rennur upp hlýjasti aðfangadagur í manna minnum á Íslandi? Og svo fræddi Einar okkur um ástæður landbrotsins við Vík og horfur á sjógangi þar næstu daga. Lesandi vikunnar í Mannlega þættinum í þetta sinn var Kristrún Halla Helgadóttir, sagnfræðingur hjá Íslenskri erfðagreiningu. Við fengum að vita hvaða bækur hún hefur verið að lesa undanfarið og hvaða bækur og höfundar hafa haft mest áhrif á hana í gegnum tíðina. Kristrún talaði um eftirfarandi bækur og höfunda: Dagur þjóðar. Þróun 17. júní hátíðarhalda á 19. og 20 öld e. Pál Björnsson. Ósmann e. Joachim B. Schmidt. Persepólís e. Marjane Satrapi. Mzungu e. Þórunni Rakel Gylfadóttur og Simon Okoth Aora Svo á jörðu, e. Nínu Ólafsdóttur. Strá fyrir straumi e. Erlu Huldu Halldórsdóttur Afleggjarinn e. Auði Övu Ólafsdóttur Skáldsaga um Jón & hans rituðu bréf til barnshafandi konu sinnar þá hann dvaldi í helli yfir vetur & undirbjó komu hennar & nýrra tíma e. Ófeig Sigurðsson Tónlist í þættinum: Þorláksmessukvöld / Ragnhildur Gísladóttir (Mel Tormé & Robert Wells, texti Þorsteinn Eggertsson) Litla Jólabarn / Elly Vilhjálms (Elith Worsing, Ludvig Brandstrup og Axel Andreasen, texti Ómar Ragnarsson) Jólin eru hér / Sigurður Guðmundsson og Memfismafían (Sigurður Halldór Guðmundsson texti Bragi Valdimar Skúlason) Hin fyrstu jól / Hljómeyki (Ingibjörg Þorbergs, texti Kristján frá Djúpalæk) UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

Hrefna Hallgrímsdóttir leikkona var föstudagsgesturinn hjá okkur í þetta sinn. Hrefna fer með eitt aðalhlutverkanna í sjónvarpsþáttunum um Felix og Klöru sem sýndir voru hér á RÚV við miklar vinsældir en Hrefna lék dóttur þeirra hjóna. Hrefna er þó þekktari sem Skrítla í tvíeykinu Skoppa og Skrítla sem hún og Linda Ásgeirsdóttir hafa glatt íslensk börn með í rúm 20 ár. Þegar Hrefna nam jákvæða sálfræði í háskóla nýlega og komst að því að svo sannarlega hafa þær stöllur haft jákvæð áhrif á börn. Við fórum með Hrefnu aftur í tímann í æskuna, hún sagði frá því þegar bróðir hennar veiktist alvarlega mjög ungur að aldri og þau áhrif sem það hafði á hana og alla fjölskylduna. Svo var það dansinn og leiklistin, en hún fór í leiklistarnám í Flórída og vann svo í New York, meðal annars í dýragarðinum. Matarspjallið með Sigurlaugu Margréti var svo auðvitað á sínum stað og í dag var það kæfan sem átti sviðið. Sigurlaug hringdi í Sólveigu Ólafsdóttur, sem sagði okkur frá kindakæfugerð í æsku, þar sem bleyjupottur kom við sögu, svo voru alls konar kæfur ræddar frá öllum sjónarhornum í framhaldi af spjallinu við Sólveigu. Tónlist í þættinum í dag: Hinsegin jólatré / Bogomil Font (Cathy Linn, texti Sigtryggur Baldursson) Sky Full of Stars / Coldplay (Avicii, Chris Martin, Guy Berryman, Jonny Buckland & Will Champion) Driving Home for Christmas / Chris Rea (Chris Rea) UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

Við helltum okkur í sælkera- og hátíðarmatarspjall í dag með sérfræðingi. Hinrik Örn Lárusson er einn færasti matreiðslumaður landsins. Hann er nánast alinn upp í atvinnueldhúsi, en fjölskylda hans rak Hótel Heklu og hann tók sínar fyrstu kokkavaktir sem nemi 15 ára á Hótel Sögu. Hann hefur keppt fyrir hönd Íslands var matreiðslumaður ársins á íslandi 2024 og vann evrópukeppnina 2025. Í dag rekur hann með félögum sínum Sælkerabúðina, Lux veitingar og nýja veitingastaðinn Brasa í Turninum á Smáratorgi. Við ræddum við Hinrik um hátíðarmatinn, hvernig á að hantera hinar ýmsu tegundir kjöts, sósurnar og bara ýmislegt sem viðkemur hátíðarmatnum. Svo voru það mannlegu samskiptin með Valdimari Þór Svavarssyni ráðgjafa. Í dag ræddi hann við okkur um tilfinningalífið í aðdraganda jóla. Jólin eiga auðvitað að vera tími ljóss og friðar og er það vonandi hjá sem flestum. En það er ekki fram hjá því litið að þau geta líka reynst öðrum erfið, af ýmsum ástæðum. Valdimar Þór fór með okkur yfir þetta í dag. Tónlist í þættinum í dag: Jólin með þér / Ragnheiður Gröndal (Ragnheiður Gröndal) Himnasending / Eivör Pálsdóttir og Stefán Hilmarsson (Odd Norstoga, texti Kristján Hreinsson) Aðfangadagskvöld / Helga Möller (Gunnar Þórðarson, texti Þorsteinn Eggertsson) UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, hagfræðingur BSRB og Steinunn Bragadóttir, hagfræðingur hjá ASÍ hafa reglulega skrifað greinar í fjölmiðla á kvennaárinu 2025 og í nýjustu grein þeirra, sem birtist á vísi.is undir fyrirsögninni Ólaunuð vinna kvenna, tala þær um könnun sem Varða, Rannsóknastofnun vinnumarkaðarins, gerði í sumar meðal félagsfólks stéttarfélaga innan ASÍ og BSRB. Þar voru kynntar niðurstöður um skiptingu ólaunaðrar vinnu á heimilum sambúðarfólks, bæði svokallaðrar annarrar vaktar og þriðju vaktar. Það sé áhyggjuefni að karlar taki hlutfallslega miklu styttra fæðingarorlof en konur, og að konur dragi oftar úr vinnu til að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla. Sigríður og Steinunn komu í þáttinn í dag. Sölufélag garðyrkjumanna hefur undanfarin ár valið ræktendur ársins innan sinna raða. Hjónin Inga Sigríður Snorradóttir og Óli Finnsson á garðyrkjustöðinni Heiðmörk í Laugarási hlutu þennan heiður árið 2023 og í ár fengu þau hvatningarverðlaun sölufélagsins. Fjölskyldan flutti árið 2021 úr Grafarvogi í Laugarás í Bláskógarbyggð eftir að hafa fest kaup á garðyrkjustöðinni Heiðmörk. Við slógum á þráðinn austur fyrir fjall og ræddum við hjónin í dag. Er ekki allt í lagi heima hjá þér er heimildaleikhúsverk um fjórar manneskjur sem allar ólust upp hjá móður með alvarlegan geðsjúkdóm. Verkið verður flutt í útvarpinu á Rás 1 annan í jólum kl.17. Við fengum Evu Rún Snorradóttur, leikstjóra og handritshöfund og Ragnar Ísleif Bragason, einn fjögurra þáttakenda í verkinu, til að segja okkur betur frá verkinu. Tónlist í þættinum í dag: Af álfum / Friðrik Ómar og Margrét Eir (Karl Olgeirsson) Undrastjarnan / Hljómar (lagahöfundur ókunnur, texti Rúnar Júlíusson) Den store stjerna / Sissel Kyrkebö og Bergen Fílharmóníusveit (Svein Gundersen & Trygve Hoff) It's Beginning to Look a lot Like Christmas / Björgvin Halldórsson (Meredith Wilson) UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

Við vorum á hjálparstarfsnótum í þættinum í dag. Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri Samhjálpar og Hrönn Svansdóttir framkvæmdastjóri ABC barnahjálpar komu til okkar. Við töluðum við þær um starfsemi Samhjálpar g ABC barnahjálpar, mikilvægi sjálfboðaliða og það hversu mikilvægt er að gefa af sér og kenna börnunum okkar samkennd. Svo var það Heilsuvaktin með Helgu Arnardóttur. Að þessu sinni ræddi Helga við Axel Finn Sigurðsson hjartalækni en þessi umfjöllun er miðuð að karlmönnum um og yfir fimmtugt. Axel ræddi þó í þetta sinn ekki um háþrýsting og ofþyngd sem auðvitað geta valdið kransæða- og hjartasjúkdómum heldur aðra þætti sem einnig hafa mikil áhrif þegar kemur að hjartaheilsu eins og t.d. félagsleg einangrun. Hann ræddi um svokallaða D-týpu karlmanna sem einangra sig gjarnan frá vinum og vandamönnum, miklu frekar en konur, og telja sig ekki hafa þörf fyrir þá, byrgja inni tilfinningar og vanlíðan, þjást mögulega af þunglyndi og leita í áfengi til að losa um streitu. Tónlist í þættinum í dag: Anda inn / Heimilistónar (Katla Margrét Þorgeirsdóttir) Ég þarf enga gjöf í ár / Lón (Ásgeir Aðalsteinsson, Ómar Guðjónsson og Valdimar Guðmundsson) I'll be Home for Christmas / Dean Martin & Scarlett Johansson (Ram, Gannon & Kent) UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

Mál málanna, gervigreindin, var til umfjöllunnar hjá okkur í dag. Hvernig getur gervigreindin nýst okkur í daglegu lífi og hvernig eigum við að spyrja? Það er nefnilega ekki sama hvernig við spyrjum gervigreindina spurninga og við eigum að fara varlega í að láta hana fá persónulegar upplýsingar. Það er ekki hægt að stóla 100% á svörin sem við fáum, því gervigreindin kann ekki að svara „Ég veit ekki“ og getur tekið uppá því að bulla eitthvað frekar. En hvernig er þá best að snúa sér í þessu? Pétur Már Sigurðsson, forritari og sérfræðingur í innleiðingu og þróun gervigreindarlausna spjallaði við okkur í dag. Við spiluðum í síðustu viku jólalagið Sleðaferð í flutningi Skapta Ólafssonar en lagið heitir á frummálinu Sleigh Ride og er eitt frægasta jólalag allra tíma. Við fengum í kjölfarið ábendingu frá hlustanda um að höfundur lagsins, Leroy Anderson, ætti tengingu við Ísland. Það reyndist rétt, Jón Múli Árnason útvarps- og tónlistarmaður komst í kynni við Anderson á meðan sá síðarnefndi gegndi herþjónustu hér á landi. Jón Múli hafði meira að segja tilgátu um að Anderson hefði samið lagið á Íslandi á hernámsárunum. Við fundum viðtal í safni útvarpsins þar sem Hanna G. Sigurðardóttir fékk Jón Múla til að segja frá kynnum sínum við Anderson og hvort tilgátan reyndis rétt. Lesandi vikunnar í Mannlega þættinum í þetta sinn var svo Unnur Steina Knarran Karls bókmenntafræðingur. Við fengum hán til að segja okkur frá því hvaða bækur hán hefur verið að lesa undanfarið og hvaða bækur og höfundar hafa haft mest áhrif á hán í gegnum tíðina. Unnur talaði um eftirfarandi bækur og höfunda: Dracula e. Bram Stoker At the Edge of the Night e. Friedo Lampe The Song of Achilles e. Madeline Miller Stytturnar í hillunum e. Evu Rún Snorradóttur Guðrún Helgadóttir, Kristín Helga Gunnarsdóttir, Lemony Snicket og Ocean Vong Tónlist í þættinum í dag: Þorláksmessukvöld / Ragga Gísla (Robert Wells, Mel Tormé, texti Þorsteinn Eggertsson) Á jólunum er gleði og gaman / Eddukórinn (erlent lag, texti Friðrik G Þórleifsson) Jón Sigurðsson bassaleikari útsetti Sleigh Ride / The Ronettes (Leroy Anderson) UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

Föstudagsgestur Mannlega þáttarins í þetta sinn var rithöfundurinn Stefán Máni Sigþórsson. Hann hefur gefið út skáldsögur frá árinu 1996, u.þ.b. þrjátíu bækur á jafnmörgum árum. Margar af hans sögum fjalla um rannsóknarlögreglumanninn Hörð Grímsson, til dæmis sú nýjasta sem var að koma út, Hin helga kvöl, þar sem Hörður glímir við dularfullt mál eftir að lík af karlmanni finnst. Stefán Máni hefur hlotið íslensku glæpasagnaverðlauninn Blóðdropann fjórum sinnum. Við spjölluðum við hann um lífið og tilveruna, bækurnar, Hörð Grímsson og fórum með honum aftur í tímann á æskuslóðirnar í Ólafsvík í dag. Svo var það matarspjallið með Sigurlaugu Margréti. Jólin nálgast með öllum sínum kræsingum, framundan er dimmt en hlýtt og við ákváðum því að tala um heitt súkkulaði og smá um heitt kakó í lokin. Tónlist í þættinum í dag: Léttur yfir jólin /Ríó tríó (lagahöfundur ókunnur, texti Jónas Friðrik Guðnason) Black / Pearl Jam (Eddie Vedder & Stone Gossard) Það á að gefa börnum brauð / Savanna tríóið (Jórunn Viðar, textahöfundur ókunnur) UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

Í gær var Alþjóðlegi mannréttindadagurinn og af því tilefni stóð Geðhjálp fyrir opnu samtali á Facebook síðu samtakanna þar sem Oddur Ástráðsson lögmaður svaraði spurningum er snúa að mannréttindum í geðheilbrigðisþjónustu. Oddur kom til okkar í dag og sagði okkur frá því helsta sem þar var rætt, hvað hafi brunnið mest á þeim sem sendu inn spurningar, en þar voru frelis- og sjálfræðissviptingar fyrirferðamiklar. Svo komu hingað hjónin Þórhildur Þorleifsdóttir og Arnar Jónsson en þau koma bæði að því að nýrri raddsetningu á fyrstu íslensku leiknu talmyndina í fullri lengd, Milli fjalls og fjöru, eftir Loft Guðmundsson frá 1949. Kvikmyndasafn Íslands hefur gert kvikmyndina upp og endurhljóðsett hana í samstarfi við RÚV. Þórhildur leikstýrir talsetningunni og Arnar er einn þeirra leikara sem ljá raddir sínar. Myndin verður frumsýnd á sunnudaginn í Bíó Paradís undir merkjum Bíóteks Kvikmyndasafnsins. Að lokum voru það mannlegu samskiptin, Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi var hjá okkur í dag og hélt áfram að tala um mörk og markaleysi. Hvað þýðir það til dæmis að setja upp „vegg“? Tónlist í þættinum í dag: Hvít jól / Rúnar Júlíusson (Irving Berlin, texti Stefán Jónsson) Wonderful Christmastime / Paul McCartney (Paul McCartney) Happy Xmas (War is Over) / John Lennon og Plastic Ono Band (John Lennon) Christmas Time is Here Again / Ringo Starr (Paul McCartney, John Lennon, George Harrison & Ringo Starr) UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

Við fræddumst í dag um verkefnið Saumó - tau með tilgang. Þetta er virkniverkefni fyrir flótta- og innflytjendakonur, þar sem þær slá nokkrar flugur í einu höggi, þær gera og selja handunnar vörur auk þess að læra íslensku og fræðast um samfélagið. Hjálpræðisherinn og Hjálparstarf kirkjunnar standa að Saumó og við fengum Hildi Loftsdóttur sem stýrir verkefninu til að segja okkur betur frá því, en þær verða með jólamarkað í húsnæði Hjálpræðishersins á sunnudaginn. Út er komin tónlistarbók fyrir yngstu börnin og fólkið þeirra sem heitir Bambaló: fyrstu lögin okkar. Tónlistin sem börnin geta kallað fram í bókinni með því að ýta á þar til gerða takka er öll spiluð á alvöru hljóðfæri og sungin á íslensku, myndirnar eru handteiknaðar og gullfallegar eftir listakonuna Linn Janssen sem er upprunalega frá Þýskalandi en er búsett hér á landi. Bókin hvetur til skapandi og skjálausra samverustunda. Sigrún Harðardóttir tónlistarkona er höfundur bókarinnar og hún kom til okkar í dag. Svo ef jólastressið er farið að knýja dyra hjá einhverjum þá gæti verið að við höfum verið með lausnina við því í þættinum þegar listakonan Sara Riel kom til okkar, en hún er að vinna í því að afstressa þau sem vilja fyrir jólin. Hún sem sagt býður á teikniæfingu í Ásmundarsafni á þriðjudögum, í samvinnu við Listasafn Reykjavíkur. Þar leiðir hún gesti inn í ferli sjálfvirkra teikninga við undirspil tónlistar, en þetta er einmitt vinnuferli hennar sjálfrar. Sara útskýrði í dag fyrir okkur hvernig þetta gengur fyrir sig og hvernig þetta virkar í samhengi við afstressun. Tónlist í þættinum í dag: Ef ég nenni / Helgi Björnsson (Adelmo Fornaciari, texti Jónas Friðrik) Amma engill / Borgardætur (M.K. Jeromy, texti Friðrik Erlingsson) Jólin eru hér / Sigurður Guðmundsson ( Sigurður Guðmundsson, texti Bragi Valdimar Skúlason) Snæfinnur snjókarl / Björgvin Halldórsson (Steve Nelson, texti Hinrik Bjarnason) UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

Í nóvember voru 10 ár síðan fyrsta sérsniðna dagskráin fyrir fólk með alzheimer var búin til fyrir Listasafn Íslands undir merkjum rannsóknarverkefnisins „Listir og menning sem meðferð“. Halldóra Arnardóttir listfræðingur er nýkomin frá heimsókn í MoMA safnið í New York þangað sem hún var boðin í tilefni þess að 20 ár eru liðin frá stofnun dagskrár fyrir fólk með Alzheimer og aðstandendur þeirra. Við ræddum við Halldóru, Jón Snædal öldrunarlækni og Ingibjörgu Jóhannsdóttur forstöðukonu hjá Listasafni Íslands í þættinum í dag. Svo fræddumst við um Öðruvísi jóladagatal sem SOS Barnaþorpin bjóða upp á þar sem íslensk börn eru frædd um jafnaldra þeirra í öðrum löndum og hvernig aðstæður þeirra eru frábrugðnar okkar. Við fengum Hjördísi Rós Jónsdóttur, fræðslufulltrúa SOS Barnaþorpa til að segja okkur betur frá dagatalinu í dag. Og svo var það veðurspjallið með Einari Sveinbjörnssyni en í dag fjallaði hann um þræsing og bakflæði í veðrinu. Svo var það langtímaspáin og jólaveðrið, er of snemmt að segja eitthvað um það? Og að lokum var það spurningin um endanlegan árshita í Stykkishólmi, þar sem er yfir 180 ára mælingasaga, munu hitamet falla? Einar sagði okkur allt um þetta í dag. Tónlist í þættinum í dag: Snjókorn falla / Laddi (Bob Heatlie, texti Jónatan Garðarsson) Meiri snjó / KK & Ellen (Jule Styne, texti Ólafur Gaukur Þórhallsson) Jól / Þú og ég (Gunnar Þórðarson, texti Þorsteinn Eggertsson) Sleðaferð / Skapti Ólafsson (Leroy Anderson, texti Jólakettir) UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

Óli Gränz er eyjapeyi og grallari. Hann missti aleigu sína í Heymaeyjargosinu og ástarlíf hans var stundum umtalað í Eyjum. Hjá Óla hefur gleðin alltaf haft yfirhöndina en stundum hefur þó gefið á bátinn. Í ævisögu sinni segir hann á hispurslausan og skemmtilegan hátt frá lífshlaupi sínu sem er engu öðru líkt. Við hittum Óla og rifjuðum upp með honum áhuaverðar sögur. Hingað komu svo tveir leikarar, Ólafía Hrönn Jónsdóttir og Erling Jóhannesson, en þau komu ekki til að tala neitt um leiklistina, heldur sögðu þau okkur frá Glóð kertastjakanum, sem seldur er til styrktar Konukoti, en Ólafía Hrönn tilheyrir hópi leikhúslistakvenna sem selja kertastjakana á laugardaginn í Hjartagarðinum. Erling er líka gullsmiður og hann hannaði einmitt kertastjakann. Þau sögðu okkur betur frá þessu í þættinum. Svo var það lesandi vikunnar sem í þetta sinn var Sólveig Jónsdóttir stjórnmálafræðingur og rithöfundur, en hún var að senda frá sér bókina Móðurlíf II, framhald af bókinni Móðurlíf, sem var örsagnasafn um allar mögulegar og ómögulegar tilfinningar tengdar móðurhlutverkinu. Við fengum hana til þess að segja okkur um nýju bókina og svo auðvitað frá því hvaða bækur hún hefur verið að lesa undanfarið og hvaða bækur og höfundar hafa haft mest áhrif á hana í gegnum tíðina. Sólveig talaði um eftirfarandi bækur og höfunda: Hver á mig? e. Hörpu Rún Kristjánsdóttur Jórvík e. Þorstein frá Hamri Ireland in Iceland e. Manchán Magan On Writing e. Stephen King Antarctica e. Claire Keegan Ferð Eiríks til Ásgarðs og Ferð Eiríks til Jötunheima e. Lars Henrik Olsen Tónlist í þættinum í dag: Jólasnjór / Vilhjálmur og Ellý Vilhjálms (Livingston & Evans, texti Jóhanna G. Erlingsson) Jólin held ég heima / Ellen Kristjánsdóttir (Walter Kent & Kim Gannon, texti Hinrik Bjarnason) Jólastafrófið / Helgi Björnsson (Kaye & Loman, texti Kári Waage) UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

Föstudagsgesturinn í þetta sinn var Bjartmar Guðlaugsson tónlistarmaður, skáld og myndlistarmaður. Við rifjuðum upp með honum ferilinn, lögin hans sem allir þekkja, textana og lögin sem hann samdi fyrir aðra. Við fórum með honum aftur í tímann á æskuslóðirnar og svo á handahlaupum í gegnum lífið til dagsins í dag. Svo var það matarspjallið með Sigurlaugu Margréti. Við fórum yfir tölvupóst sem okkur barst frá hlustanda og ræddum í framhaldi um fiskrétti og smákökur. Tónlist í þættinum í dag: Týnda kynslóðin / Bjartmar Guðlaugsson (Bjartmar Guðlaugsson) Negril / Bjartmar Guðlaugsson og Bergrisarnir (Bjartmar Guðlaugsson) Þannig týnist tíminn / Ragnar Bjarnason og Lay Low (Bjartmar Guðlaugsson) UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

Tíminn flýgur, jólin nálgast óðfluga og eftir þau eru áramótin handan hornsins. Upptökur á Skaupinu hafa staðið yfir og klárast fljótlega og við ákváðum að taka aðeins púlsinn á því hvernig gengur. Allan Sigurðsson og Hannes Þór Arason eru leikstjórar Skaupsins í ár. Þeir hafa báðir talsverða reynslu úr leikstjórn og framleiðslu grínefnis fyrir sjónvarp. Við kynntumst þeim aðeins betur í dag og heyrðum hvernig gengur með Skaupið í ár. Tvíeykið Soffía og Anna Sigga voru víðfrægar í kringum 1960 og skipuðu sér þá í hóp skemmtikrafta dúetta eins og Baldur og Konni ofl. Þær voru jafnframt meðal allra fyrstu barnastjarna Íslandssögunnar. Þær Soffía Árnadóttir og Sigríður Anna Þorgrímsdóttir voru ungar að árum þegar þær urðu stjörnur í íslenskri dægurlagamenningu. Við fundum viðtal við þær stöllur frá áttunda áratuginum og þá vorru þær orðnar ungar mæður og voru þarna að hittast í fyrsta skipti í 15 ár þar sem þær minntust þessara tíma. Valdimar Þór Svavarsson var svo hjá okkur eins og undanfarna fimmtudaga og við héldum áfram að ræða margbreytileika mannlegra samskipta með honum. Við tókum upp þráðinn frá því í síðustu viku þar sem Valdimar fór yfir mörk og markaleysi og það að setja mörk. Það er um nóg að ræða þegar kemur að því og mannlegum samskiptum. Tónlist í þættinum í dag: Ég hlakka svo til / Lón (Gianni Bella, texti Jónas Friðrik Guðnason) Rudolph the Red-nosed Reindeer / Ella Fitzgerald (Johnny Marks) Órabelgur / Soffía og Anna Sigga (Árni Ísleifsson, texti Númi Þorbergsson) Komdu niður / Soffía og Anna Sigga (Jón Sigurðsson) Santa Claus is Coming to Town / Dolly Parton (Fred J. Coots & Haven Gillespie) UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

Í bók sinni, Þegar múrar falla, fjallar Hörður Torfason um persónuleg og samfélagsleg mál, reynslu og átök hans við samfélagið síðastliðin 50 ár. Hann segir að hann hafi þurft að brjóta niður þá múra sem voru innra með honum til þess að geta tekist á við ytri múra. Það gerði hann með sýnileika og hugrekki. Hörður kom í þáttinn í dag og sagði okkur betur frá bókinni og innri og ytri múrum. Sigurður Þorri Gunnarsson fjölmiðlamaður og Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir fréttakona verða saman með jólaþætti á aðventunni, Uppskrift að jólum. Markmiðið er að hafa það huggulegt á aðventunni, elda mat, kynnast skemmtilegu fólki, og þau velta fyrir sér jólatónlist og kynna sniðugar jólahugmyndir. Fyrsti þátturinn er einmitt á á dagskrá annað kvöld. Á síðustu árum hefur Óður getið sér gott orð fyrir skemmtilegar sýningar þar sem ungt og hæfileikaríkt tónlistarfólk færir sígilda tónlist í nýjan búning. Óður hefur sýnt 57 sýningar af fjórum óperuuppfærslum frá stofnun árið 2021. La bohéme eftir Puccini er ein vinsælasta ópera allra tíma og birtist í þeirra flutningi fyrsta sinn á íslensku í nýrri þýðingu. Sagan segir frá ungum listamönnum í París á 19.öld þar sem heit ástríða þeirra fyrir lífinu glímir við kaldan raunveruleikann. Ragnar Pétur Jóhannsson og Níela Thibaud Girerd komu í þáttinn í dag. Tónlist í þættinum í dag: Sleðaferð / Skapti Ólafsson (Leroy Anderson, texti Jólakettir) Gjöfin / Hörður Torfason (Hörður Torfason) Jólakveðjur / Eyjólfur Kristjánsson (Þorgeir Ástvaldsson, texti Þorsteinn Eggertsson) Hvít jól / Vilhjálmur og Ellý Vilhjálms (Irving Berlin, texti Stefán Jónsson) UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

Vellíðan og velsæld á vinnustaðnum skiptir miklu máli. Við eyðum flest svo miklum tíma í vinnunni að það ætti að vera þess virði að vinna að því að líða vel í þeim aðstæðum. Þær Guðrún Jóhanna Guðmundsdóttir og Hildur Halldórsdóttir eru báðar sérfræðingar og ráðgjafar í mannauðsmálum og þær kenna einmitt þetta í fyrirtæki sínu Auki og þær eru líka með fjögur mismunandi námskeið á vegum Endurmenntunar HÍ sem tengjast mannauðsmálum þar sem þær meðal annars skoða faglega hegðun og samskipti á vinnustaðnum og erfið starfsmannamál. Við fengum þær til að fræða okkur meira um þetta í dag. Berklar eru einn lífshættulegasti smitsjúkdómur sem gengið hefur á land hér. Veikin lagðist einkum á ungt fólk og þá sérstaklega ungar konur. Upp úr 1950 fór að draga úr smitum og dauðsföllum af völdum veikinnar en dánartala berklasjúklinga á Íslandi var ein sú hæsta í Evrópu. Erla Dóris Halldórsdóttir sagnfræðingur og hjúkrunarfræðingur kom til okkar í dag en út er komin bókin Berklar á Íslandi sem hún skrifaði, full af fróðleik og frásögnum. Svo var það Heilsuvaktin með Helgu Arnardóttur, hún hélt áfram umfjöllun sinni um sykursýki eitt og þá áskorun sem fylgir því að vera með sjúkdóminn. Þorsteinn Hálfdánarson er einn þeirra sem hefur glímt við sjúkdóminn en hann greindist við fimm ára aldur. Hann er 28 ára í dag og á rúmum tveimur áratugum hefur tækninni fleygt fram og tækjabúnaður verður sífellt handhægari og auðveldari í notkun við daglegar insúlíngjafir og blóðsykursmælingar. Hins vegar getur verið mikil áskorun að lifa með þessum sjúkdómi sem kallar á agaðan lífstíl. Öráreitið er daglegt brauð eins og pípandi tæki og óútskýrt blóðsykurfall í tíma og ótíma. Þorsteinn sagði Helgu frá því hvernig er að lifa með sykursýki eitt sem er ólæknandi, enn sem komið er, en hann bindur vonir við að það breytist í framtíðinni. Tónlist í þættinum í dag: Það snjóar / Sigurður Guðmundsson og Memfismafían (Iller & Norman, texti Bragi Valdimar Skúlason) Er líða fer að jólum / Raggi Bjarna (Gunnar Þórðarson, texti Ómar Ragnarsson) Jólaljósin / Borgardætur (erlent lag, texti Andrea Gylfadóttir) Jólasólin / Grétar Örvarsson og Páll Rósinkranz (Marks & Marks, texti Kristján Hreinsson) UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

Ásgeir Ásgeirsson tónlistarmaður gaf nýverið út þrefalda vínilplötu eftir 5 ár í vinnslu. Crossing Borders heitir platan og á hennir er frumsamin jazztónlist með heimstónlistaráhrifum, hljóðrituð af tónlistarmönnum búsettum á Íslandi, Indlandi, Jórdaníu og Íran. Ásgeir hefur farið í ferðir til þessara landa, sótt einkatíma á strengjahljóðfæri, farið á námskeið, spilað með þarlendum tónlistarmönnum og komið þar fram í fjölmiðlum. Ásgeir hefur miðlað áhrifum þessarar tónlistar undanfarin ár og við ræddum við hann í dag um þetta ferli og nýja þrefalda vínylinn, Crossing Borders. Lesandi vikunnar í þetta sinn var Þorfinnur Skúlason íslenskufræðingur og vefstjóri. Hann sagði okkur frá því í dag hvaða bækur hann hefur verið að lesa undanfarið og hvaða bækur og höfundar hafa haft mest áhrif á hann í gegnum tíðina. Þetta eru bækurnar sem Þorfinnur hefur lesið undanfarið: Eilífðarvetur e. Emil Hjörvar Petersen Grænmetisætan e. Han Kang Sjá dagar koma e. Einar Kárason Innanríkið – Alexíus e. Bragi Ólafsson Svo bætti hann við eftirfarandi bókum sem hafa haft sérstaklega mikil áhrif á hann í gegnum tíðina: Öræfi e. Ófeig Sigurðsson Glæsir e. Ármann Jakobsson Skugga-Baldur e. Sjón Ævisaga Gylfa Ægissonar e. Sólmund Hólm Breytileg Átt e. Ása í bæ Sofðu ást mín e. Andra Snæ Magnason Tónlist í þættinum í dag: Allt í fína / Ragnar Bjarnason og Katrín Halldóra Karl Orgeltríó (Karl Olgeirsson) Cairo Vibe / Ásgeir Ásgeirsson (Ásgeir Ásgeirsson) Trip to India / Ásgeir Ásgeirsson (Ásgeir Ásgeirsson) Torfi á orfi / Snorri Helgason (Snorri Helgason) UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

Föstudagsgestur Mannlega þáttarins í dag heitir einmitt Gestur, Gestur Einar Jónasson, útvarpsmaður og leikari. Hann vann í um tuttugu ár hjá RÚVAK á Akureyri, stjórnaði nokkrum af vinsælustu útvarpsþáttum Rásar 2 og var í fréttum og íþróttafréttum. Hann er einnig leikari, stóð á sviðinu hjá Leikfélagi Akureyrar í um tvo áratugi og lék í kvikmyndum, flestir muna eftir honum í hlutverki Georgs í Stellu í orlofi. Gestur Einar lærði líka að fljúga og var safnstjóri á Flugsafninu á Akureyri en nú er hann fluttur suður. Við fórum með honum aftur í tímanna, æskuárin á Akureyri, áhættuatriði í kvikmyndum sem enduðu misvel og margt fleira. Svo var það matarpsjallið með Sigurlaugu Margréti. Guðrún og Sigurlaug voru báðar fyrir norðan og það hafði talsverð áhrif á matarspjall dagsins. Laufabrauð með kúmeni, gelgjufæði, Akureyringur, kók í bauk og fyrsti í aðventu komu við sögu. Tónlist í þættinum í dag: Stella í orlofi / Diddú, Sigrún Hjálmtýsdóttir (Valgeir Guðjónsson) Án þín / Trúbrot (Holland, Holland & Dozier, texti Þorsteinn Eggertsson) Tiny Dancer / Elton John (Elton John, texti Bernie Taupin) UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

Við fengum heimsókn frá þremur rithöfundum í hljóðver RÚV á Akureyri, ungar konur sem eiga það sameiginlegt að vera allar að gefa út sínar fyrstu bækur og þær hafa þann háttinn á að vera saman í því að kynna þær. Þær sögðu okkur frá ferlinu að skrifa bækurnar og lásu svo allar stutta kafla úr bókum sínum, þ.e. Sesselía Ólafs úr bók sinni Silfurberg, Ester Hilmarsdóttir úr bók sinni Sjáandi og Nína Ólafsdóttir úr bók sinni Þú sem ert á jörðu. Við töluðum svo við Irisi Eddu Nowenstein, lektor í íslenskri málfræði og máltækni við HÍ og talmeinafræðing við Landspítalann. Hún og samstarfsfólk hennar vinna í mörgu áhugaverðu, meðal annars með því að nýta nýjustu tækni sem við ætlum að fengum hana til að segja okkur frá í dag. Hvernig talgreiningarforrit nýtast, hvernig raddupptökur geta nýst til að skima eftir röskunum og sjúkdómum og meta ávinning meðferðar. Auk þess fræddi hún okkur um íslenskar tölvuraddir, risamállíkön og átak sem er framundan í að safna röddum til að nútímatæknin skilji betur íslensku og þar af leiðandi nýtist betur sem greiningartæki. Svo voru það Mannlegu samskiptin, Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi var aftur hjá okkur, eins og undanfarna fimmtudaga. Síðustu tvær vikurnar var það narsissisminn, nú ræddi hann um mörk og markaleysi. Hvað það er að setja sér mörk, innri og ytri mörk og ýmislegt fleira. Tónlist í þættinum í dag: Á Akureyri / Óðinn Valdimarsson (Óðinn Valdimarsson) Út á stoppustöð / Stuðmenn (Jakob Frímann Magnússon) Orðin mín / Sigurður Guðmundsson og Memfismafían (Bragi Valdimar Skúlason) Handle With Care / Traveling Wilburys (Travelin Wilburys) UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

Hvernig má nýta betur matþörunga og aðra ofurfæðu fjörunnar? Flest þekkjum við söl og margir hafa bragðað þau en hvað annað úr fjörunni er hægt að nýta? Á morgun mun Eydís Mary Jónsdóttir, umhverfis- og auðlindafræðingur kynna ofurfæðuna sem finna má í fjöruborðinu og gefur gestum að smakka. Eydís kom í þáttinn í dag. UN Women á Íslandi standa fyrir árlegu 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi og í ár er athyglinni beint að stafrænu ofbeldi gegn konum og stúlkum. Fyrir milljónir kvenna og stúlkna hefur sítengdur stafrænn heimur orðið vettvangur ofbeldis, netáreitni, ofsóknum á netinu, misnotkun á persónulegum upplýsingum, dreifingu myndefnis án samþykkis, djúpfalsmynda og upplýsingaóreiðu. Stella Samúelsdóttir framkvæmdastýra UN Women á Íslandi kom í þáttinn og sagði frá átakinu. Það eru ekki allir sem eiga þess kost að komast á jólahlaðborð, hvað þá með allri fjölskyldunni. Jólahlaðborð Rótarýklúbbs Sauðárkróks verður haldið næsta laugardag og það er ókeypis fyrir þau sem mæta. Rótarýklúbbur Sauðárkróks er með mörg járn í eldinum en þetta er stærsta einstaka verkefni klúbbsins á hverju ári. Rótarýfélagar sjá um allan undirbúning og framkvæmd sem er býsna mikið verkefni. Við heyrðum í Ómari Braga Stefánssyni frá Rotaryklúbbi Sauðárkróks í dag. Tónlist í þættinum í dag: Í rökkurró / Helena Eyjólfsdóttir (Nevins, Nevins & Dunn, texti Jón Sigurðsson) That's What Friends Are For / Dionne Warwick & Friends (Burt Bacharach, Carole Bayer Sager) Lítill drengur / Vilhjálmur Vilhjálmsson (Magnús Kjartansson, texti Vilhjálmur Vilhjálmsson) Láttu mig gleyma / Stuðmenn (Egill Ólafsson, Þórður Árnason og Jakob Frímann Magnússon, texti Þórður Árnason) UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

Við töluðum í dag við Karen Lilju Loftsdóttur, doktorsnema í sagnfræði við Queen's háskólann í Ontario í Kanada. Doktorsverkefni hennar skoðar með menningarsögulegri nálgun kanadíska hermenn sem voru á Íslandi á hernámsárunum. Flestir vita að Bretar hernámu Ísland árið 1940 og svo Bandaríkjamenn frá 1941, en færri vita að um það bil 2500 hermenn frá Kanada hafi verið á Íslandi og sumir þeirra af íslenskum ættum. Við hringdum til Kanada og fengum Karen Lilju til að segja okkur aðeins frá þessu doktorsverkefni sínu. Kvennakórinn Léttsveit Reykjavíkur fagnar 30 ára afmæli í ár og á laugardaginn verða tvennir jólatónleikar í Langholtskirkju. Við litum á æfingu hjá sveitinni í gærkvöldi og hittum þar fyrir Guðný Helgadóttur og Steinunni Þórhallsdóttur og kórstjórann Gísla Magna og fengum að heyra eitt lag með kórnum og hljómsveit. Svo kom Einar Sveinbjörnsson til okkar í veðurspjallið. Í dag talaði hann aðeins um sérstaka gerð ísingar, héluísingu, en á annan tug umferðaróhappa um helgina voru rakin til slíkrar ísingar. Svo talaði Einar um sólgos, kórónaskvettur og norðurljós og nýja bók Arndísar Þóarinsdóttur sem heitir einmitt Sólgos. Tónlist í þættinum í dag: Lapis Lazuli / Helgi Björnsson (Helgi Björnsson og Guðmundur Óskar Guðmundsson) Baby Driver / Simon & Garfunkel (Paul Simon) Er kemur þú til mín - Léttsveit Reykjavíkur (Enya, texti Auður Aðalsteinsdóttir) Þá kemur þú / Nýdönsk (Björn Jörundur Friðbjörnsson) UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

Í síðustu viku fjallaði fréttaskýringaþátturinn Kveikur um málin sem komið hafa upp í leikskólanum Múlaborg, þar sem starfsmaður skólans hefur verið ákærður fyrir kynferðisbrot gegn barni. Í þættinum kom fram að meira en ári áður en það mál kom upp tilkynnti móðir annars barns á leikskólanum grunsemdir um að dóttir hennar hefði verið misnotuð kynferðislega. Henni finnst kerfið hafa brugðist. Sæunn Kjartansdóttir sálgreinir hefur mikla reynslu af þessum málaflokki og við fengum hana til að fara með okkur yfir áhrif og langtíma afleiðingar kynferðisofbeldis gegn ungum börnum. Vandalaust er ráðgjafastofa sem sérhæfir sig í greiðsluerfiðleikamálum með það að markmiði að koma fólki sem átt hefur í þessum vanda á réttan kjöl. Kristín Eir Helgadóttir ráðgjafi Vandalaust er viðskiptafræðingur og er á lokametrunum í markþjálfanámi. Hún hefur unnið í fjármálastofnunum í 15 ár með sérhæfingu í greiðslerfiðleikamálum m.a. síðustu tvö ár sem greiðsluerfiðleikaráðgjafi og verkefnastjóri hjá Hagsmunasamtökum heimilanna. Svo var það lesandi vikunnar, í þetta sinn var það Valgerður Húnboga lögfræðingur, en hún heldur utan um tvo bókaklúbba á Akureyri. Við fengum að heyra hvaða bækur hún hefur verið að lesa undanfarið og hvaða bækur og höfundar hafa haft mest áhrif á hana í gegnum tíðina. Valgerður talaði um eftirfarandi bækur og höfunda: El Descontento e. Beatriz Serrano Poor e. Katriona O´Sullivan Wedding People e. Alison Enspach Hildar-bækurnar e. Sato Rämö Anna í Grænuhlíð, Emma í Mánalundi e. L.M. Montgomery Ferðabækur George Orwell Tónlist í þættinum í dag: Gamla húsið / Ellen Kristjánsdóttir (Þorgeir Ástvaldsson, Bjartmar Guðlaugsson) Fjaran / Brek (Jóhann Ingi Benediktsson, Harpa Þorvaldsdóttir, Guðmundur Atli Pétursson og Sigmar Þór Matthíasson) Þú ert / Sigríður Thorlacius og Sönghópurinn við Tjörnina (Tómas R. Einarsson, texti Sigurður Guðmundsson) UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

Föstudagsgestur Mannlega þáttarins í þetta sinn var Arnór Pálmi Arnarson leikstjóri. Hann byrjaði mjög ungur að leikstýra kvikmyndaefni, sjónvarpsþáttaraðirnar Hæ gosi, Ligeglad, Ráðherrann, áramótaskaupið og fleiri. Og svo nú, ný spennuþáttaröð, Heimaey, sem hóf göngu sína hjá Sjónvarpi Símans í gær. Við ferðuðumst um í tíma og rúmi með Arnóri Pálma og forvitnuðumst auðvitað um þessa nýju þætti sem gerast, eins og nafnið gefur til kynna, í Vestmannaeyjum, en reyndar líka í Portúgal. Svo var það matarspjallið með Sigurlaugu Margréti. Í dag ræddum við með henni um matsárni, vonir og væntingar, þegar kemur að því til dæmis að fara út að borða, í samanburði til dæmis við það að elda heima. Tónlist í þættinum i dag: Bella símamær / Björk Guðmundsdóttir og Tríó Guðmundar Ingólfssonar (Marc Fontenoy, texti Guðmundur Guðmundsson) Ég veit þú kemur / Ási í Bæ (Oddgeir Kristjánsson, texti Ási í Bæ) Golden Slumbers / Carry that Weight - The Beatles (Lennon & McCartney) UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

Það er blár nóvember, þ.e.a.s. í þessum mánuði er vitundarvakning um blöðruhálskirtilskrabbamein hjá körlum. Við kynntum okkur helstu upplýsingar um það og krabbameinsfélagið Framför í þættinum í dag, en Guðmundur Páll Ásgeirsson formaður og Hólmfríður Sigurðardóttir varaformaður komu í þáttinn og sögðu okkur frá starfi félagsins, Makafélaginu Traustir makar og fleiru. Hvað tekur við þegar starfsævinni lýkur og eftirlaunaaldri er náð? Tekjumunur milli kvenna og karla helst ævina á enda og konur fá ekki bara lægri laun en karlar á vinnumarkaði heldur einnig lægri lífeyri. Á málstofu fyrr í morgun fóru sérfræðingar yfir tölulegar upplýsingar um stöðu kynjanna, þar var fjallað um lífeyriskerfið út frá jafnréttissjónarmiðum og velt upp möguleikum til að jafna leikinn. Steinunn Bragadóttir, hagfræðingur hjá ASÍ, kom í þáttinn og sagði okkur frá erindi sem hún hélt á málstofunni þar sem teknar voru saman tölur um tekjur kvenna og karla á ellilífeyrisaldri. Hrafn Úlfarsson, sérfræðingur frá Lífeyrissjóði verzlunarmanna, kom með Steinunni í þáttinn og fór yfir mun á lífeyrisgreiðslum til karla og kvenna hjá sjóðnum, hver þróunin hefur verið og framtíðarhorfur. Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi var svo hjá okkur í dag eins og undanfarna fimmtudaga og hélt áfram að fræða okkur um mannleg samskipti. Í síðustu viku töluðum við um narsissisma og við héldum því áfram í dag, meðal annars hvað er hægt að gera þegar kemur að samskiptum við narsissíska einstaklinga. Tónlist í þættinum i dag: Eingetið ljóð / Bjartmar Guðlaugsson (Bjartmar Guðlaugsson) I Would Run Away With You / Bambaló (Kristjana Stefánsdóttir) Landleguvalsinn / Haukur Morthens (Jónatan Ólafsson, texti Númi Þorbergsson) UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

Svavar Jónatansson vinnur við prufuverkefni hjá Hrafnistu þar sem hann hefur nýtt sér tækni sýndarveruleika til þess að færa heimilisfólkinu á Hrafnistu í aðstæður sem þau ættu annars erfitt með að komast í. Hann sem sagt fer með 360° myndavél á kóræfingu og svo getur heimilisfólk sett á sig sérstök sýndarveruleikagleraugu, eða töfragleraugu eins og hann kallar þau, og þá eru þau nánast komin á staðinn og geta jafnvel sungið með í kórnum. Möguleikarnir eru óendanlegir í því hvernig hægt er að nýta þessa tækni og Svavar útskýrði betur fyrir okkur hvernig þetta gengur fyrir sig. Að jóðla er ákveðin söngkúnst og ekki á allra færi en nú stendur til að halda jóðlkeppni, nánar tiltekið í desember, Jóðlageitina 2025. Bragi Þór Valsson tónlistarmaður kom í þáttinn og sagði okkur frá jóðli og keppninni í dag. Svo fræddumst við um Textílmiðstöð Íslands á Blönduósi, en þar verður viðburður í dag sem kallast Saman við sitjum og saumum inni í stóru húsi. Þar munu fatahönnunarnemendur í Listaháskólanum bjóða til vinnustofu og sýna áhugaverð dæmi og aðstoða þáttakendur við að breyta, bæta og jafnvel skapa nýja flíkur úr gömlum. Elsa Arnardóttir forstöðumaður Textílmiðstöðvar sagði okkur betur frá þessu í þættinum í dag. Tónlist í þættinum i dag: Lítið og væmið / Valdimar (Valdimar Guðmundsson) Hærra minn guð / Kór Lindarkirkju (Lowell Mason, texti Matthías Jochumsson) Yodel-blús / Smaladrengirnir (Bragi Þór Valsson) Reiðlag / Þuríður Sigurðardóttir (S. Bogus, texti Jónas Friðrik Guðnason) UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

Doktor Erla Björnsdóttir er stofnandi og framkvæmdastjóri Betri svefns. Í doktorsnámi sínu rannsakaði Erla svefnleysi, andlega líðan og lífsgæði hjá sjúklingum með kæfisvefn. Erla hefur haldið fjölda fyrlestra og námskeiða um svefn og svefnvenjur og stendur nú fyrir undirskriftum um að leiðrétta klukkuna á Íslandi. Leiðrétting á klukkunni felur í sér að seinka klukkunni um eina klukkustund, og halda þeim tíma allt árið. Erla segir að Ísland fylgi tímabelti sem samræmist illa sólarhæð og náttúrulegum sólargangi að staðarklukka okkar sé ekki rétt stillt miðað við legu landsins, og þetta misræmi hefur verið viðvarandi frá árinu 1968 þegar ákveðið var að festa landið á miðtíma (UTC) allt árið. Umboðsmaður barna heldur barnaþing í fjórða sinn á fimmtudag og föstudag. Um 130 börn eru skráð á þingið, þau eru á aldrinum 11-15 ára og voru valin með slembiúrtaki úr Þjóðskrá. Markmið barnaþings er að efla lýðræðislega þátttöku barna og virkja þau í umræðu um málefni sem snerta þau. Agla Björk Kristjánsdóttir og Stef Jón Aðalsteins komu í þáttinn í dag en þau voru á síðasta barnaþingi og eru í ráðgjafahóp fyrir þingið í ár. Með þeim kom Salvör Nordal Umboðsmaður barna. Svo var það heilsuvaktin með Helgu Arnardóttur. Í dag fræddumst við um sjúkdóminn sykursýki eitt sem minna er talað um í samanburði við sykursýki tvö sem er áunnin og hefur færst í aukana vegna heilsu- og lífsstílsbreytinga fólks undanfarin ár. Sykursýki eitt er hins vegar mjög íþyngjandi ólæknanlegur sjálfsofnæmissjúkdómur. Helga ræddi við Arndísi Finnu Ólafsdóttur sykursýkishjúkrunarfræðing á göngudeild innkirtla og gigtarsjúkdóma á Landspítalanum um byltingingarkennda tækni úr sprautum í sjálfvirkar insúlíndælur, blóðsykursnema og annan búnað sem hafa aukið lífsgæði fólks með sykursýki eitt en hún ræðir einnig um svokallaða sykursýkiskulnun sem er þekkt orð í sykursýkisheiminum. Arndís á líka tvö börn sem bæði greindust með sykursýki eitt við fjögurra ára aldur en hún hefur alltaf hvatt börnin sín að láta sjúkdóminn ekki stoppa sig. Tónlist í þættinum i dag: Draumaprinsinn / GÓSS (Magnús Eiríksson) Svefninn laðar / Nýdönsk (Jón Ólafsson, texti Daníel Ágúst Haraldsson og Björn Jörundur Friðbjörnsson) All I Have To Do Is Dream / Everly Brothers (Boudleaux Bryant) Óli lokbrá / Björgvin Halldórsson og Sigrún Hjálmtýsdóttir (Carl Billich, texti Jakob V. Hafstein) UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

Lubbi finnur málbein er bók eftir Eyrúnu Ísfold Gísladóttur og Þóru Másdóttur og kom út árið 2009 og var valin besta fræðibókin fyrir börn árið 2010. Vinsældir Lubba hafa vaxið jafnt og þétt síðan og efnið verið mikið notað við kennslu á fyrstu stigum grunnskólans. Bókin er hugsuð til málörvunar og hljóðanáms fyrir börn á aldrinum tveggja til sjö ára, höfundar hennar Þóra og Eyrún Ísfold eru talmeinafræðingar og hafa áralanga reynslu af talþjálfun barna. Þær komu í spjall í þáttinn í dag. Karl Ágúst Úlfsson leikari, leikstjóri og rithöfundur er nýbúin að senda frá sér bókina Fífl sem ég var, sem fjallar um baráttu hans við heilann og taugakerfið, en eins og hann segir aðallega samt um minningar sem hann segist hafa dregið til sín til að lappa uppá stórskert minnið. Karl Ágúst kom í þáttinn í dag. Lesandi vikunnar í þetta sinn var svo Guðrún Ingólfsdóttir bókmenntafræðingur. Hún sagði okkur frá því hvaða bækur hún hefur verið að lesa undanfarið og hvaða bækur og höfundar hafa haft mest áhrif á hana í gegnum tíðina. Guðrún talaði um eftirafarndi bækur og höfunda: Tímaskjól e. Georgi Gospodinov Móðurást e. Kristínu Ómarsdóttur Tónlist í þættinum i dag: Þú ert / Helgi Pétursson (Þórarinn Guðmundsson, texti Guðmundur Björnsson) Megi dagur hver fegurð þér færa / Ragnar Bjarnason (Wile & Green, texti Jóhanna G. Erlingsson) Ást og yndi / Erla Stefánsdóttir (Ingvi Þór Kormáksson, texti Ingvi Þór og JJ Soul) UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

Föstudagsgestur Mannlega þáttarins í þetta sinn var söngkonan Emilíana Torrini. Hún vakt ung mikla athygli þegar hún kom syngjandi fram á sjónvarsviðið. Svo flutti hún til Englands og bjó þar í nærri tvo áratugi en er nú aftur flutt heim til Íslands. Hún hefur gert það mjög gott í tónlistinni og nú það nýjasta er plata og kvikmynd sem komu upp úr innblæstri sem hún varð fyrir eftir að hafa lesið fulla ferðatösku af sendibréfum sem móðir vinkonu hennar hafði átt. Platan heitir Miss Flower og bíómyndin heitir The Extraordinary Miss Flower. Í myndinni flytur Emilíana tónlistina af plötunni ásamt hópi tónlistarmanna, þar á meðal Lovísu Sigrúnardóttur eða Lay Low, á meðan þekktir leikarar og tónlistarfólk lesa upp úr bréfunum. Emilíana sagði okkur þessa áhugaverðu sögu frú Flower í þættinum í dag og við fórum með henni út og suður í tíma og rúmi. Í matarspjallinu með Sigurlaugu Margréti töluðum við meðal annars um marineringar fyrir fisk og kjöt og jólasalat. Tónlist í þættinum i dag: Patience / Ólöf Arnalds (Ólöf Arnalds) Miss Flower / Emilíana Torrini (Emilíana Torrini og Simon Byrt) Vertu Úlfur / Emilían Torrini (Emilíana Torrini og Marketa Irglova) UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

FLIKK er nýtt meðferðarúrræði fyrir börn með kvíðaraskanir og foreldra þeirra. Úrræðinu er ætlað að veita börnum aðstoð mun fyrr en ella, stytta biðtíma og sömuleiðis minnka kostnað fyrir heilbrigðiskerfið. Um er að ræða internetmeðferð fyrir foreldra barna með kvíðaraskanir. Meðferðin byggir á hugrænni atferlismeðferð (HAM) þar sem foreldrar fá aðstoð frá sálfræðingi í gegnum meðferðina með það að markmiði að þeir læri aðferðir HAM til að hjálpa börnum sínum að ná tökum á kvíðavanda. Brynjar Halldórsson, dósent við sálfræðideild HR og Anna Sigríður Islind, prófessor við tölvunarfræðideild HR, komu í þáttinn og sögðu frá. Við erum nýbúin að fagna degi kleinunnar en í dag er komið að degi brauðtertunnar. Brauðtertan heldur velli og hefur eiginlega verið á uppleið síðasta áratuginn. Friðrik V Hraunfjörð, eða Friðrik fimmti, eins og hann er oft kallaður, kom í þáttinn í dag og með honum kom Erla Hlynsdóttir frá Brauðtertufélaginu Erlu og Erlu, sem er félag áhugafólks um brauðtertur á Facebook. Valdimar Þór Svavarsson hélt í dag áfram að fara með okkur yfir mannleg samskipti sem geta verið svo flókin. Undanfarna fimmtudaga hefur hann til dæmis frætt okkur um hlutverkin sem fjölskyldumeðlimir falla gjarnan í, samskiptin í ástarsamböndum, af hverju eru sum sambönd langlíf en önnur ekki og margt margt fleira. Í dag fór hann með okkur yfir í narsissisma og níu leiðir til að greina narsissisma. Tónlist í þættinum í dag: Staldraðu við / Stuðmenn (Egill Ólafsson og Valgeir Guðjónsson) Hann gat ekki setið kyrr / Rakel Sif Sigurðardóttir(Karl Olgeirsson og Karl Frid, texti Olgeir Kristjónsson) Sykur rjómi / Baggalútur(Bragi Valdimar Skúlason, texti Káinn) UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

Jafningjastuðningur innan geðheilbrigðiskerfisins hefur færst í aukana og nú starfa jafningjar á mörgum stofnunum og deildum fyrir fólk í geðrænni krísu. Í september útskrifuðust 15 nemendur búsettir á Íslandi úr námi við Yale, alþjóðlegu leiðtogaþjálfunarnámi sem boðið er upp á af Bata- og lýðheilsudeild háskólans. Þessir nemendur luku gagnvirku og þverfaglegu fjarnámi sem Yale prófessorar og leiðbeinendur á Íslandi stóðu að. Námið var upphaflega hannað af einstaklingum með reynslu af geðheilbrigðisþjónustunni og erfiðleikum í daglegu lífi. Fyrir þremur árum hóf Traustur kjarni, sem eru félagasamtök, námskeið hér á landi sem undirbúning til að verða jafningjastarfsmaður. Námskeiðin eru byggð á sömu forsendum og Yale námið. Elín Ebba Ásmundsdóttir hjá Hlutverkasetri kom í þáttinn í dag og sagði okkur frá mikilvægi jafningastarfs. Styrktarsjóður geðheilbrigðis úthlutaði í vikunni í fimmta sinn samtals tuttugu og fimm og hálfri milljón til nítján verkefna. Tilgangur sjóðsins er að stuðla að framförum í geðheilbrigðismálum með því að veita styrki til verkefna sem geta bætt geðheilbrigði íbúa landsins og/eða skilning þar á. Sérstök áhersla var lögð á geðheilbrigði barna og ungmenna þetta árið. Grímur Atlason framkvæmdastjóri Geðhjálpar kom til okkar í dag og sagði okkur frá því hvaða verkefni fengu styrki og hvað þau standa fyrir. Í apríl síðastliðnum kom Bergljót Borg framkvæmdastjóri Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra til okkar því félagið var að kalla eftir hugmyndum um nýtt nafn og merki, sem næðu betur utan um núverandi starfsemi og gildi félagsins. Nafnið er fundið, Gló stuðningsfélag, og Bergljót sagði okkur í dag frá nýja nafninu, nýja merkinu og starfseminni. Tónlist í þættinum í dag: Brúnaljósin brúnu / Páll Óskar Hjálmtýsson (Jenni Jóns) Stjörnur stara / Rebekka Blöndal (Ásgeir Jón Ásgeirsson, texti Rebekka Blöndal) Streets of Philadelphia / Bruce Springsteen (Bruce Springsteen) Bopp og bí / Tómas R. Einarsson (Tómas R. Einarsson) UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

Við fræddumst um kóreska menningu í þættinum í dag, en fyrsta kóreska kvikmyndahátíðin á Íslandi hefst á fimmtudaginn í Bíó Paradís og stendur yfir fram á sunnudag. Kóreskt kvikmyndaefni hefur vakið verðskuldaða athygli undanfarin ár, kvikmyndin Parasite var valin besta kvikmyndin á óskarsverðlaunahátíðinni 2020, sjónvarpsþættirnir Squid Game slógu í gegn út um allan heim og svo er það auðvitað K-pop tónlistin sem er gríðarlega vinsæl. Mæðgurnar, Milan Chang og Rán Chang Hlésdóttir komu í þáttinn og sögðu okkur betur frá hátíðinni og kóreskri menningu í dag. Eitt af aðalorðum þessa árs er svo sannarlega orðið gervigreind. Stefán Atli Rúnarsson viðskiptafræðingur, hefur haldið fjölmörg námskeið um helstu möguleika gervigreindar og t.d. ChatGPT þar sem hann meðal annars fer yfir ýmis atriði sem geta til dæmis hjálpað til við að spara tíma í daglegu lífi. Stefán Atli er viðskiptafræðingur að mennt, sérfræðingur í markaðsmálum og mikill áhugamaður um gervigreind og hefur haldið námskeið í gervigreind fyrir hátt í 1600 manns. Svo var það veðurspjallið með Einari Sveinbjörnssyni. Einar sagði okkur frá rannsóknaráðstefnu Vegagerðarinnar, þar kom tvennt fram sem tengist loftslagsbreytingum. Annars vegar áhrif loftslags á Vegakerfið heilt yfir og hins vegar um nokkuð nýjan veruleika sumarblæðinga á vegum. Svo fór Einar með okkur yfir veðurhorfurnar fram undan, en merkileg fyrirstöðuhæð er að byggjast upp. Svo Einar að lokum yfir glænýja desemberspá frá Evrópsku reiknimiðstöðinni. Tónlist í þættinum í dag: Síðasta sjóferðin / Brimkló (Steve Goodman, texti Þorsteinn Eggertsson) Moist / PPCX (Chiwon Lee, Jihan Jeon & Kiik) Heima / Haukur Morthens (Oddgeir Kristjánsson, texti Ási í Bæ) Angelía / Vilhjálmur Vilhjálmsson (W. Meisel, texti Theódór Einarsson) UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

Út er komin bókin Síungir karlmenn - Innblástur, innsæi og ráð. Bókin hefur að geyma 45 hugleiðingar og hvatningu fyrir fólk af öllum kynjum að fara úr viðjum vanans, og brjóta upp eldri viðmið samfélagsins. kynjum. Með bókinni vilja höfundar ögra vanabundnum viðmiðum, ýta við hugsun og opna dyr að nýjum viðhorfum og möguleikum. Karl G Friðriksson og Sævar Kristinsson höfundar bókarinnar komu í þáttinn í dag. Það er ekki víst að allir hafi vitað það en í dag, 10.nóvember, er Kleinudagurinn. Bollurnar eiga sinn dag, saltkjöt og baunir sinn dag, skatan, súkkulaðieggin og svo framvegis. Nú vilja Vinir kleinunnar, eins og þau kalla sig, halda kleinudaginn í fimmta sinn og heiðra kleinuna. Við heyrðum í Nikulási Ágústssyni frá Bakabaka, sem er einn vina kleinunnar, og hann sagði okkur betur frá deginum og kleinum. Lesandi vikunnar í þetta sinn var Eiríkur Jónsson lagaprófessor og landsréttardómari. Við fengum hann til að segja okkur hvaða bækur hann hefur verið að lesa undanfarið og hvaða bækur og höfundar hafa haft mest áhrif á hann í gegnum tíðina. Eiríkur talaði um eftirfarandi bækur og höfunda: Michael J. Klarman: The Framers´ Coup - The Making of the United States Constitution. Viðar Már Matthíasson: Endurheimt verðmæta við gjaldþrot. Arnaldur Indriðason: Tál. Kristín Steinsdóttir: Engill í Vesturbænum. Hallgrímur Helgason: Sextíu kíló af kjaftshöggum. Iðunn Steinsdóttir og Sigríður Víðis Jónsdóttir. Tónlist í þættinum í dag: Daglega fer mér fram / Mannakorn (Magnús Eiríksson) Across the Universe / The Beatles (Lennon & McCartney) Mangó fyrir tíu flær / Salsakommúnan (Baldvin Snær Hlynsson og Símon Karl Sigurðarson) UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

Föstudagsgestur Mannlega þáttarins í þetta sinn er fjölmiðlamaðurinn Þorsteinn J. Vilhjálmsson. Hann hefur unnið við fjölmiðla frá unglingsaldri, hér á RÚV, á Bylgjunni, Stöð 2 og víðar. Hann rekur eigið framleiðslufyrirtæki og hefur framleitt meðal annars fjölda heimildamynda og sjónvarpsþátta. Nú síðast opnaði hann fjölmiðilinn TV1 Magazin, sem hann segir ekki vera eins manns fjölmiðil. Við fengum Þorstein til að segja okkur betur frá þessum nýja fjölmiðli og ferðuðumst í tíma og rúmi með honum. Svo kom Sigurlaug Margrét til okkar í matarspjallið. Í dag ræddum við mat sem við mögulega borðum þegar okkur líður illa, og þá líka þegar okkur líður vel. Og svo líka mat sem gefur okkur góðar minningar, notsalgískan mat. Tónlist í þættinum í dag: Gegnum holt og hæðir / Þursaflokkurinn (Egill Ólafsson, texti Þórarinn Eldjárn) Who Knows Where the Time Goes / Fairport Convention (Sandy Denny) Hvernig ertu? / Úlfur Úlfur og Barði Jóhannsson (Barði Jóhannsson, Helgi Sæmundur Guðmundsson og Arnar Freyr Frostason) UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

Við fræddumst í dag um Lego Serious Play, sem er aðferð fyrir stjórnendur og fyrirtæki til að finna lausnir við áskorunum með hjálp Lego kubba. Steinunn Ragnarsdóttir stjórnunarráðgjafi lærði þessa aðferð í Danmörku og hún sagði okkur betur frá henni í þættinum. Hvatningarverðlaun ADHD samtakanna 2025 hlaut Sara Rós Kristinsdóttir ráðgjafi fyrir ómetanlegt framlag til fræðslu og valdeflingu fólks með ADHD og aðstandendur þeirra. Sara Rós hefur á undanförnum árum verið áberandi í fræðslu ásamt því að vera talskona taugafjölbreytileika. Sjálf greindist hún á fullorðinsárum, sem hefur veitt henni dýpri innsýn og tækifæri til að mæta öðrum af skilningi. Hún nýtir bæði fagþekkingu og eigin reynslu til að brúa bil milli kerfa, fjölskyldna og einstaklinga með valdeflandi nálgun, aðgengi og mannúðlegar lausnir að leiðarljósi. Sara Rós kom í þáttinn í dag. Svo voru það mannlegu samskiptin með Valdimari Þór Svavarssyni ráðgjafa. Í síðustu viku var hann að segja okkur frá langlífum samböndum, hvað þarf til að samband verði langlíft og í dag hélt hann áfram að fara yfir viðvörunarbjöllur, þ.e. það sem getur ógnað langlífi sambandsins og hvernig er hægt að leysa úr því. Tónlist í þættinum í dag: Aftur heim til þín / Eyþór Ingi og Lay Low (Baldur Hjörleifsson og Jónína Guðrún Eysteinsdóttir) Ennþá man ég hvar / GÓSS (Kai Normann Andersen, texti Bjarni Guðmundsson) Í rauðum loga / Þorgerður Ása Aðalsteinsdóttir (Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson) Working in the Coal Mine / Lee Dorsey (Allen Toussaint) UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

Við kynntum okkur starfsemi Batahúss í þættinum í dag. Batahús var stofnað árið 2021 og veitir húsnæði, jafningjastuðning og einstaklingsmiðaða þjónustu fyrir fólk sem hefur lokið fangelsisvist og er að stíga fyrstu skrefin til baka í samfélagið. Tolli Morthens, formaður stjórnar Bata, kom í viðtal og sagði okkur betur frá tilurð Batahúss, starfseminni og hugmyndafræðinni. Svo fræddumst við um bókina Amma nammigrís, en í henni eru skemmtilegar og fyndnar sögur af ömmu, byggðar á sönnum atburðum, sagðar frá sjónarhorni barnabarns. Auk þess útskýrir bókin alzheimer sjúkdóminn á einfaldan hátt og hjálpar börnum að skilja hvað það þýðir þegar ástvinur byrjar að gleyma. Gunnhildur Stella Pálmarsdóttir fjölskyldufræðingur er höfundur bókarinnar og hún sagði okkur betur frá henni í dag. Svo var það gamansýningin Lífið í Japan, sem frumsýnd verður í Hannesarholti í næstu viku. Þar fer Stefán Þór Þorgeirsson yfir sína reynslu af því að búa í Japan, en sagan byggir á raunverulegri reynslu Stefáns frá dvöl hans í Japan, í gegnum grín, tónlist og dans. Stefán Þór sagði okkur betur frá sinni reynslu og Japan hér í dag. Tónlist í þættinum í dag: Inn um gluggann / Moses Hightower (Moses Hightower, texti Andri Ólafsson og Steingrímur Karl Teague) Þú átt mig ein / Vilhjálmur Vilhjálmsson (Magnús Þór Sigmundsson, texti Vilhjálmur Vilhjálmsson) Sukiyaki (Ue o muite aruko) / Kyu Sakamoto (Nakamura Hachidai & Rokusuke Ei) Kæra sána / Faðir Stefán (Stefán Þór Þorgeirsson) UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

Í lok síðustu viku voru kynntar niðurstöður rannsóknar sem bar nafnið Öruggarin hinsegin borgir, sem unnin er af Nordic Safe Cities fyrir Reykjavíkurborg. Þar kemur fram að ein af hverjum tíu athugasemdum um hinsegin málefni á samfélagsmiðlum inniheldur hatursorðræðu. Þar sést allt frá niðrandi athugasemdum til hótana og neteineltis sem getur valdið fólki vanlíðan, dregið fram skaðlegar staðalímyndir og alið á rangfærslum um hinsegin fólk. Reyn Alpha Magnúsdóttir forseti Trans Ísland kom í þáttinn í dag og sagði okkur betur frá þessari rannsókn og fór með okkur yfir upplifun sína og fólks í félaginu Trans Ísland. Við fræddumst svo um nýtt uppistand Pörupilta um EKKO málin; Einelti, kynferðislegt áreiti, kynbundið áreiti og ofbeldi. Pörupiltar eru leikkonurnar Alexía Björg Jóhannesdóttir og Sólveig Guðmundsdóttir. Í uppástandinu fara þær í fyrirtæki og nálgast þessi erfiðu og vandmeðförnu málefni á gamansaman hátt. Uppistandið er hugsað sem tækifæri til að fræða starfsfólk fyrirtækja um EKKO málin í gegnum húmor. Áður hafa Pörupiltar gert Kynfræðslu Pörupilta sem sýnd var fyrir alla 10. bekkinga sjö ár í röð. Sólveig Guðmundsdóttir, leikkona og pörupiltur kom í þáttinn í dag. Á Heilsuvaktinni ræddi Helga Arnardóttir við Hrund Gunnsteinsdóttur, sem hefur verið sendiherra innsæis um árabil eða allt frá því heimildamynd hennar INNSÆI var birt á Netflix árið 2016 og var sýnd um allan heim. Fyrir nokkru sagði hún upp fastri vinnu sinni og seldi einbýlishús sitt, flutti til Berlínar og skrifaði bókina Innsæi sem hefur komið út á mörgum tungumálum og fengið góðar viðtökur. Hrund er einnig leiðtogaþjálfi og stendur nú fyrir námskeiðum þar sem hún kennir fólki að þekkja innsæið sitt og fylgja því í leik og starfi. Tónlist í þættinum í dag: Við viljum lifa / Ríó Tríó (L. Alberto, texti Helgi Pétursson) Clair / Gilbert O' Sullivan (Gilbert O' Sullivan) Way home / Blood Harmony (Örn Eldjárn) UMSJÓN: GUNNAR HANSSON

Katla Gunnarsdóttir er það sem kallað er smörrebrauðsjómfrú að mennt. Frá því hún lauk sveinsprófi hefur hún starfað á frokostveitingastaðnum Tívolíhallen í eigu smörrebrauðsjómfrúnnar Helle Vogt, en hún rekur eldhúsið uppá gamla mátann með klassísku smörrebrauði og dönskum réttum. Katla er þessa dagana með annan fótinn á landinu en hún er meðal annars að bíða eftir leyfi frá Reykjavíkurborg í samstarfi við veitingastaðinn Hosiló um að opna klassískan Smörrebrauðsstað í Safnahúsinu á Hverfisgötunni. Katla sinnir líka meistaraverkefni frá DTU í Kaupmannahöfn en þar kemur síld við sögu. Við spjölluðum við Kötlu í þættinum. Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum heldur reglulega námskeið fyrir sjúkraliða og annað fagfólk í heilbrigðisgeiranum, en í lok þeirra spyrja þau þáttakendur hvaða námskeið þau myndu vilja að MSS stæði fyrir næstu önn. Óskanámskeið talsvert margra var námskeiðið „Örmagna heilbrigðisstarfsfólk“. Og það er skemmst frá því að segja að námskeiðið hefur verið sett á um miðjan nóvember og Ragnheiður Guðfinna Guðnadóttir, leiðbeinandi á námskeiðinu, var hjá okkur í dag og sagði frá námskeiðinu og örmagna heilbrigðisstarfsfólki. Lesandi vikunnar í þetta sinn var Þór Tulinius, leikari, leikstjóri, leikskáld, leiðsögumaður og nú rithöfundur. Við fengum hann til að segja okkur frá nýrri skáldsögu sinni, Sálnasafnarinn, og svo auðvitað því sem hann hefur verið að lesa undanfarið og hvaða bækur og höfundar hafa haft mest áhrif á hann í gegnum tíðina. Þór talaði um eftirfarandi bækur og höfunda: Ilmurinn eftir Patrick Suskind Jötunsteinn e. Andra Snær Magnússon Bók vikunnar e. Snæbjörn Arngrímsson Í skugga trjánna e. Guðrúnu Evu Mínervudóttur Samuel Beckett og Harold Pinter Tónlist í þættinum í dag: Sjóddu frekar egg / Bogomil Font (Bragi Valdimar Skúlason) Begin the Beguin / Ella Fitzgerald (Cole Porter) The Sun Ain't Gonna Shine Anymore / The Walker Brothers (Bob Crewe & Bob Gaudio) I'll Come Running Back to You / Sam Cooke (Sam Cooke) UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

Föstudagsgestur Mannlega þáttarins í þetta sinn var Margrét Ákadóttir leikkona, listmeðferðarfræðingur og kennari. Við fórum með henni aftur í tímann á og í gegnum lífið og ferilinn til dagsins í dag. En Margrét leikur eitt aðalhlutverkið í nýrri íslenskri kvikmynd, Víkin, sem var frumsýnd í kvikmyndahúsum í gær. Spennumynd sem gerist á einum afskekktasta stað á landinu. Margrét sagði okkur betur frá myndinni og sjálfri sér í þættinum í dag. Svo var auðvitað matarspjallið með Sigurlaugu Margréti. Það er 1. nóvember á morgun og það er heilmikil vetrarstemmning í loftinu, myrkrið, snjórinn, óveður og ófærð minna okkur á að það er komin vetur og hverri árstíð fylgir ákveðin stemmning og breyting. Matarsmekkur okkar breytist, þyngist aðeins, sumir nota þá meira smjör og meiri rjóma. Smákökur og paté komu við sögu í matarspjalli dagsins. Tónlist í þættinum: Ég fer í nótt / Helgi Björnsson (erlent lag, texti Ómar Ragnarsson) People Have The Power / Patti Smith & Choir! Choir! Choir! (F. Smith & Patti Smith) Both Sides Now / Joni Mitchell (Joni Mitchell) UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

Við fræddumst um ofbeldi gegn eldri borgurum í dag í kjölfar málþings sem Landsamband eldri borgara stóð fyrir um hvernig hægt er að tryggja öryggi eldri borgara og þar sem varpað var ljósi á algengi ofbeldis gegn eldri borgurum á Íslandi. Þeir Björn Snæbjörnsson og Sigurður Ágúst Sigurðsson skrifuðu grein á visir.is þar sem þeir fóru yfir það sem kom fram á þinginu og þeir komu einmitt til okkar í dag og sögðu okkur frá því. Í nýjasta tölublaði af Neytendablaðinu er sjónum beint að yngstu neytendunum. Eðli máls samkvæmt njóta börn og unglingar meiri neytendaverndar en þau sem eldri eru en því miður er þó víða pottur brotinn. Systursamtök Neytendasamtakanna í Noregi og Bretlandi birtu nýlega rannsóknir sem sýna að barnamatur í verslunum er ekki alltaf eins hollur og fólk heldur og þetta kemur mörgum foreldrum í opna skjöldu því þeir treysta því að strangar reglur gildi um barnamat. Maukaður matur í skvísum telur nú um þriðjung alls barnamatar í verslunum og fingramatur, sem svo er kallaður, nýtur einnig vaxandi vinsælda. Sérfræðingar í næringu ungbarna, erlendis sem hérlendis, hafa áhyggjur af þróuninni, Brynhildur Pétursdóttir er ritstjóri Neytendablaðsins og hún sagði okkur betur frá þessum rannsóknum á barnamat í þættinum í dag. Valdimar Svavarsson ráðgjafi kom til okkar í dag og við héldum áfram að tala um mannlegi samskipti. Valdimar tók upp þráðinn þar sem hann endaði síðasta fimmtudag, með ástarsambönd, mismunandi þarfir og væntingar og hlutverk sem við göngum í í samböndum. Hann fór svo yfir grunn langlífra sambanda, hvað þarf til að samband verði langlíft og hverjar eru viðvörunarbjöllurnar sem geta komið því úr jafnvægi. Tónlist í þættinum: Það þarf fólk eins og þig / Rúnar Júlíusson (Buck Owens, texti Rúnar Júlíusson) Fallegur dagur / Bubbi Morthens (Bubbi Morthens) Orðin mín / Sigurður Guðmundsson og Memfismafían (Bragi Valdimar Skúlason) It's a Good Day / Peggy Lee (Peggy Lee & Dave Barbour) UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

Þórarinn Eldjárn, rithöfundur og ljóðskáld, kom í þáttinn í dag. Hann þarf auðvitað ekki að kynna fyrir hlustendum, hann hefur sent frá sér fjölda ljóðabóka, smásagna og skáldsagna sem eru samofin menningu okkar. Auk þess hefur hann þýtt mikið úr Norðurlandamálum og ensku, en hann lærði í Svíþjóð og bjó þar nánast allan áttunda áratuginn. Þórarinn hefur þýtt fjögur leikrita Shakespeare og við ræddum við hann um það í dag, því það er ekkert smá verkefni, enda eru þau að mestu í bundnu máli. Stakhendur Shakespeare og flókinn orðaforði þeirra er ekki bara hristur fram úr erminni, og í ljósi umræðna um stöðu íslenskunnar var mjög áhugavert að heyra hvernig Þórarinn fer í slíkar glímur. Slagdagurinn svokallaði er núna á laugardaginn, þetta er dagur alþjóðlegs átaks gegn slagi eða heilablóðfalli. Slagdagurinn verður í Kringlunni í Reykjavík og á Glerártorgi Akureyri frá kl.13-15. Dr. Anna Bryndís Einarsdóttir taugasérfræðingur og yfirlæknir taugadeildar Landspítalans, og Þórir Steingrímsson formaður Heilaheilla komu í þáttinn og fóru meðal annars yfir þau einkenni sem við þurfum að vera vakandi fyrir og gætu bent til slags. Kristjana Arngrímsdóttir söngkona og José Manuel Neto, einn virtasti gítarleikari samtímans á portúgalskan gítar, koma saman á fadotónleikum í Hörpu 1. nóvember. Það er ekki á hverjum degi sem tækifæri gefst á að heyra Fado tónlist á Íslandi á tónleikum en og hér gefst tækifæri til þess að heyra portúgalska örlagatónlist og íslensk ljóð og lög fléttast saman. Kristjana kom í þáttinn í dag. Tónlist í þættinum í dag: Dagar og nætur / Björgvin Halldórsson (Jóhann G. Jóhannsson) Þakka þér fyrir / Stefán Hilmarsson (Gunnar Þórðarsson, texti Stefán Hilmarsson) One of These Things First / Nick Drake (Nick Drake) Lítið ástarljóð / Kristjana Arngrímsdóttir (Kristjana Arngrímsdóttir, texti Elísabet Geirmundsdóttir) UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON